"Góð viðbót við "jeppa"flóruna? P.S. Af svipaðri stærð og Vitara.

Í heimsmeistarakeppninni í ralli hefur Toyota gengið vel í fyrstu þremur röllunum. Hér um árið notuðu verksmiðjurnar Toyota Celica, sem var sportbíll í millistærð, til að blanda sér í toppbaráttuna, en nú er notaður næst minnsti bíllinn, Yaris. Toyota Yaris Cross

Í ralli reynir mjög á sömu atriðin og við torfæruakstur; styrkleika, öryggi og reynslu. 

Með því að sækja fram í heimsmeistarkeppninni ræktar Toyota og nýtir sér reynsluna af framleiðslu traustra jeppa og þátttöku í bílaíþróttum. 

Fróðlegt verður að kynna sér sókn Toyota niður á við í stærð, sem ætti að geta skilað áreiðanlegum bíl fyrir jeppaslóðir á viðráðanlegu verði. Suzuki Jimny 2019

Veghæð og mikið hraðasvið í drifbúnaði skipta máli alveg eins og það að hafa fjórhjóladrif. 

Auglýst er að bíllinn verði boðinn með drifi á aðeins tveimur hjólum. Ef það verður gert, er það gert til að geta boðið hann á miklu lægra verði en fjórhjóladrifsbílinn. 

Það var byrjað að gera þetta í miklum mæli þegar 21. öldin gekk í garð og það svínvirkaði svo mjög, að margir svonefndir sport"jeppar" og "jepp"lingar eru ekki einu sinni í boði með afturhjóladrifi né þeirri veghæð, sem hæfir ósviknum jeppa. Suzuki Vitara 2020

En skoðanakannanir sýndu að yfir 90 prósenta kaupenda var drullusama. 

Með því að útvatna svona jeppahugtakið var sinnt þeirri ríkjandi hugsun flestra kaupenda að "það halda allir að ég sé á jeppa." 

Nýi Yaris "jeppinn" líkist þar að auki svo mjög RAV 4, að hugsanlega kunna einhverjir að bæta við "það halda allir að ég sé á RAV 4 jeppa"?

Of snemmt er að fella neina dóma um hinn nýja Yaris Cross, sem lítur við fyrstu fjarsýn út fyrir að vera með drjúga veghæð, en er, þegar það er kannað betur, aðeins þremur sentimetrum hærri undir lægsta punkt en venjulegur Yaris. 

Þegar RAV 4 kom á markað sem ákveðinn tímamótabíll fyrir rúmum aldarfjórðungi, var hann álíka stór og þungur og hinn nýi Yaris Cross er núna, og hefur RAV 4 síðan vaxið og þyngst svo mjög, að hann er um 50 prósent þyngri en upprunalegi bíllinn og í allt öðrum verðflokki og stærðarflokki. 

Með því hefur hann skilið eftir skarð í bílaflóru Toyota, sem ber að fagna, að nú eigi að fylla með hinum nýja bíl, sem verður, rétt eins og upprunalegi RAV 4, í svipuðum stærðarflokki og eini alvöru jeppinn, sem eftir er í minnsta stærðarflokknum, Suzuki Jimny.

Raunar sýnist Yarisinn vera talsvert stærri en Súkkan, svo að það verður að hinkra eftir því að hægt verði að kynna sér hann nánar. 

Hugsanlega mun Yaris Cross keppa frekar við minnstu hliðstæðu gerðirnar hjá öðrum bílaframleiðendum, þar sem úrvalið er yfirdrifið í samræmi við þá rangnefndu "jeppa"dellu, sem hefur ríkt um allan heim. 

P.S. Nýjustu upplýsingar eru þær, að þessi bíll verði nokkurn veginn upp á sentimetra jafn stór og Suzuki Vitara, og þar af leiðandi 60 sentimetrum lengri en Suzuki Jimny og í allt öðrum flokki bíla. Sem sagt: Ekki jeppi í sama skilningi og Jimny.  

 


mbl.is Minnsti jeppi frá Toyota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei misdægurt öll sumrin í sveit.

Síðuhafi var sendur í sveit til útivistar í níu sumur á aldrinum frá fimm til fjórtán ára. 

Sex ára varð hann mjög veikur í margar vikur um miðjan veturinn í Reykjavík af sótt, sem erfitt var fyrir læknana að greina, en gat verið afbrigði af mænusótt, sem þá stakk sér niður og kostaði nokkur mannslíf. 

Læknirinn taldi hins vegar að miklu hefði ráðið um það, hve vel var sloppið frá þessum alverlegu veikindum, að í sveit að Hólmaseli í Flóa sumarið áður hefði mikil útvist eflt heilsu og hreysti borgardrengsins til muna og hann komið sérlega "útitekinn" og og sprækur til baka. 

Aðstæður voru frumstæðar í sveitinni hluta af sumrinu og sofið í tjöldum í hlöðunni á meðan stóð á byggingu nýs íbúðarhúss. 

Aðstæður voru líka frumstæðar í Kaldárseli, þar sem unað var úti allt sumarið og aðeins borðaður hollur matur en kökur, sætindi og gosdrykkir víðs fjarri nema daginn áður en farið var til byggða. 

Í Hvmmi í Langadal var fjósið í kjallara íbúðarhússins og engin aðstaða á þeim tima til baða þau sumur. Sambúðin við skít og náttúru var náin við störf og leik, þar sem sumarstörfin og heyannirnar með notkun hesta og handafls urðu æ fyrirferðarmeiri eftir því sem líkamlegt þrek óx í uppvextinum. 

Ekki var kynt upp á sumrin, heldur sköffuðu kýrnar í kjallaranum undir eldhúsinu þann litla yl, sem notast var við.  Á þeim tíma voru hlutir eins og sími, kæliskápu, rafmagnseldavél og rafknúin tæki í eldhúsi ekki þarna, enda aðeins lítið rafmagn að fá úr örlítilli heimarafstöð í litlum, tilbúnum bæjarlæk, sem leiddur var í handgröfnum skurði á ská niður fjallshlíðina utan úr fjallinu fyrir ofan bæinn. 

Ekki þurfti nema að kýr eða hestur stigi í þennan litla skurð, sem var aðeins númt fet á breidd til þess að vatnið færi út úr honum, og var því algengt að byrja daginn á að fara með skóflu upp í fjall til að laga skemmdirnar. 

Til þess að mjaltavélin fengi næga orku varð að deyfa og slökkva öll ljós á bænum þegar fór að skyggja á kvöldin síðsumars. 

Á þessum árum urðu börn að hlíta því að verða veik af mislingum, hettusótt, rauðum hundum og öðrum umgangspestum og farsóttum, en aldrei rekur mig minni til að mér hafi orðið misdægurt eða fengið kvef öll þessi sumur, sem sambýlið við náttúruna var náið í sveitinni. 

Í borginni var útivera mun snarari þáttúr í tilverunni en nú er. Ekkert sjónvarp, tölvur eða snjallsímar til að glepja fyrir og útvarp aðeins í gangi á kvöldin.   


mbl.is Íslendingarnir sem skara fram úr í útivist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband