Fyrir sextíu árum kviknaði í nýjum slökkvibíl.

Á sjötta áratug síðustu aldar var tækjakostur slökkviliðs Reykjavíkur orðinn ansi lúinn, og dróst mjög að taka nýjan, stóran og fullkominn slökkvibíl í notkun. 

Dag einn var strætisvagn fullur af farþegum á leið suður Nóatún þegar hinum nýja slökkvibíl var ekið fram úr honum; greinilega á leið úr prísundinni hjá Eimskipum. 

Þótt þetta væri út af fyrir sig stórfrétt, ráku farþegarnir og strætisvagnabílstjórinn upp stór augu þegar þeir sáu að mikinn reyk lagði aftur úr slökkvibílnum, og fór hann greinilega vaxandi. 

Strætisvagnabílstjórinn sá að slökkvibílstjórinn virtist ekki hafa hugmynd um þetta og gaf því strætisvagninum rösklega inn og byrjaði að þeyta flautuna. 

Fór fljótlega fram úr slökkvibílnum og þvingaði upp á gangstétt þar sem hann stöðvaðist. +

Út úr bílnum snaraðist slökkibílstjórinn með miklum þjósti, greinilega mjög æstur yfir þessu háttalagi strætóbílstjórans. 

Vindur stóð úr suðri og lagði reykinn því norður á Klambratún, en slökkiliðsmaðurinn var svo æstur, að hann virtist ekki sjá það, enda var hann með allan hugann við athæfi strætisvagnastjórans, sem opnaði dyrnar á vagninum. 

Sótrauður af bræði hellti slökkviliðsmaðurinn sér yfir strætóstjórann, sem sat hinn rólegasti og bað hann að róa sig aðeins og líta yfir til afturenda slökkvibílsins. 

Slökkviliðsmanninum snarbrá við að sjá nýja fína slökkvibílinn. 

"Heyrðu, það er kviknað í bílnum!" hrópaði hann. 

"Hvað eigum við að gera?!"

"Nú, kalla á slökkviliðið" svaraði strætóstjórinn. 

Óhætt er að nota orðin að vita ekki sitt rjúkandi ráð yfir ástand slökkvibílstjórans. 

"Það er til dæmis slökkvitæki þarna fyrir ofan þig" sagði strætóstjórinn. 

Nú tók við óðagot hjá slökkviliðsmanninum af því tagi, að farþegarnir veltust um af hlátri, því að meðan á því stóð snarminnkaði reykurinn úr slökkvibílnum. 

Það stóð á endum að loksins þegar tekist hafði að losa slökkvitækið hafði reykurinn minnkað niður í næstum ekki neitt. 

Ekki minnkaði æsingur slökkviliðsmanns við þessa óvæntu sjón. 

"Hva, reykurinn horfinn!!" kallaði hann. 

"Já," samsinnti strætóstjórinn, "þú hefur greinilega ekið af stað með handbremsuna á svo að hún hitnaði nógu mikið til þess að það kviknaði í henni. En um leið og þú stansaði hætti núningurinn, svo að maðurinn sem olli eldinum slökkti hann óvart sjálfur."

 

Þetta skondna atvik komst aldrei í fréttir, en strætisvagnabílstjórinn sagði mér frá því síðar. 


mbl.is Myndskeið: Alelda strætó í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband