6.1.2010 | 13:42
Talsmenn okkar erlendis ráða úrslitum.
Við Íslendingar hefðum aldrei fengið handritin send heim til Íslands ef við hefðum ekki átt ötula talsmenn málstaðar okkar meðal Dana.
Þorskastríðin hefðu ekki unnist nema vegna þess að við nutum skilnings vinveittra þjóða og gátum nýtt okkur sterka stöðu í varnarkerfi Bandaríkjanna í Kalda stríðinu.
1918 réði úrslitum að um alla Evrópu fór alda kröfunnar um sjálfstæði þjóða álfunnar með sérstökum stuðningi Bandaríkjaforseta.
Danir þurftu sjálfir að krefjast réttlætis í Slésvík-Holstein og urðu því að sýna skilning og sanngirni gagnvart Íslendingum.
Nú er á brattann að sækja í Icesave-málinu og erfiðara að eignast vini í útlöndum. Það hefur verið og verður höfuðatriðið í baráttunni fyrir sanngirni í því máli að vinna málstað okkar skilnings erlendis eins og sést í skrifum dálkahöfundart Financial Times.
Á tímum mikilla áhrifa fjölmiðlunar verður að leita allra ráða til að sinna þessu, hvar sem því verður við komið.
Kurteis og hófstillt mótmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála.
Benedikt Halldórsson, 6.1.2010 kl. 14:21
Ómar,gamli vinur, þú vanmetur stórlega sambönd Gylfa Þ. Gíslasonar við danska sósíaldemókrata og tengsl Sigurðar Nordals sendiherra við fræðimenn. Þetta mál var leyst á pólitískum vettvangi . Þökk sé Gylfa Þ. og dönskum krötum.
Eiður Svanberg Guðnason, 6.1.2010 kl. 15:59
Risið lágt á renglum mjóum,
rassinn blár á vælukjóum,
Finnur hvarf í fyrstu snjóum,
í Framsóknarhádegismóum.
Þorsteinn Briem, 6.1.2010 kl. 18:20
Ég var í pistlinum, Eiður minn, aðeins að tala um útlendinga sem áttu þátt í farsælli lausn fyrrgreindra mála. Þegar ég gerði sjónvarpsþátt um samband Íslendinga og Dana í tilefni af aldarfjórðungsafmæli afhendingar handdritanna átti ég langt viðtal við Gylfa, sem ég birti aðeins lítið brot úr en geymi afganginn.
Ég þaulspurði Gylfa um gang málsins og fór í gegnum gögn um það.
Ýmislegt fróðlegt kom þá í ljós. Það var gæfa Íslands að Gylfi var menntamálaráðherra samfellt í 15 ár og gat því fengið góðan tíma til að fyglja eftir vandlega íhugaðri stefnu sinni, sem byggðist á því að taka nógu langan tíma til þess að leysa þetta mál og nota til þess samböndin sem þú getur um.
En ekki má gleyma dönskum lýðskólamönnum og nokkrum blaðamönnum sem voru mjög drjúgir í að halda fram íslenskum sjónarmiðum.
Annar þeirra nefndi atvik á Siglufirði, sem hefði sannfært sig um hvers eðlis málið var.
Á síldarballi þar sem var mikill fjöldi norskra og íslenskra sjómanna, margra hverra ölvaðra og æstra, gerðist einn íslenski sjómaðurinn æstur í viðskiptum við Norðmennina og stefndi greinilega í slagsmál.
Íslendingurinn sem var tröll að vexti kom að borðinu þar sem Daninn sat og heyrði að hann talaði útlent mál.
Hann spurði Danann: "Ertu Norðmaður?"
Daninn var fljótur að segja hverrar þjóðar hann væri til að minnka æsinginn í íslenska svolanum og hélt að með því hefði hann bjargað sér.
En það var öðru nær. Íslendingurinn þreif í axlir honum, lyfti honum lóðrétt upp og skók hann fyrir fram sig um leið og hann hvæsti: "Skilið þið okkur handritunum!"
Þetta atvik sagði hinn danski blaðamaður mér í viðtali í þættinum að hefði sannfært sig um gildi handritanna fyrir Íslendinga.
Fyrst fullum síldarsjómanni norður við ballarhaf væri það hugstæðast hlyti það að vera Íslendingum sérstaklega mikils virði.
Gylfi lýsti því fyrir mér hve mikla áherslu hann hefði lagt á að forðast æsingar í málinu og vinna það markvisst og rólega með diplómatiskum hætti og nýta persónuleg sambönd sín og annarra Íslendinga sem áttu góð sambönd í Danmörku.
Árnastofnun er glæsilegur bautasteinn um það afrek sem Gylfi og hans nánustu samherjar unni í þessu máli og íslensk þjóð á að þakka honum fyrir.
Ómar Ragnarsson, 6.1.2010 kl. 19:07
Sæll Ómar, ekki er hægt að bera saman gildi handritana fyrir Íslendinga og þeirri ósk um að borga ekki reikninga sem búið er að semja um.
Í útlöndum býr fólk sem vill heldur ekki borga reikningana sína eða stjórna sinna, auðvitað fær alþýðan íslenska mikinn skilning frá þeim - en hann nær ekki langt! Þeir þurfa nefnilega að borga á endanum, og ætlast til þess af Íslendingum líka.
Íslendingar héldu á síðustu árum ekki bara uppá fótboltalið, heldur líka FL Group og önnur útrásarfyrirtæki sem keyptu upp Danmörku, Bretland og fleira. Það er synd íslensku þjóðarinnar. Hrokinn sem fylgdi með telst líka synd. Marga "alvöru" vini eignuðust Íslendingar ekki erlendis á síðustu árum, og nú er ég líka að tala um "venjulega" Íslendinginn með sínu hátterni.
Fjölmargir höguðu sér auðvitað ekki eins og ofar er skrifað, leitt að þeir skuli lenda í þessu.
Eina von Íslands er að vegna fámennis þjóðarinnar var ekki eins mikið tekið eftir þessu hátterni og rembu og ella.
Eins reikna ég með að Íslendingar búsettir erlendis geti ekki með góðu móti reynt að útskýra afstöðu Íslands (hver sem hún nú er?). Vitleysan heima er orðin svo ótrúlega ótrúleg. Best að taka ekki til tals um málið, og forðast alla sem byrja að minnast á Icesave. Ég var heppinn í gær, heppinn í dag, vonandi minnist enginn á þetta helvíti á morgun.
áhugasamur (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 19:35
Um allan heim má sjá hvernig þjóðir hafa varðveitt menningarverðmæti sem sköpuð voru hjá öðrum þjóðum og þær harðneitað að skila þeim.
Ef íslensku handritin hefðu verið í British Museum eða Louvre-safninu hefðu þau aldrei verið send til Íslands fremur en dýrgripir annarra þjóða en Breta og Frakka sem þessi söfn liggja á eins og ormar á gulli.
Gildi ötulla talsmanna í handritamálinu á erlendri grundu auk áhrifa og sambanda sem Íslendingar höfðu erlendis réði úrslitum um afhendingu handritanna, sem var einstæður gjörningur á heimsvísu.
Ómar Ragnarsson, 6.1.2010 kl. 20:59
Góð saga!
Eiður Svanberg Guðnason, 6.1.2010 kl. 21:49
Það er ekki gott að stjórnin leggur líf sitt að verð verði icesave samningurinn feldur með þjóðaratkvæðagreiðslu með öðrum orðum þá geta býsna margir sem vildu kjósa gegn samningum eins og hann er farm lagður ekki gert það vegna hættu á að missa stjórnina og fá gömlu flokkana aftur pínleg staða sem við erum komin í. Þetta mál sem icesave er á ekki að flokkast undir pólitík hvernig er hægt að koma þeim sem stjórna til að skilja það. Gamla flokksræðið virðist ætla að vera langlíft, notum tækifærið og myndum þjóðstjórn ef núverandi stjórn hrökklast frá völdum, síðan ættum við þegar um hægist að endurnýja allt stjórnkerfi okkar með aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds.
Sigurður Haraldsson, 7.1.2010 kl. 00:18
Og líklega er forseti vor líklegri til að afla okkur vina á erlendri grundu en ráðherrar ríkisstjórnarinnar.....
Við skulum muna það að Björk var ekkert voðalega vinsæl á Íslandi þó hún geri það gott erlendis...
Okkur hættir oft til að vanmeta hæfileika fólks og það er í íslendingseðlinu að hampa meðalmennskunni en níða niður þá er skara framúr.... Í því sambandi er rétt að hafa í huga að útrásarvíkingarnir fyrrverandi og núverandi auðvisar, svo og bankamennirnir allir, voru lélegir meðal-Jónar.....!
Ómar Bjarki Smárason, 7.1.2010 kl. 01:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.