Einu sinni fóru Íslendingar illa vegna magapestar á stórmóti.

Hið nýja viðfangsefni, kórónuveikin á EM, er ekki alveg nýtt.  Ef rétt er munað, var það á EM, sem haldið var í Austur-Þýskalandi fyrir rúmum fjórum áratugum, sem mestallt liðið, sem var afar vel mannað, veiktist illa að einhverri magapest, og var svo mjög slegið út af laginu, að allir draumar um að komast áfram, voru slegnir af borðinu. 

Björgvin Páll Gústafsson hefur átt afar góðan leik á mótinu nú meðan hann er á brott, er því afar viðkvæm staða komin upp í vörninni. 

Ólafur Guðmundsson hefur leikið stórt hlutverk varðandi það að útfæra vel æfðar breytingar á sóknarleiknum.  

Öll forföll valda vandræðum hjá liðinu, sem gætu verið meiri en ella vegna þess að þetta landslið hefur átt afar vel útfærðar æfingar á mismunandi leikaðferðum, og kom það til dæmis vel í ljós í leiknum við Ungverja, þar sem Janus var sendur inn á til að vera potturinn og pannan í breyttum sóknarleik, sem beit vel á Ungverjana. 


mbl.is Veiran tækluð eins og hver annar leikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arftaki Guðjóns Vals?

Í áraraðir hefur Guðjón Valur Sigurðsson verið einn af öflugustu handboltamönnum heims, átt að baki einstaklega glæsilegan feril með bestu félagsliðum heims og hampað fjölmörgum meistaratitlum.   

Það hlaut að koma að því þegar fimmtugsaldurinn nálgaðist, að kappinn drægi sig í hlé, og var mikill sjónarsviptir að honum. 

Því er það sérstakt fagnaðarefni að mögulegur arftaki Guðjóns Vals sé hugsanlega kominn fram og það með slíka frammistöðu, að menn trúa vart sínum eigin augum.  

Vonandi er þetta bara byrjunin á löngum og farsælum ferli. 


mbl.is Vallarþulurinn hælir Sigvalda á hvert reipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðiskerfið er viðkvæm heild með mörgum flöskuhálsum.

Heilbrigðiskerfið í heild var svelt stórlega í áratug, og ástandið núna, með biðlistum af ýmsu tagi, fækkun og skorti á starfsfólki, sjúkrarúmum og rýmum í sambandi við gjörgæslu, á sér margar hliðstæður allan þennan tíma. 

Þegar Kári Stefánsson gekkst fyrir einhverri stórkostlegustu undirskriftasöfnun hér á landi þar sem fólk skoraði á stjórnvöld að taka til hendi í þessum málum nefndi hann einu sinni orðið gáttaflökt án þess að útskýra það nánar. 

En einmitt það fyrirbæri var gott dæmi um fánýti þess að reyna að spara með því að búa til biðlista. 

Einn af vinum mínum reyndist með gáttaflökt, en var svo óheppinn, að fjárveitingin til þess að fást frekar við það var uppurin í byrjun nóvember og hann átti því að bíða fram yfir áramót. 

Að því kom þó ekki, því að hann fékk heilablóðfall áður, sem kostaði heilbrigðiskerfið margfalt meira en það sem átti að spara. Við bættust þjáningar og erfið og dýr endurhæfing. 

Nokkru síðar lenti síðuhafi á biðlista þar sem það tafðist í sjö vikur að fá skoðun og úrskurð um það hvort mein við nýra væri illkynja eða ekki. 

Sem betur fór reyndist það ekki illkynja, en hér og þar í kerfinu var fullt af fólki á svona biðlistum, og það voru ekki allir svona heppnir. 

Það hefur verið sagt áður frá þessu hér á síðunni, en dæmin eru jafn klassísk og lýsandi nú sem þá. 

Það er óviðunandi ef ekki verður ráðist í aðgerðir gegn ástandinu í kerfinu, sem nú hefur fengið á sig truflun vegna heimsfaraldurs með áhrifum um allt kerfið.   


mbl.is „Hvað ef við hefðum ekkert gert?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband