1940: "Orrustan um London", innrás í Egyptaland, innrás í Sovét undirbúin.

Fyrir réttum 80 árum þennan dag, 13. september, stóð Orrustan um Bretland sem hæst, en sérstakur hluti hennar, "Orrustan um London, hafði hafist 9. september með 1000 flugvéla árás á borgina, þar af 350 sprengjuflugvélum. 

Nokkrum dögum fyrr hafði Hitler hótað því að sprengja breskar borgir í tætlur fyrir komandi innrás og 13. september létu Bretar stærsta orrustuskip sitt, HMS Hood, sigla frá Scapa Flow suður til Rosyth ásamt herskipunum Nelson og Rodney til þess að vera sem næst væntanlegum þýskum innrásarflota. 

Þjóðverjar virtust til alls vísir, Göring þóttist sjá merki þess að RAF, breski flugherinn, væri að gefa eftir og meira að segja var fimm sprengjum varpað á Buckingham höll. 

Bretar tæmdu Lundúnahöfn af hafskipum og dreifðu þeim. 

13. september réðist ítalski herinn inn í Egyptaland. 

Japanir beittu Mitshubishi Zero orrustuvélum í fyrsta sinn með geigvænlegum árangri, 13 Zero vélar fóru til fylgdar sprengjuflugvélum yfir Chungking í Kína og lentu í bardaga við 20 flugvélar. 

Úrslitin urðu 20-0, engin Zero skotin niður, en allar varnarvélarnar. 

Zero var ekki aðeins yfirburða herflugvél þegar hún kom fram og sú eina, sem gat náð svona árangri með því að athafna sig frá flugmóðurskipi, heldur burðarásinn í árásinni á Pearl Harbour rúmlega ári síðar. 

Það var ekki fyrr en þremur árum síðar, sem Kanarnir voru komnir með öruggan ofjarl hennar, Grumman Hellcat. 

Bandaríkin voru að vígbúast þessa septemberdaga og 9. september pantaði bandaríski sjóherinn 12 flugmóðurskip, 7 orrustuskip og 193 smærri herskip. 

Meira að segja á Íslandi urðu tímamót þessa haustdaga þegar komnar voru til landsins 18. breskar sprengjuflugvélar af gerðinni Farey Battle til loftvarna og til þess að herja á þýska kafbáta við landið.

Það hefur heldur betur verið í mörg horn að líta hjá íslensku fjölmiðlunum þessa daga fyrir 80 árum. 

Og Hitler var þegar á haustdögum byrjaður að undirbúa óhjákvæmilega árás á Sovétríkin með því að gera ráðamenn Júgóslavíu, Rúmeníu og Búlgaríu að bandamönnum.

Einmitt umrædda septemberdaga 1940 voru fasistar að taka völdin í Rúmeníu og ákveðið var að fjölga þýsku skriðdrekaherdeildunum, sem beitt yrði í Rússlandsstríði í maí 1941, úr 10 í 20.   

  


Áratuga vanmat á góðu svæði.

Áratugum saman hefur það verið eins konar trúarsetning að þungamiðja samgangna, atvinnu og byggðar á höfuðborgarsvæðinu sé ævinlega hin sama og hún var 1940 með nafla alheimsins nokkurn veginn þar sem Hljómskálagarðurinn er. 

Þessari trúarsetningu halda enn nokkrir duglegir greinahöfundar, sem fullyrða, að ef aldrei hefði verið gerður flugvöllur þar sem hann hefur verið, hefði byggð aldrei myndast utan Elliðaáa. 

Ekki þarf annað en að líta á íbúatölur í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu til að sjá, að það hefði verið fjarri lagi að þeir 130 þúsund íbúar, sem nú búa austan og sunnan Elliðaáa, hefðu komist fyrir í Vatnsmýri. 

Sömuleiðis blasir við á kortum hvernig þungamiðja höfuðborgarsvæðisins hefur færst frá Hljómskálagarðinu austur undir Elliðaár. 

Af þeim sökum liggur það fyrir, að svæðið Ártúnshöfði-Mjódd-Skemmuhverfi-Smárinn er nálægt þessari miðju, og Keldnalandið því álíka langt frá miðjunni og Vatnsmýrin er. 

Nýlega viðurkenndi borgarstjóri þó í ræðu í tilefni endurskipulagningar Ártúnshöfðasvæðisins að það væri dýrmætt vegna miðlægrar legu sinnar. 

Þegar litið er á fyrirhugaða legu Borgarlínu sést vel, hvers vegna svo er. 

Og þar með gegnir það æ meiri furðu hve lengi áratuga vanmat Keldnasvæðisins þar rétt austan við hefur valdið því að þar er stór eyða í byggðinni á höfuðborgarsvæðinu.  


mbl.is „Gat“ upp á 4.000 íbúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband