"Þung fjórhjól" berja að dyrum.

Í Frakklandi fá 14 ára unglingar leyfi til að aka ökutækjum, sem eru með 45 km/klst leyfilegan hámarkshraða. 

Í nokkrum fylkjum Þýskalands er aldurstakmarkið 16 ár og einnig víðar í Evrópu. 

Í samræmi við þetta eru til tveir flokkar bíla framleiddir, og bílar í þyngri flokknum skilgreindir sem "heavy quadracycle" eða "þung fjórhjól" , o g nefnist léttari flokkurinn L6e, en það eru rafbílar, sem eru ekki þyngri en 425 kíló án rafhlaðna og ná ekki meiri hraða en 45/klst. 

Á þessari bloggsíðu hefur verið fjallað um hinn spánnýja Citroen Ami, sem miðar dvergbíl sinn við þennan fjölmenna markhóp og hefur einnig þann stóra kosta nýr aðeins 1,2 milljónir íslenskar. 

Brimborg hefur einn slíkan bíl nú til umráða í tilraunaskyni

Ligier bíllinn, sem sagt er frá í frétt mbl.is frá Noregi, er bensínknúinn bíll í þessum stærðar- og þyngdarflokki. Ligier dvergbílar hafa verið framleiddir í tugi ára, og á þeim tíma hefur þeim brugðið fyrir á Kanaríeyjum.  

Næsti rafbílaflokkur fyrir ofan er L7e, sem má vera 450 kíló án rafhlaðna, með 90 km/klst hámarkshraða og 15 kílóvatta hámarksafl, sama og 20 hestöfl. DSC00201  

BL er með tvo bíla af gerðinni Invicta hjá sér með ásett verð 2,6 millur, og hefur verið greint stuttlega frá þeim hér á síðunni, en stærsti kostur þeirra er mæld drægni hjá síðuhafa í reynsluakstri uppá 115 kílómetra. 

Það bankar í fyrstu kynslóðina af Nissan Leaf, sem var með 24 kwst rafhlöðu, en Invictan er með 18 kwst rafhlöðu, og vegnq mikils léttleika, 704 kíló, sem er meira en helmingi minni þyngd en var á 1. kynslóð Leaf, nær þessi netti bíll þetta miklu drægi. 

Síðuhafi hefur rúmlega þrjú og hálft ár haft tveggja sæta ítalskan rafbíl, Tazzari Zero, af af stærð Invicta til umráða, og hefur meðal drægni hans verið 90 kílómetrar og hámarkshraðinn yfir 90 km/klst. 

Myndin hér að ofan er af þessum tveimur, Invicta framan og Tazzari fyrir aftan. 

Einnig hefur hér á síðunni verið greint frá fleirum bílum af þessu tagi, sem nú koma hver af öðrum á markaðinn á því sviði bílaframleiðslu, sem er í einna mestri þróun.  

 


mbl.is „Nöðrubíllinn“ umdeildur í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaftá hefur verið á aftökulista undanfarna áratugi.

Undanfarna áratugi hafa virkjanaunnendur rennt hýru auga til Skaftár og lagðar hafa verið fram áætlanir um að minnsta kosti tvær virkjanir í ánni, efst í henni, og niðri við Skaftárdal. 

Efst í henni byggðist virkjunin á því að stífla hana og flytja vatnið í henni yfir í Langasjó og síðan í jarðgöngum þaðan yfir í Tungnaá og taldir ýmsir kostir við það. 

1. Vatnsmagn og orkuframleiðsla myndi aukast í virkjanakerfi Tungnaár og Þjórsár. 

2. Aurframburði í Skaftárhlaupum yrði bægt í burtu yfir í Langasjó. 

3. Fyrir tveimur öldum hefði Skaftá runnið yfir í Langasjó og þess vegna þjóðþrifamál að koma því atriði aftur í fyrra og eðlilegra horf. 

Margt var við þetta allt að athuga, og var haldin um það upplýsandi ráðstefna:

1. Stíflugerð og jarðgangagerð við Langasjó fylgdu slæm og óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif. 

2. Í stað hins undurfagra og tæra bláma fegursta vatns á Íslandi kæmi drullubrúnn litur og vatnið myndi fyllast upp af auri á um 70 árum. 

3. Ef litið er á þau ellefu þúsund ár, sem Skaftá hefur runnið eftir ísöld, rann hún aðeins í Langasjó í um eina öld, eða 0,005 prósent af tilverutíma hennar!  Og þá er ekki vitað til að Skaftárhlaup síðustu aldar hafi verið eins og þau urðu síðar. Sem sagt: Með því að beina Skaftárhlaupum að meira eða minna leyti yfir í Langasjó væri verið að stuðla á ítrasta hátt að eyðileggingu vatnsins. 

Nú hefur Langisjór verið felldur með friðun undir Vatnajökulsþjóðgarð. En engu að síður verður að halda vökunni varðandi þá vernd, því að á sínum tíma sagði þáverandi iðnaðarráðherra að það væri stærsti kosturinn við að aflétta friðun, að það væri miklu fljótlegra og einfaldara en að friða. Margir virkjanafíklar hafa tekið undir það á ýmsan hátt, svo sem með kjörorðinu "virkja fyrst - friða svo!"

Í gangi eru áform um virkjun Skaftár í svonefndri Búlandsvirkjun. Meira um það síðar. 

 


mbl.is Áin sem gerir fólk orðlaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldisvaxtarkrafan íslenska sækir í sig veðrið.

Krafa um veldisvöxt og margföldun verður æ meira áberandi á Íslandi. 

Þótt við framleiðum nú þegar sexfalt meiri raforku en við þurfum til nota fyrir okkar eigin fyrirtæki og heimili, er í gangi stórfelld krafa um að fjórfalda þessa framleiðslu: 

528 virkjanir í smærri kantinum, sem einar og sér myndu samsvara næstum helmingi allrar orkuframleiðslu okkar núna. 

Á annað hundrað nýjar vatnsafls- og gugufaflsvirkjanir innan núverandi rammaáætlunar sem samsvara tvöfaldri núverandi framleiðslu. Stóð í 3200 megavöttum í fyrra og fer vaxandi. 

Mera en þrjátíu risa vindorkuvirkjanir hafa nú verið settar á flot og nemur samtals orkuframleiðsla þeirra meira en tvöföldun núverandi orkuframleiðslu. 

Verði allt þetta framkvæmt virðist framtíðarstefnan vera sú að við framleiðum á endanum 20 sinnum meiri raforku en við þurfum til eigin fyrirtækja og heimila og að allan tímann verði okkar eigin þörf og raforkuskortur ævinlega notuð sem röksemd fyrir þessu æði. 

Í viðbót við þetta er uppi veldisvaxtarkrafa í laxeldi sem felst í margföldun þess á þeim forsendum að annars sé eldisframleiðslan aðeins "dropi í hafið" á heimsvísu.  


mbl.is Íslendingar enn bara „dropi í hafið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða GAGA stefnunnar er skelfileg og yfirþyrmandi.

GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) kjarnorkuvopnakapphlaupsstefna stórveldanna, eða MAD (Mutual Assured Destruction) er alltof sjaldan á dagskrá hjá risa kjarnorkuveldunum.  

Sérstaða þessarar helstefnu er nefnilega alger: Ef misskilningur eða mistök leiða til beitingar kjarrnorkuvopnabirgða, sem geta gereytt öllu mannkyni nokkrum sinnum með sínu fáránlega ógnarafli, verður til þess að hún gangi í gildi í allsherjar kjarnorkustríði, er úti um mannkynið í eitt skipti fyrir öll.  

Engin önnur núverandi ógn af mannavöldum kemst neitt nálægt þessum ósköpum. 


mbl.is Jafn áríðandi að ræða loftslagsmál og kjarnorkuvopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júlí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband