Hugmyndin um Sundabraut hefur verið að velkjast og tefjast hjá ráðamönnum þjóðarinnar í meira en tuttugu ár. Loksins nú er búið að reikna út arðsemi hennar í "félagshagfræðilegri greiningu" og út frá henni má giska á það gríðarlega tap, sem hin langa töf á þessari þjóðþrifaframkvæmd hefur valdið.
Nú er biðin vonandi á enda, en hliðstæður má finna annars staðar í vegakerfinu.
Þegar síðuhafi var fimm sumur í dvöl að Hvammi í Langadal á árunum 1950 til 1954 var það starfi hans sem kúarektors að reka kýrnar á bænum á beit upp í um 240 metra hæð í fjallinu fyrir ofan bæinn á grösugan hjalla sem heitir Nautahjalli.
Þaðan blasti daglega við sjónlínan beina frá Fagranesi í miðjum Langadal yfir til Stóru-Giljár, og á korti hins unga landafræðinörds blasti líka við stytting norðurleiðarinnar upp á 14 kílómetra.
Á þessum tíma voru menn uppteknir við að brúa Blöndu yst í Blöndudal hjá Löngumýri og búa til svonefnda Svínvetningabraut, sem að vísu var, ef hún var notuð á norðurleiðinni, aðeins styttri leið en þjóðvegur númer eitt, en tók á sig nokkra slæma króka og lá upp í ansi mikla hæð á Bakásum.
Viðfangsefnin í vegabótum um allt land voru æpandi og því eðlilegt að í bili yrði að sætta sig við það að reisa stærri Blöndubrú niðri á Blönduósi, gera breiðan og malbikaðan veg eftir Langadal og góðan veg um Þverárfjall milli Blönduóss og Sauðárkróks.
Með síðastnefndu leiðinni var tryggt að ekið yrði í gegnum Blönduós á leiðinni til Sauðárkróks, hvað sem öðrum vegaframkvæmdum liði.
Lokaskrefið í bættu vegakerfi í Austur-Húnavatnssýslu hefði átt að vera 14 kílómetra styttingin, sem nefnd hefur verið Húnavallaleið.
En þá gerðist svipað og hafði gerst á Hellu á Rangárvöllum, þegar þjóðvegurinn var styttur þar með nýrri brú; að mikil andstaða kom fram meðal heimamanna, sem vildu áfram þvinga fram akstur allra í gegnum miðju þorpsins á gamla brúarstæðinu.
Sem betur fór gátu lagnir stjórnmálamenn leyst málið á þeim stað með sanngjörnum uppbótum, og í dag lítur hugmyndin um brú á gamla brúarstæðinu út eins og brandari.
Svipaða leið er hægt að fara varðandi Húnavallaleiðina nyrðra. Nýtt brúarstæði við Fagranes í Langadal yrði áfram innan sveitarfélagsins og íbúar hreppsins mynu áfram njóta allrar umferðar í gegnum Blönduóshrepp.
Þessi stytting er talin einhver hagkvæmasta stytting, sem hægt er að framkvæma í vegakerfi okkar, og kominn tími til þess að huga að henni eftir 70 ára töf.
![]() |
Ein stærsta vegaframkvæmd Íslandssögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2022 | 05:57
Ansi mikil 1914, 1938 og 1939 lykt af þessu öllu.
Af fréttum af dæma vígbúast nú flest lönd Evrópu í samræmi við hinar og þessar skuldbindingar sem rifjaðar eru upp.
Það er ansi mikil 1914, 1938 og 1939 lykt af þessu öllu, einkum 1914 lyktin.
Þá höfðu stórveldin gefið skjólstæðingum sínum hin og þessi loforð um skuldbindingar og var eitt þeirra, loforð Breta um að tryggja öryggi Belgíu, orðið næstum aldar gamalt.
Svo fór að menn misstu stjórn á atburðarásinni og af hlaust Fyrri heimsstyrjöldin.
Enn í dag deila sagnfræðingar um það, hvort skárra hefði verið að Bretar hefðu svikið skuldbindingu sína.
Frá september 1938 til mars/apríl 1939 tókst Hitler að koma sínu fram með landvinningum án beins stríðs með því að beygja ráðamenn Vesturveldanna undir friðþægingarstefnu.
Hervaldi var samt beitt "friðsamlega" þegar her nasista lagði undir sig Súdetahéröðin án þess að skoti væri hleypt af og síðar alla Tékkóslóvakíu í mars 1939.
Mussolini fetaði í fótspor Foringjans og tók Albaníu skömmu síðar þegar Chamberlain forsætisráðherra Breta var í fríi við veiðar.
Hitler ætlaði að endurtaka leikinn 1. september 1939, en í þetta sinn stóðu vesturveldin við skuldbindingar sínar um stríðsyfirlýsingu, en þó á þann sérkennilega hátt að heyja "Phoney war", "Sitzkrieg" á vesturvígstöðvunum í rúma átta mánuði þar til Hitler lagði Niðurlönd, Noreg, Danmörku og Frakkland undir sig á örfáum vikum.
Forsætisráðherra Breta hóf árið 1914 á því að segja í ræðu, að vígbúnaður stórveldanna þá væri hrein vitfirring.
Hann varð sannspár.
Öll fyrrgreind spor hræða þessa dagana. Vonandi leyfist Pútín þó að vígbúast á eigin landi, ef hann lætur við það sitja.
![]() |
Forseti Úkraínu gagnrýnir ummæli Bidens |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)