Hörmungar og blóðbað fáránleikans í 43 ár.

Leitun er að þjóð í veröldinni sem hefur orðið að líða jafn langa hörmungarsögu vegna afskipta stórvalda og Afganir hafa orðið að þola. 

Atburðarásin hófst fyrir 1980, með valdatöku marxiskrar hreyfingar 1978, enda liggja löndin saman og það því mikilvægt að dómi ráðamanna í Kreml að hafa þau landamæri trygg. 

En þá gerðu heimamenn, múslimar í Afganistan, uppreisn 1979 og steyptu leppum kommúnista af stóli.

Nafn helstu samtaka uppreisnarmanna var Mujaheddin og nutu þeir meðal annars vegna stuðnings Bandaríkjamanna, sem einblíndu á það að þarna yrði klekkt á kommúnistunum í Kreml í Kalda stríðinu. 

Hvorki Bandaríkjamenn né Sovétmenn skeyttu í raun neitt um hag fólksins í Afganistan; þetta voru hernaðarpólítísk átök var verstu gerð.

Hvorugur virist sjá fyrir að með framferði sínu myndu þeir valda dauða og þjáningum milljóna manna án hins minnsta árangurs.  

Sovétmenn töldu sig knúna til þess að endurheimta völdin í Afganistan og sendu her sinn inn í landið. 

Bandaríkjamenn og Vesturveldin svöruðu með því að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu 1980. 

Þar með voru þessi kaldrifjuðu átök farin að verða til stórskaða fyrir íþróttafólk um allan heim, sem var látið líða að ósekju fyrir axarsköft og valdagræðgi risaveldanna. 

Sovétmenn og fylgiríki þeirra svöruðu síðan með því að sniðganga leikana í Los Angeles 1984 og tvöfalda þannig það tjón sem Afganistandeilan hafði valdið. 

Afganistanbröltið varð Sovétríkjunum dýrkeypt og eitt af þeim atriðum sem felldi kommúnismann í Austur-Evrópu á árunum 1989-2991, enda þótt Sovétherinn hefði verið dreginn frá Afganistan 1985.  

Við tóku yfirráð heittrúaðra múslima þar 1985-2001, þar sem hryðjuverkaöfgasamtökin Al-Quaida fengu að hreiðra um sig og gera síðan árás á Bandaríkin 2001, sem olli þeim viðbrögðum Bandaríkjanna að leggja Afganistan undir sig með hervaldi 2001-2021. 

Þá voru Bandaríkin búin að gera þrisvar sinnum það sem þeir höfðu fordæmt Sovétríkin fyrir að gera 1980.

Kanar stóðu á bak við hernaðaruppreisn 1999, stóðu á bak við hernað við innrásarlið Sovétmanna 1980 til 1985 og gerðu í þriðja lagi sjálfir innrás í landið 2001 og héldu þar völdum með hervaldi til 2021. 

Hráskinnleikur risaveldanna í þessu hrjáða landi hefur ekki aðeins verið harmsaga, heldur fáránleikinn sjálfur í formi innrása þeirra í landið sitt á hvað. 


mbl.is „Mistök“ að draga herlið frá Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalausar "uppfærslur" og undanfærslur vegna bilana.

Eitt af þeim brögðum, sem virðast nýtast harðsnúnum framleiðendum og sölumönnum hvers kyns varnings, er nýjungagirni.  

Sígilt dæmi um þetta er bílaframleiðslan. Það sést best á bókum um sögu bílaframleiðslu þar sem fróðleikurinn um bílana birtist meðal annars í auglýsingum hvers tíma. erð. 

Þar úir og grúir af stóryrðum um nýjungar, þar sem jafnvel er um að ræða raðir af atriðum með upphrópuninni "new" aftur og aftur.

Fyrirbærið í bílaiðnaðinum er senn orðið aldargamalt, og það svínvirkar allan tímann að neytendur telji sig knúna til þess að tolla í tískunni og kaupa það nýjasta. 

Á okkar dögum felst þessi útsmogna aðferð meðal annars í því að auglýsa gerbreyttar gerðir bíla, jafnvel með fullyrðingum um "nýja kynslóð" sem eru, þegar betur er að gætt, aðeins með þýðingarlitlar breytingar og útlitssnyrtingar. 

Ágætt dæmi úr fortíðinni er Chvevrolet 1957, sem hinn þriðji í röð vel heppnaðra óbreyttra bíla af þessari gerð.  

Á þeim tíma þótti óhjákvæmlegt að gerbreyta útliti bíla á minnst þriggja ára fresti, en 1957 komu bæði Ford og Plymouth með alveg gerbreytta bíla á markað eftir aðeins tveggja ára söluferil.  

Svo alvarlegt þótti þetta fyrir General Motors, að einn af yfirmönnum GM gekk inn á skrifstofu hönnunardeildarinnar, kastaði bæklingi með kynningu á nýjasta Plymouth bílnum á skrifborð hans og hreytti út úr sér: Af hverju segirðu ekki upp?

Svo fór hins vegar að með snilldarlegri útlitsbreytingu á Chevrolet 1957 varð hann síðar viðurkenndur sem einhver flottasta árgerðin í sögu þessa mest selda bíls heims í áratugi. 

1960 var svo komið að Ford framleiddi nýjan lítinn bíl, Ford Falcon, og seldist hann best af litlum bílum hinna "þriggja stóru". 

Síðar kom í ljós, að bíllinn var sérstaklega hannaður á þann veg, að hann entist ekki nema í þrjú ár!

Þegar Japanir fóru að flytja ódýra litla bíla inn til Bandaríkjanna, sem voru með langtum lægri bilanatíðni og endingu en þeir bandarísku, hefndi skammsýni Kananna sín. 

Nú á tímum virðast það helst vera framleiðendur rafeindatækja hvers konar sem virðast stunda þá stefnu að vera stanslaust í gangi með endursillingar og uppfærslur (updates) af hinu fjölbreyttasta tagi, að engu virðist stundum líkara að þetta sé eingöngu gert til að halda þúsundum starfsmanna við það eina hlutverk að pressa á notendur með sífelldum "nýjungum" og endurbótum.  

Fyrir nokkrum árum keypti síðuhafi sér ódýrasta farsímann á markaðnum, sem var með alveg einstaklega góða endingu, til dæmis á rafhlöðu og sérstaklega auðvelt að nota hann. 

Svo týndist síminn og var þá búið að hanna arftaka. Var skemmst frá því að segja, að búið var að gerbreyta öllu í notkun símans, þannig að það þurfti að læra allt upp á nýtt. 

Langflestar breytingarnar, hvimleiðar mjög, virtust gerðar til þess að gera notkunina að óþörfu mun erfiðaari en áður var. 

Eitt sinn bilaði rafhlaða í tölvu, og kom í ljós að ekki var hægt að skipta henni út. 

Gleðin yfir því að bilunin varð skömmu áður en ábyrgðin rann út, var skammvinn, því að ef það átti að koma tölvunni aftur í not, varð að senda hana til Svíþjóðar til þess!

Það tók nokkrar vikur og kostnaðurinn var það mikill, að skárra hefði verið að kaupa nýja tölvu.  Kerfi, sem virtist vera sérhannað til þess að viðhalda sífelldum tölvuútskiptum!


mbl.is Barist fyrir lengri líftíma raftækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðreyndir sögu stjórnarskrármálsins blasa við.

Nokkrar staðreyndir um stjórnarskrármálið í 172 ár blasa við: 

1849 settu Danir sér stjórnarskrá, þar sem reynt var að friðþægja dönskum konungi, vegna þess að einveldi hans var afnumið. Það fólst í um það bil 30 upphafsgreinum, sem tíndu til öll hlutverk konunungins, en einnig ákvæði, sem tiltók, að hann væri ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og léti ráðherra fara með vald sitt. 

Í stað þess að leyfa Íslendingum að setja sér stjórnarskrá sjálfum á Þjóðfundinum 1851, sem var eins konar stjórnlagaþing sem kosið var til í sérstökum kosningum eins og lofað hafði verið, lét konungur Trampe greifa slíta honum. Þessu gerræði og svikum mótmælti Jón Sigurðsson og fundarmenn allir eins og frægt varð og þau mótmæli eru því miður enn í fullu gildi. 

Komungur setti síðan 1874 Íslendingum einhliða stjórnarskrá, samda í danska Kanesllíinu þar sem fyrstu fáránlegu greinarnar um völd eða ekki völd konungs héldu sér. 

Þetta fráleita upphaf stjórnarskrárinnar heldur sér enn, því að til þess að ná fram samstöðu um lýðveldisstofnun 1944 var orðið forseti sett inn þar sem orðið konungur hafði verið. 

Talsmenn allra flokka á þingi 1944 hétu því að þegar eftir kosningar skyldu Íslendingar sjálfir og einir setja sér nýja íslenska stjórnarskrá, gerða frá grunni. 

Síðan 1946 hefur fjöldi stjórnarskrárnefnda reynt að framkvæma þetta loforð, en ekki tekist það.

Í febrúar 2009 gerðu Framsóknarmenn það að skilyrði fyrir því að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti gegn því að ný stjórnarskrá skyldi gerð. 

Að tillögu Sjálfstæðismanna var haldinn sérstakur þjóðfundr um málið eftir þingkosningarnar 2009. 

Sérstök stjórnarskrárnefnd sérfræðinga vann upp úr niðurstöðum þjóðfundarins um þúsund blaðsíðna leiðbeinandi skjal um sjónarmið og leiðir í nýrri heildstæðri stjórnarskrá, sem sérstakt þjóðkjörið stjórnlagaþing skyldi semja. 

Hvergi í þessari vinnu allri og ferlinu var þess getið, að aðeins mætti breyta einhverjum sérvöldum köflum stjórnarskrárinnar en ekki hrófla við öðrum. 

Þegar talað er um ósvífni og misskilning eiga þau orð því við þá umræðu úrtölumanna, sem nú er höfð um hönd.   

 


mbl.is Ósvífinn áróður um stjórnarskrármál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júlí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband