20.2.2020 | 23:01
"Fljúgandi Finnarnir" stökkva iðulega enn lengra en James Bond."
Alveg fram á okkar daga hefur meirihluti vegakerfisins í Finnlandi verið malarvegir.
Að flestu leyti er slíkt bagalegt, en að einu leyti skapaði þetta heimsfrægð hinna "fljúgandi Finna", sem fóru margsinnis á flug á rallbílum sínum með því að aka um öldótt landslagið sem hinir frumstæðu vegir lágu um.
Það lék ljómi um nöfn eins og meistarana Marku Alen, Toivonen, Ari Vatanen og Hannu Mikkola, en ævinlega hafa Finnar líka átt djarfa og hugrakka ökumenn, sem skapa spennu og æsing í kringum sig, sýna ævintýralega takta, en lenda líka í mögnuðum hamagangi og áföllum.
Nafn Jari-Matti Latvala kemur þar til dæmis í hugann. Latvala hefur fjórum sinnum borið sigur úr býtum í eina vetrar/snjórallinu í HM í rallakstri, Sænska rallinu, en varð að hætta í rallinu núna á 7. sérleið vegna bilunar.
Það var ógleymanlegt fyrir síðuhafa að taka þátt í HM keppninni þar 1981, og sjá má á Youtube smá myndbrot af Latvala á æfingu fyrir rallið núna, sem gefur smá hugmynd um loftköstin í því ralli. 136 bílar tóku þátt í keppninni þá, og okkur bræðrum tókst að komast í mark í 66. sæti.
Í röllum hinna bestu á heimavelli í Finnlandi eins og hinu árlega HM-ralli, sem lengi hét Þúsund vatna rallið en heitir nú Finnlandsrallið, eru sumir vegakaflar merktir með 10, 20, 30 og 40 metra merkjum, þar sem þeir lenda, sem fljúga fljúga hæst og lengst.
Þetta eru þekktir staðir og alvöru flug, án nokkurra tæknibrellna í myndatöku í viðurvist þúsunda áhorfenda iðulega lengra en þá 30 metra sem hinn nýi Landrover Defender mun sjást fara í nýrri James Bond mynd.
Síðuhafi átti þess kost 1986 að taka þátt í sparaksturskeppni, sem hófst og lauk í Mekka finnsks rallaksturs, Jyveskila.
Finnland er ekki fjöllótt, en á stórum svæðum liggja malarvegirnir um hæðótt og öldótt landslag þar sem stundum er hver blindhæðin af annarrri með mismunandi beygjum hver.
Í sparakstrinum var að vísu keppt í því að fara sem sparlegast með bensínið og að engu óðslega, en engu að síður var afar gefandi að aka suma malarkaflana, sem þekktir eru í finnskum röllum og ímynda sér hvernig það væri að vera taka hverja beygjuna og hæðina af annarri á hámarkshraða þar sem rytminn skiptir öllu og það að láta bílana fljúga þannig, að þeir komi alltaf flatt og rétt niður úr hverju blindflugi á hárréttum stað og með stýri og bensíngjöf nákvæmlega stillta til að spóla sig út úr lendingunni.
Á þeim myndskeiðum á Youtube, þar sem slíkt er sýnt, er hrein unun að sjá hið ótrúlega vald sem bestu finnsku snillingarnir hafa yfir listasmíðuðum keppnisbílum sínum.
Fékk það óþvegið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.2.2020 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2020 | 13:11
"Ekki hægt að éta kökuna og eiga hana síðan."
í ofangreindum ummælum útlendings, sem rætt var við í Kveik í fyrrakvöld, átti hann við þá mótsögn, að íslensk orkufyrirtæki, sem telja sig framleiða endurhýjanlega og hreina, græna orku, selji svokallaðar upprunaábyrgðir á evrópskum markaði og taki með því upp tvöfalt bókhald hjá sér sem orki verulega tvímælis.
Í því bókhaldi, er þessi verslun með upprunaábyrgðir þannig bókfærð, að hinn erlendi kaupandi veifar vottorðinu um hreinu orkuna í sínu bókhaldi, en íslenska orkufyrirtækið setur orkuöflun úr kjarnorku, kolum eða olíu inn í orkureikinga sína til handa innlendum orkukaupendum, en heldur áfram að guma af notkun hreinna orkugjafa í sölu orkunnar á erlendum markaði.
Bókhaldið væri að vísu líka skakkt, þótt ofangreint trix kæmi ekki til, heldur stunda sum íslensku orkufyrirtækin rányrkju á orkulindunum, einkum við nýtingu hennar fyrir gufuaflsvirkjanir.
Á öllu svæðinu frá Reykjanestá norður til Hellisheiðar og Nesjavalla er sú forsenda fyrir nýtingu látin nægja, að orkan endist í 50 ár, en það er augsjáanlega langt frá því að standast kröfur, sem gerðar eru til sjálfbærrar þróunar.
Nú þegar, eftir um 15-20 ára nýtingu háhitasvæðanna, fer orka þeirra dvínandi svo mjög, að til dæmis Hs orka er í óða önn að undirbúa vatnsaflsvirkjanir um allt land, allt frá Hvalárvirkjun á Vestfjörðum ausstur í Skaftárhrepp.
Athyglisverð voru þau ummæli forstjóra Landsvirkjunar við gangsetningu Þeystareykjavirkjunar, að hún hefði getað orðið miklu stærri en hún varð.
En með tilliti til þess að hún entist lengur, yrði 90 megavatta afl látið nægja til að byrja með.
Þetta þýðir viðurkenningu á því að ekki sé hægt að éta kökuna alla og eiga hana jafnframt áfram.
Og á líka í raun við um þá fullyrðingu að öll orkuöflun á Íslandi sé 100 prósent græn, endurnýjanleg og hrein.
Sala á upprunaábyrgðum grafi undan ímynd Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2020 | 08:25
"Rok undir Eyjafjöllum" 1945 - "...á Kjalarnesi" 2020.
Þegar veðurfregnir fóru að heyrast á ný í útvarpi eftir stríðslok 1945 fór á ný að heyrast viðvörunarorðin "rok undir Eyjafjöllum" sem viðbót við þáverandi spásvæðið Suðvesturland.
Þótt flestir glöggir menn vissu þá, að stífur vindur á Suðvesturlandi gæti orðið mun hvassari undir Eyjafjöllum en annars staðar á suðvestanverðu landinu var þssari setningu samt skeytt við spána. Líklega vegna þess að með því væri tilvist roksins staðfest af til þess bærum sérfræðingum og einnig vegna þess að um þetta atriði vissu ekki alltaf allir.
Þegar lægðin, sem nú herjar, var að koma upp að landinu, mátti heyra það sagt í fréttum, að gular viðvaranir yrðu á öllum spásvæðum á landinu, nema við Faxaflóa og á höfuðborgarsvæðinu.
Nú er það svo að Kjalarnes er samtímis við Faxaflóa og á höfuðborgarsvæðinu, og þegar lægðin var komin á fullt eftir hádegi í gær, náði vindhraðainn 33 metrum á sekúndum í hviðum undir Kjalarnesi, og það hefði því ekki skaðað neinn þótt sérstakri viðvörun vegna Kjalarness og svæðisins undir Hafnarfjalli hefði verið skeytt við almennu lýsinguna.
Á báðum þessum svæðum urðu óhöpp og vandræði vegna ofsaveðurs og fárviðris samfara hálku, og því fulll ástæða til þess að vara sérstaklega við því
Lægðin títtnefnda ekki úr sögunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)