7.1.2010 | 23:12
Borgin og bílarnir.
Fyrrum fjölmiðlamenn eru nú að hasla sér völl í skipulags- og umhverfismálum í Reykjavík.
Ég fór síðdegis á fyrirlestur Gísla Marteins Baldurssonar í Þjóðminjasafninu þar sem hann reifaði það helsta sem hann hefur lært í námsdvöl sinni erlendis um skipulags- og umhverfismál í borgarsamfélaginu.
Gísli Marteinn flutti þarna stórskemmtilegan og fræðandi fyrirlestur með tilheyrandi myndefni og var gerður góður rómur að málflutningi hans.
Það hefur vantað á að Íslendingar hafi farið til útlanda til að víkka sjóndeildarhring sinn í þessum málum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom hingað heim frá reisu sinni víða um lönd til að kynna sér þessi mál og hristi rækilega upp í stöðnuðum og úreltum sjónarmiðum, sem hér réðu þá för.
Báðir þessir menn eru fyrrverandi samstarfsmenn mínir í Sjónvarpinu og hafa kynnst rannsóknarblaðamennsku og vinnubrögðum sem nýtast vel á öðrum sviðum.
Auk þeirra er Hjálmar Sveinsson kominn á kreik fyrir Samfylkinguna með svipaðan málaflokk sem helsta áhugamál eftir vel heppnaða og upplýsandi umfjöllun í þáttum sínum í útvarpinu.
Helsti gallinn við umfjöllun Gísla Marteins og fleiri í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna er sá að vegna þess að höfða þarf til Reykvíkinga er vettvangur þeirra bundinn um of við borgina eina.
Gísli Marteinn og Hjálmar munu fá harða samkeppni frá öflugum keppinautum sem eru á svipaðri línu og þeir og hafa barist fyrir svipuðum sjónarmiðum.
Hjálmar Sveinsson fór í þáttum sínum ofan í þessi mál í nágrannasveitarfélögunum ekki síður en í Reykjavík, en spurning er hvort hann geti haldið þeirri víðu sýn áfram í kapphlaupinu um fylgi í Reykjavík.
Meðal gesta á fyrirlestri Gísla í dag var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Fyrir nokkrum árum fór ég í ferð um þrjú Norðurlandanna til að taka myndir í fyrirhugaða þætti mína um skipulagsmál í norrænum borgum og tók myndir í alls tólf borgum.
Var þetta gert í tilefni af skýrslu borgarsamtaka Norðurlanda sem bar saman 16 norrænar borgir.
Athyglisvert var að allar borgirnar sem voru álíka stórar og Reykjavík voru álíka dreifbyggðar og það sýnir að dreifð byggð í Reykjavík er ekki einstætt fyrirbrigði eins og heyrst hefur í sibylju hér á landi í áratugi.
Meðal skemmtilegra hugmynda Gísla Marteins var að fjölga íbúum í Skeifuhverfinu í Reykjavík úr einum upp í 1300 án þess að leggja nokkra verslun eða þjónustu þar niður.
Þar kemur hann inn á ný viðhorf skipulagsarkitekta erlendis sem Sigmundur Davíð minntist líka á á sínum tíma, en þeir eru að hverfa frá blokkabyggðum, sem annað hvort eru skrifstofublokkir eða íbúðablokkir og halda frekar fram blandaðri byggð og sækjast ekki eingöngu eftir háhýsum í viðleitninni við að þétta byggð.
Í DV hefur verið rætt um að innan raða Sjálfstæðismanna sé hreyfing um að koma Gísla Marteini út úr efstu sætunum.
Ég hjó eftir því í fyrirlestrinum að hann kvað þurfa sátt um innanlandsflugið í borginni og á landsvísu. Ef hann heldur sig við það er það klókt hjá honum og ef hann stendur sig jafnvel í kosningabaráttunni og á fyrirlestrinum í dag verður spennandi að sjá hvernig honum mun vegna.
Læt svo fylgja með í lokin að ég var fyrst núna að klára pistil sem kemur inn á eitt vandamál umferðarinnar sem er stærð farartækjanna og datt of snemma inn á bloggsíðuna ókláraður.
Það er pistill er nú fullklráraður hér á undan með nafninu "Japönsku Kei-bílarnir á Íslandi" og er nú hægt að lesa hann í endanlegri mynd.
Athugasemdir
Frændi, skoðaðu aðeins þetta road-test:
http://www.autocar.co.uk/CarReviews/RoadTestsHistory/Mini-E-150kW/246233/
Kemur vel til skila, bæði kostum og göllum, eins nýasta rafbílsins.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.1.2010 kl. 00:00
Samfylkingin og Vinstri grænir fá meirihluta í borgarstjórnarkosningunum í vor og Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri. Sjálfstæðisflokkurinn verður í minnihluta í borgarstjórn en aðrir flokkar hafa nú mjög lítið fylgi í Reykjavík.
Árið 2004 var þéttleiki byggðar í Reykjavík 33,5 íbúar á hektara en 28,8 á höfuðborgarsvæðinu.
Þéttleiki byggðar í vestur-evrópskum borgum er hins vegar að meðaltali 55 íbúar á hektara.
Þéttleiki byggðar í Reykjavík, sjá bls. 3-5
Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verður fluttur á Hólmsheiði en um 4.500 manna byggð verður í Vatnsmýrinni, samkvæmt verðlaunatillögu, og göng koma undir Öskjuhlíðina.
Byggingarland er mun ódýrara á Hólmsheiðinni en í Vatnsmýrinni og Hólmsheiðin er miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.
Og nýbyggingar Landspítalans verða reistar þar sem nú er Umferðarmiðstöðin.
Þorsteinn Briem, 8.1.2010 kl. 07:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.