Man nokkur nú eftir "icecreamsoda"?

Á knattspyrnuferli sínum varð Hemmi Gunn staðkunnugur á Akureyri, því að þá lék hann með KA á tímabili og kom við sögu við þjálfun liðsins ef rétt er munað. 

Þar á undan hafði hann líka farið margar ferðir norður með liði Vals og kunni því frá mörgu að segja Sumargleðimönnum, þau þrjú ár sem hann var liðsmaður þar. 

Sumargleðin var mikið á ferðinni á Akureyri, ekki aðeins þegar þar var skemmtun og ball á föstudagskvöld um verslunarmannahelgina, heldur líka þegar ekið var í gegnum bæinn á leið á aðra staði. 

Var þá mikil stemning í hópnum ef bjartviðri með hitabylgju ríkti á staðnum og oft komin sólarlandastemning í mannskapinn. 

Hluti af henni er að svala þorstanum sem best og í því efni kunni Hemmi sérstakt ráð. 

Það fólst í drykk sem nefndist "icecreamsoda" og var alveg sérstakur og aðeins til á Akureyri. 

Í ísbúð rétt við Bautann var hægt að biðja um icecreamsoda og fá dásemdina með hraði. 

Blandan var sérstök og auðvitað einstök fyrir Ísland, því þetta var hrærð blanda af ís, mjólkurhristingi og akureyrska gosdrykknum Mix! 

Þessi guðaveig var aldeilis sérlega svalandi og góð á bragðið, væri hún hrærð í réttum hlutföllum og höfð ísköld, og verður síðuhafa það ógleymanlegt. 

Gosdrykkurinn einn og sér var aldrei í uppáhaldi hjá síðuhafa, en verður síðuhafa samt  ógleymanlegur út af fyrir sig fyrir það, að í þrjá mánuði vorið 2008, sem hann glímdi við liftrarbrest og stíflugulu með ofsakláða og svefnleysi, brenglaðist allt bragðskyn hans, þannig að allir gosdrykkir voru ódrekkanlegir þennan hræðilega tíma nema Mix!

 

P.S. Nú er svo komið að það er ekki aðeins einu sinni á hverjum degi sem það verður að hlíta þeirri kröfu að melta ensk orð í stað íslenskra í fréttum, heldur tvisvar. Í pistlinum á undan þessum er það hinn óumflýjanlegi "leggur" í staðinn fyrir "áfanga" og í þessari tengdu frétt jafn óumflýjanlegt enskt orð "trend", sem er alveg óþörf viðbót við orðið "drykkur."

Og aðeins nokkur dægur síðan melta þurfti setninguna "...það verður að kópa við ríkoverýíð og fókusera á tsjallendsið."


mbl.is Drykkjartrendið sem er að gera allt vitlaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem útlendingar eiga oft erfiðast með: að fastsetja ekki áfangana fyrirfram.

"Drottinn leiði drösulinn minn; / drjúgur verður síðasti áfanginn"... orti Grímur Thomsen, en óraði áreiðanlega ekki fyrir því að Íslendingar myndu eiga eftir að henda hinu ágæta orði "áfangi" og tönnlast í staðinn á alls konar "leggjum", meðal annars í texta viðtengdrar frétta á mbl.s., og syngja: "...drjúgur verður síðasti leggurinn.."

Áratuga reynsla af samstarfi og ráðleggingum við erlenda ferðamenn hefur verið sú, að það sem þeir eiga erfiðast með að sætta sig við, að vegna dynta í íslensku veðurfari er óráð að fastsetja hverja einustu dagleið eða áfanga í fyrirhugaðri ferð. 

Sumir þeirra, sem vilja koma hingað í kringum áramótin, geta ómögulega skilið það að þá vanti að mestu daginn í sólarhringinn, sem er þá að mestu leyti skammdegisnótt. 


mbl.is Tæplega mánaðar fjölskylduferð um hálendi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband