Því ríkara samfélag, því meiri missir þess, sem ekki var til fyrir 75 árum.

Spænska veikin drap fleiri en féllu í Fyrri heimsstyrjöldinni, tugi milljóna manna á ferli sínum um löndin. Dánarhlutfallið var margfalt hærra en það virðist ætla að verða í COVID-19. 

Nú flýtur um fjölmiðla stórfljót frétta af missi hluta og þæginda, sem fólki finnst ómissandi. 

En fróðlegt gæti verið að bera það allt saman við aðstæður, tæki, varning og umsvif fólks fyrir 75 árum, en margir eru lifandi sem muna vel tímana árin eftir að Seinni heimsstyrjöldinni lauk. 

Allar helstu nauðsynjavörur, svo sem matvörur, voru skammtaðar eftir stríðið og þegar verslanir fengu varning, sem hafði verið ófáanlegur í langan tíma, mynduðust langar biðraðir. 

Nánast algert innflutningsbann ríkti á bílum frá 1948-1955. Ekkert sjónvarp var, engir farsímar, engar tölvur.  Ekkert innanlandsflug var á Íslandi fyrr en að það tók að þróast hægt og bítandi eftir stríð.

Ef fólk þurfti að fara til útlanda varð að fara með skipum. Í kringum 1950 tók heilan sólarhring að aka torleiðið frá Patreksfirði til Reykjavíkur. Hringleið um landið opnaðist ekki fyrr en 24 árum síðar. Norðurleiðarútan var 12 tíma milli Reykjavíkur og Akureyrar, sem þá var 480 kílómetra löng og meðalhraðinn á leiðinni 40 km/klst. 

Meirihluti gatna í Reykjavík voru malargötur og allir þjóðvegir landsins voru mjóir, krókóttir malarvegir, stór hlutinn bara ruddir slóðar.

Avextir voru aðeins fluttir inn um jólin. 

Ekkert löglegt íþróttahús fyrir handbolta var til á landinu og landsleikir í knattspyrnu voru leiknir á frumstæðum malarvelli. 

Símar voru ekki almenningseign fyrir 75 árum og enginn sími á hundruðum bæja um allt land, hvað þá rafmagn.  Heldur ekki heimilistæki eins og kæliskápar og uppþvottavélar. 

"Hvíti dauðinn", berklar, lagði fólk á öllum aldri í gröfina í þúsunda tali. Mænuveikifaraldrar voru skæðir, enda engin lyf til við mænuveiki þá. 

Ríkisútvarpið, eina útvarpsrásin, var aðeins í gangi hluta úr degi. Þrátt fyrir nær algeran skort á skemmtiefni í útvarpi og ekkert sjónvarp, undi æskan sér vel í leikjum utan dyra, sem lítill skortur var á, þegar uppfinningasemi og æskufjör skópu endalausa möguleika á sjálfsprottnum leikjum. 

Í dagbókum síðuhafa frá þessum tíma sést, að krakkar voru í þessum útileikjum alveg fram á 15 til 16 ára aldur. 

Svona gæti upptalningin verið óralöng á því sem ýmist skorti eða var ekki til. Samt minnist síðuhafi ekki þess, að þessi ár hafi verið eins óbærilega erfið og leiðinleg og virðist líklegt í augum nútímafólks. 

Fyrir flestum, sem þá ólust upp, voru æskuárin ljúf og yndisleg. 

Það gæti verið hollt fyrir okkur að leiða hugann að því nú. 

Og leiða líka hugann að því að hvort sem hér er farsótt á ferð eða ekki, skuli þúsundir, jafnvel tugþúsundir fólks, búa áratugum saman við óviðunandi sárafátækt mitt í öllum uppsveiflunum.   

 


mbl.is Heil öld frá viðlíka ógn og veirunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hógværri kröfu hafnað? Þýskaland ekki til sölu?

Því miður mátti búast við því að Evrópuríki myndu svara einhliða ákvörðun Trumps um ferðabann til Bandaríkjanna á aðra en Bandaríkjamenn sjálfa. Í ofanálag hafði Trump undanskilið Bretlandseyjaríkin í byrjun, enda kunnugur hnútum þar með megnið af starfsemi og eignum sínum erlendis er þar. 

Engum hefði átt að koma einhliða ferðabann Trumps á óvart, því að stefna hans er "to make America great again" og "America first."  Út á það var hann kosinn í kosningakerfi, sem bauð upp á mismunun á kosningarétti eftir efnahag og þau úrslit, að verða kosinn með næstum þremur milljónum færri atkvæðum en keppinauturinn. 

Skilningur hans á orðinu Ameríka gildir þó aðeins um Bandaríkin, því að Kanadamenn hafa verið í ónáð frá byrjun, þegar innflutningur á hagkvæmum farþegaþotum frá Kanada var í raun bannaður með ofurtollum. 

Lítilsvirðing hans á Evrópubúum hefur einnig verið staðföst stefna, samanber viðleitni hans til að hamla því að evrópskir bílar séu vinsælir vestra, jafnvel þótt þeir séu að stórum hluta framleiddir í hans eigin landi. 

Nýjasta útspilið er það, að vegna þess að bandarískum læknum hefur ekki tekist enn að búa til bóluefni við COVID-19, heldur aðeins þýskum læknum, hefur Trump gert hinum þýsku tilboð, sem ekki væri hægt að hafna; sem sé að borga offjár fyrir kaup Bandaríkjamanna á bóluefninu með því skilyrði að engri annarri þjóð verði gert kleyft að nota það. 

Gylliboð og hógvær krafa "to make America great again", efnd á kosningaloforðum. 

Í fullu samræmi við upphaflega ferðabannið, sem gilti ekki um bandaríska ríkisborgara. 

Ekki ósvipað kostaboði til Dana um að kaupa Grænland af þeim. Auðvitað eru drepsóttir bara bísniss eins og annað, og auður forsetans sýnir hvaða leið er vænlegust fyrir þjóð hans, eða hvað? 

Forsætisráðherra Dana reitti Trump til reiði þegar hún sagði að Grænlanda væri ekki til sölu og hann valdi henni hin verstu orð. 

Nú berst svipað svar frá Þýskalandi: Þýskaland er ekki til sölu. Allar þjóðir skulu eiga sama rétt á að nýta sér bóluefnið, ekki bara ein sjálfútvalin. 


mbl.is Ljósin slokkna smátt og smátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta Mazdan var "kei"-bíll. Gætum lært af Japönum en viljum það ekki.

Fá lönd eru þéttbýlli en Japan þar sem óvenju mikill hluti flatarmáls landsins fer undir stórborgir. Fyrir bragðið olli fjölgun bíla miklum umferðarvandræðum. Brugðu þeir því á það ráð um 1960 að ívilna mjög svonefndum kei-bílum, sem væru styttri en þrír metrar, mjórri en 1,30 m og með minni vél en 360 cc. Daihatsu Cuore

Þetta kerfi hefur verið við lýði í Japan síðan en að vísu verið breytt lítillega fjórum sinnum í þá átt að leyfa aðeins stærri kei-bíla. 

Síðuhafi á ennþá tvo kei-bíla, án númera, og er annar þeirra fjórhjóladrifinn Cuore, hvítur, eins og þessi á myndinni. 

Þeir dugðu afar vel árum saman, og á mynd af bækistöð við Hvolsvöll 2010 má sjá Cuore, sem þjónaði löngum þar sem gististaður, farartæki og vinnustaður. TF-FRÚ Hvolsvelli 10.5.2010 Eldgos.

Núna eru mörkin 3,40 m að lengd, 1,48 m á breidd og hámarksstærð hreyfils 660 cc og hámarksafl 64 hestöfl, því að framleiðendurnir fundu leið hvað varðaði afl hinna smáu véla með því að setja á þær forþjöppur. 

Vinsælustu kei-bílarnir hér á landi voru algengir á sjöunda og áttunda áratugnum, þegar hámarksmálin í Japan voru 3,20 x 1,40.  Suzuki Alto og Fox og Daihatsu Cuore voru vinsælastir, og var sá síðarnefndi algert viðundur hvað snerti innanrými, jafn þægilegt að sitja og ferðast í aftursæti og í stórum evrópskum bílum. 

Síðasti kei-bíllinn var fluttur inn um síðustu aldamót, Daihatsu Cuore. 

En síðan verður að nefna það að einn kei-bíll, Suzuki Jimny, sem á tímabili bar nöfnin Fox og Samurai, er í raun enn fluttur inn til landsins, en hefur verið breytt þannig í Japan til útflutnings, að settar hafa verið utan á hann plastbreikkanir til að gera það mögulegt að lengja hásingarnar og breikka bílinn þannig um 12 til 15 sentimetra. 

Einnig settar í þessa bíla stærri vélar. 

Eitt atriði í kei-reglunum mættu aðrar þjóðir en Japanir taka upp; að ívilna bílum í sköttum og álögum eftir lengd þeirra, þannig að þeim væri umbunað eftir því hve stuttir þeir væru. 

Á þetta hefur síðuhafi margminnst un áraraðir og notað kei-bíla óspart, en styttri bílar myndu skapa mikið rými á götunum, sem annars er þakið plássfrekari bílum. 

En ávallt hefur verið talað fyrir daufum eyrum. 

 


mbl.is Fyrsta Mazdan stendur á sextugu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. mars 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband