3.1.2022 | 23:06
Þá má sú væðing frestast fyrir mér.
Á fyrsta sunnudegi sæla ársins,
sem er að hefjast nú með pomp og pragt
er ég að bölva vanda´og böli fársins
sem bannsett tæknin hefur á mig lagt.
Minn nýi sími sem ég fékk í hendur
og átti´að sinna mínum þörfum hér.
er alveg vonlaus, eins og versta blæðing;
vandræði alger hefur leyst úr læðing,
og ef að þetta kallast tæknivæðing,
þá má sú væðing frestast fyrir mér.
Eitthvað þessu hrýtur af vörun ratans, sem var svo mikill einfeldningur að halda, þegar hann keypti minnsta, einfaldasta og ódýrasta farsímann af ákveðnu merki hér um árið væri þar komin lausn fyrir milljónir almúgamanna.
Þessi sími hafði þrjá afar stóra kosti.
1. Hann var ódýr.
2. Hann var einfaldur, bæði í notkun og að allri gerð og allt gert til að spara rafmagnið.
3. Og af því að hann var svona einfaldur og án alls svonefnds aukabúnaðar eins og stórum og flóknum skjá þá entist rafhlaðan hans margfalt lengur en á öðrum svonefndum "þróuðum" símum.
Þegar lífdagar þessa dásamlega síma voru á enda, var auðvitað keypt ný gerð sem leysti hann af hólmi og hafði sömu kosti og örfáar einfaldar umbætur.
En þegar að því kom að þessi frábæra rafhlaða gekk sér til húðar, var auðvitað keypt nýjasta gerð þessa minnsta síma framleiðandans, því að svo asnalega sem það hljómar, þá kostaði ný rafhlaða eins og sér meira en rafhlaða og síma til samans og var því framleiðslu hennar hætt.
Fyrirbrigðið er alþekkt í framleiðslu á rafeindavörum; búið að reikna það út fyrirfram, að aðalatriðið sé að bjóða vöruna á sem lægsta verði, en græða það margfalt til baka í sölu varahluta!
Slíkt er auðvitað óskiljanlegt einfeldningi eins og eigandanum, svo að hann var í raun neyddur til að kaupa "uppfærðan" síma með breyttu útliti og ýmsum "endurbótum" og "nauðsynlegum nýjungum" eins og myndatökuvél.
En nú hafði heldur betur slegið í bakseglin. Í stuttu máli sagt, hefur allri uppsetningu og fyrirkomulagi á þessum síma, sem á að vera sá ódýrasti og einfaldasti hjá viðkomandi framleiðanda, verið umbylt svo gersamlega og gert svo óendanlega flókið og ófyrirséð, að síminn hefur verið að mestu ónotaður síðan hann var keyptur fyrir jólin.
Tvær sérstakar ferðir í búðina þar sem hann var keyptur þurfti til þess að hægt væri að kveikja á honum, að sjálfsögðu á allt öðrum stað en á gömlu símunum.
Í kvöld gerði ég enn eina missheppnuðu tilraunina til að senda smáskilaboð á honum.
Það er ekki eitt heldur allt. Ekkert tákn á skjánum litla, sem kominn er, er eins og var áður. Sum óskiljanleg, svo gerbreytt.
Eitt smá dæmi: Í ákveðinni stillingu stendur stórum stöfum meðst á skjánum: SVARA.
Og maður heldur í einfeldni sinni að þarna eigi maður að ýta á þegar maður ætlar að svara.
En þá gerist ekkert.
Búðarferð leiddi í ljós, að SVARA var ekki nafnháttur af sögninni og skipuninni að svara, heldur stóð með örlitlum stöfum neðst og úti í horni "svarið."
Þetta hálffalda orð°, "svarið", getur ekki þýtt annað en þrennt:
1. Svarið við hringingunni, númerið sem hringt er úr, birtist á skjánum.
2. Reiknað er með að tveir eða fleiri svari í einu; þ.e. svarið þið allir.
3. Svarið táknar, að sá sem svarar sé þéraður. En þéringar voru lagðar af á Íslandi fyrir næstum hálfri öld!
Nýlega hafa verið rakin dæmi um það hér á siðunni hvernig framleiðendum á tæknivörum virðist oft gleymast, að stærsti hluti kaupenda sé venjulegt fólk en ekki eihverjir sérfræðingar sem þróa vörurnar smám saman nær eingöngu til þess að gera þær sem tæknilega flóknastar og að því leyti við hæfi þeirra sjálfra.
![]() |
Fresta ekki 5G-væðingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2022 | 10:06
Stórstyrjaldir dragast oft á langinn.
Á svipaðan hátt og heimsstyrjaldirnar tvær breiddust út og kostuðu hátt í hundrað milljónir manna lífið samanlagt er heimsfaraldurinn nú fyrsta stórstyrjöldin á sýkla- og veirusviðinu, sem nær samanbærri útbreiðslu.
Stórstyrjaldir fortíðar áttu upphaflega að standa stutt.
Ungir hermenn fóru marsérandi til slátrunar í Fyrri heimsstyrjöldinni í ágústbyrjun og var talin trú um að þeir yrðu komnir aftur heim fyrir jól.
En langdregnar stórorrustur eins og við Somme og Verdun á vesturvígstöðvunum leiddu af sér kynnstöðuhernað í skotgröfum í fjögur ár, sem enginn hafði séð fyrir.
Í mars 1939 sagði Chamberlain forsætisráðherra Breta eftir tíðindalítinn vetur á vesturvígstöðvunum: "Hitler has missed the bus."
Þremur mánuum síðar höfðu herir Hitlers lagt undir sig Danmörk, Noreg, Holland, Belgíu, Luxemborg og Frakkland.
Efnahagslega var útilokað fyrir Hitler annað en að halda áfram útþenslu Þriðja ríksins síðustu ár fjórða áratugarins til þess að ná yfirráðum yfir auðlindum og mannafla sem skilgreint var sem "lífsrými" í Mein Kampf.
Svipað gilti um útþenslu japanska heimsveldisins sem úrslitakostir Roosevelts gerði ómögulega án allsherjarstríðs í Austur-Asíu og á vestanverðu Kyrrahafi.
Sigrar Japana fyrri hluta árs 1942 gaf þeim tálvonir um skaplega friðarsamninga sem ein morgunstund í Perluhöfn feykti út í hafsauga.
Árásinni á Sovétríkin 1941 átti að hrinda í framkvæmd með skjótum sigri fyrir jól. Hermenn Öxulveldanna voru ekki einu sinni með vetrarklæðnað til reiðu til að fást við fyrirsjáanlegan rússneskan vetur og í stað hakakrossins á Kreml tók við þriggja óg hálfs árs hryllingur.
Eftir ósigur Frakka við Dienbien Phu 1954 tók mesta herveldi heims að sér að tryggja vestrænt lýðræði í Suður-Vietnam og þegar Johnson tók við af Kennedy 1963 sagðist hann ekki einu sinni nenna því að hugsa um jafn mikið smáræði og það væri að viðhalda árangri John Foster Dulles í Suðaustur-Asíu.
1968 var hins vegar svo komið að meira en hálf milljón bandarískra hermanna réði ekki við verkefni sitt í stríðinu við Viet Kong, en bandarísku herforingjarnar reyndu að fullvissa Johnson um að hægt væri að sigra, ef 220 þúsund hermenn í viðbót yrðu sendir í blóðbaðið í stríði, þar sem meira sprengiefni var notað en í Seinni heimsstyrjöldinni.
En þá þegar var stríðið tapað á heimavelli og bandaríska þjóðin hafði vit fyrir herforingjunum.
Það virtist ekki vefjast fyrir Bandaríkjamönnum að ráðast inn í Afganistan 2001 til skjóts sigurs yfir Talibönum.
Tuttugu árum síðar fór herinn sneypuför úr landinu sömu leið og Sovétmenn, Bretar og fleiri höfðu gert á sínum tíma.
Sigur yfir Covid kann að sýnast í augsýn, en um þann bardaga mun þó gilda það, sem var haft á orði í rallinu í den, að "rallið er ekki búið fyrr en það er búið."
![]() |
Endalokin á þessu ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2022 | 01:13
Fljótandi þúsunda megavatta vindmyllugarðar og hótel. Hvað næst?
Nýlega voru viðraðar hugmyndir um allt að 5000 megavatta vindorkugarð á hafi úti fyrir Hornafirði. Nágrannaþjóðir okkar í Evrópu eru þegar að bæta í slíkar framkvæmdir.
Risa lúxushótel verður sett á flot í Dubai 2023.
Hvað gæti mönnum dottið næst í hug af þessum toga? Það gæti orðið spennandi að sjá.
![]() |
Fljótandi háklassahótel opnað 2023 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)