Miklu fleiri "spennandi Kínverjar" en menn órar fyrir.

Rísandi þjóðir hafa löngum verið stórlega vanmetnar af öðrum þjóðum, sem hafa verið bundnar af of mikilli vanþekkingu og jafnvel fordómum til þess að leggja raunsætt mat á getu þeirra og framlegð. 

Fordómarnir felast helst í því að halda áfram að sjá heiminn með sömu augum og áður en þessir nýju þátttakendur í framlegð til efnahagslífs, menntunar, menningar, tækni og framleiðslu. 

Kína og Indland hafa risið úr öskustó á undanförnum áratugum sem efnahagsleg stórveldi og raunar má bæta Tævan og Suður-Kóreu við auk Japans, sem hóf sitt "efnahagsundur" fyrir hálfri öld. 

Þá var í fyrstu hlegið að bandaríska bílaframmleiðandanum Preston Tucker, sem hinur "þrír stóru", GM, Ford og Chrysler beittu pólitísku afli til að knésetja af því að bíll hans þótti hugsanleg ógn við staðnaða bíla risanna. 

Þegar Tucker vann sigur að lokum í málaferlunum, sem var beint gegn honum, sagði hann sem lokaorð, að ef landar hans ætluðu að halda áfram á þessari braut, myndu þeir eiga eftir að vakna upp við vondan draum þegar hinar nýsigruðu þjóðir Þýskaland og Japan myndu fara fram úr þeim í bílaframleiðslu. Það var eftir þessi orð hans sem viðstaddir í réttarsalnum brustu í skellihlátur, svo mikil fjarstæða þótti þetta. 

Tucker var ekki nógu framsýnn til þess að bæta Kína við sem væntanlegu risaveldi, en um það efni hafði verið sagt löngu fyrr, að þar væri um að ræða sofandi risa og það mætti biðja guð að hjálpa sér ef hann rumskaði við sér. 

Það er talsvert umliðið síðan Kína fór upp í fyrsta sætið í bílaframleiðslu þjóða heims, og þeir og Tævanir flest og best bifhjól. 

Mörg forn vígi hafa fallið, svo sem að það land heims sem framleiðir flesta Buick bíla er Kína, og að Indverjar eiga bílaverksmiðjurnar sem framleiða lúxusbílana sem áður voru stolt Bretlands svo sem Rolls-Royce og Landrover með sinn eðal Range Rover. 

Síðuhafi stóð í þeirri trú að Honda PCX léttbifhjólið hans væri japanskt en þegar það fór í fyrstu ökutækjaskoðunina kom í ljós að það er framleitt á Tævan og rafreiðhjólið Náttfari er af Dyun gerð, kínverskt! 

Og Suzuki bíll eiginkonunnar er ekki japanskur, heldur indverskur! Næsta stærð fyrir ofan hann í Suzukibilum hér á landi, Suzuki Swift, er rúmenskur!

Fyrir löngu orðið úrelt að tala um rúmenska bíla á borð við Dacia sem "austantjaldsdrasl".  


mbl.is Spennandi Kínverji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar og átök í vændum fjölmiðlun líkt og fyrir tveimur áratugum?

Fyrir öld voru hræringar í útgáfu blaða á Íslandi, sem voru hluti af myndun fjórflokksins svonefnda á fyrstu tveimur áratugum fullveldisins.

Jónas Jónasson frá Hriflu varð kandidat fyrir stjórnmálamann aldarinnar þegar hann varð aðal áhrifavaldurinn og hugmyndasmiðurinn að stofnum tveggja stjórnmálaflokka, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins sem var ætlað að mynda mótvægi við Íhaldsflokkinn, síðar Sjálfstæðisflokkinn, og skyldi Alþýðuflokkurinn höfða til vinstra fólks en Framsóknarflokkurinn til dreifbýlisins og samvinnufólks, sem þá var hlutfallslega miklu fjölmennara en síðar varð. 

Áætlun Jónasar varð að veruleika með ríkisstjórnum undir forystu Framsóknarflokksins allt til ársins 1942, þegar þríflokkurinn hafði þróast yfir í fjórflokk með klofningi Alþýðuflokksins.

Afar bjöguð kjördæmaskipan litaði stjórnmálin fram til 1959 og fjögur dagblöð, sem kalla mátti flokksblöð, Morgunblaðið, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn réðu umræðunni fram undir lok aldarinnar. 

Síðdegisblaðið Vísir og síðar Dagblaðið, sameinuðust í DV síðasta aldarfjórðunginn. 

Vísir var á svipuðu róli pólitískt og Morgunblaðið, og Sjálfstæðisflokkurinn naut um 40 prósenta fylgi út öldina, meðal annars í krafti yfirburða á blaðamarkaðnum. 

Undir aldamót voru vinstri flokksblöðin þrjú dauð, og hið mikla veldi Morgunblaðsins var í algleymi þegar ný öld var að ganga í garð. Allt fram til 1990 höfðu helstu völd í efnahagslífinu verið í höndum samvinnufélaganna, SÍS og öflugra heildsala og fjáraflamanna.  

Gullin öld virtist blasa við hjá Morgunblaðinu og Sjálfstæðisflokknum.  

Ef netið og samfélagsmiðlarnir hefðu verið komnir á þessum tíma, er óvíst að hugmndin um Fréttablaðið hefði getað orðið til. 

En með stofnun þess varð ákveðin sprenging í íslenskum stjórnmálum sem litaði þau hressilega á næstu árum. 

SÍS hafði farið á hausinn og Bónusfeðgar og Hagkaupaeigedur réðust í krafti byltingar á viðskiptaháttum inn á þann vettvang viðskiptalifsins sem hafði verið svo samanjörvaður fram að því. 

Fréttablaðið varð þungamiðjan í nýju blaðastríði sem náði hámerki í fjölmiðlalögunum, sem forseti íslands neitaði að skrifa undir í krafti 26. greinar stjórnarskrárinnar, sem gefur honum málskotsrétt varðandi lög. 

Síðustu tvo áratugi hefur ríkt nokkurs konar pattstaða í samkeppni Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, en sé sú greining Gunnars Smára Egilssnar rétt, að bylting í fjölmiðlun og skoðanamyndun eigi sér nú stað í heimi alveg nýs umhverfis á því sviði sem sé byrjuð að kippa fótunum undan Fréttablaðinu, gæti stefnt í svipuð átök og breytingar á þessu sviði og urðu fyrir tveimur áratugum þegar óvæntar sviptingar urðu. 

Það gætu verið spennandi tímar framundan á þessum mikilvæga vettvangi. 

 


mbl.is Fréttablaðið hlýtur að hætta á þessu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband