Rússar afvopnuðu Úkraínumenn að miklu leyti þegar Sovétríkin féllu.

Þegar Sovétríkin féllu og fyrrum sovétlýðveldi fengu sjálfstæði hvert um sig, áttu Úkraínumenn þriðjung af öllum kjarnorkuvopnum Sovétsins og hernaðarflugvélarflota upp á meira en hundrað stórar sprengjuflugvélar og orrustuflugvélar. 

Rússar fengu því framgengt að Úkraínumenn eyddu öllum kjarnorkuvopnunum og ýmist afhentu Rússum sprengjuflugvélaflotann, sem var búinn stórum og hrapskreiðum þotum, auk þess sem stórum hluta herflugvélaflotans var fargað. 

Þetta er ein ástæða þess, hve illa Úkraínumenn voru búnir til þess að verjast flugflota Rússa í innrás þeirra inn í Úkraínu 24. febrúar 2022, þar sem þeir höfðu fyrir bragðið yfirburði í lofti. 

Þessi hróplegi munur varð líka til þess að Rússar og umheimurinn bjuggust við því að í krafti algerra yfirburða í lofti myndi það taka aðeins nokkra daga fyrir rússneska herinn að taka Kænugarð og ná mestallri Úkraníu á sitt vald. 

Og þetta var líka helsta ástæða þess, hve oft og mikið Úkraínumenn sárbáðu Vesturveldin um að senda sér orrustuþotur og herflugvélar. 

Úkraínumenn höfðu fórnað helsta sóknarmætti hers síns til þess að egna hvorki né ógna rússneska birninum á nokkurn hátt. 

Á móti kom, að Úkraínumönnum tókst að nota sem best ýmsar varnaraðferðir og varnarvopn, sem komu Rússum á óvart og slógu þá út af laginu.   


mbl.is 20 milljarða hernaðaraðstoð til Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtið að finnast "toppurinn" vera lægð.

Þótt jafnan sé talað um að Grænlandsjökull sé rúmlega 3000 metra hár, verður þess ekki vart á leiðinni þegar jökulinn er þveraður, vegna þess að allan tímann eftir að komið er það langt upp á jökulinn að hvergi sést út fyrir hann, veldur hið gríðarlega hvíta birta, sem kastast af jöklinum í heiðskíru veðri því, að hún gerir himininn hvítbláan og bjagar sjóndeildarhringinn þannig í augum jöklafarans, að honum finnst hann ferðast lítillega upp í móti, jafnvel þótt hæðarmælir sýni annað. 

Sýnist hann vera lægst í víðri lægð og horfa upp í mót í allar áttir í stað þess að vera "á toppnum." 

Þeir, sem fara yfir jökulinn úr austri til vesturs, eiga eftir að koma niður á autt svæði inn af Kangerlussuaq, sem Danir og lengst af Íslendingar kölluðu Syðri-Straumfjörð, og er einstaklega fallegt yfirferðar, niður yfir úfinn skriðjökul sem er stærri en allir jöklar Íslands samanlagt og þar á eftir um hið auða svæði, sem einstaklega lítil úrkoma og hiti í ágúst upp á 16 stig yfir daginn tryggja tilvist. 

Við fjarðarbotn er alþjóðlegur millilandaflugvöllur, sem Bandaríkjamenn gerðu i heimsstyrjöldinni, og loftlínan þaðan til meginstrandarinnar er 180 kílómetrar. 

Grænlandsjökull er 20 sinnum stærri en allt Ísland, landið nær sunnar, vestar, norðar og austar en Ísland, og gríðarlegur munur á loftslagi, 16 stigin í ágúst í Kangarlussuaq, en aðeins 3,5 stig á veðurstöðinni í Tingmiarmiut á austurströndinni. 


mbl.is Íslenskt koníak-teiti á toppi Grænlandsjökuls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband