Snjallt tilsvar hjá kaupfélagsstjóra um síðustu aldamót.

Einhvern tíma í kringum 1990 var gerð stutt frétt hjá Stöð 2 um minnsta kaupfélag landsins, sem þá var á Óspakseyri við Bitrufjörð. 

Hrun starfsemi flestra kaupfélaga var þá geigvænlegt, en á Óspakseyri var í fínasta lagi. 

Kaupfélagsstjórinn, Sigrún Magnúsdóttir, hafði hagrætt rekstrinum á einstaklega hugvitssamlegan hátt, meðal annars með því sem kallað er "fækkun stöðugilda".  

Áfram liðu árin og tíu árum síðar stóð þannig á í fréttaferð til Vestfjarða að hafa samband við Sigrúnu.

Samtalið varð stutt og tók snöggan endi, eitthvað á þessa leið:

"Hér er allt við það sama", svaraði hún. 

"En fjöldi íbúa, hvað með þá?" var spurt. "Fólksfækkun í dreifbýlinu er víðast vandamál."

"Þar er líka sömu sögu að segja," sagði Sigrún. "Alveg sama íbúatalan og fyrir tíu árum."

"Það eru góðar fréttir," sagði ég.

" Nei," svaraði hún. "Það eru slæmar fréttir." 

"Ha?"

"Jú, við erum öll orðin tíu árum eldri."

Eftir því sem árin liðu eftir þetta og þessi mál skoðuð betur, sást betur hve mikil skarpskyggni var í þessum orðum.  

Eðli málsins þjappaðist saman í eina harðsnúna staðreynd. 

Fyrsta spurningin, sem spyrja þarf þegar grennslast er fyrir um lífsmöguleika byggða, er þessi: Hvað búa margar konur á barneignaaldri á svæðinu? 

Ef þær eru fáar, og í ofanálag komin á efri ár barneignaaldursins, er viðkomandi byggðarlag dauðadæmt. 

Þetta getur líka átt við um einstakar þjóðir. Þess vegna er lægsta frjósemistala sögunnar á Íslandi grafalvarlegt mál. 

 


mbl.is Frjósemi aldrei verið minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband