9.1.2010 | 18:22
Ýmsar hliðar á 2007 enn á ferli.
Hliðarnar á hruninu eru margar og misjafnar. Ein mun sjást á morgun í bílamótmælum sem stefnt er að.
Ekki þarf annað en að kynna sér bílainnflutning gróðærisáranna til að sjá að margir hljóta að hafa farið illa út úr lántökum vegna kaupanna.
Bylgjan hófst 2002 þegar skrifað var undir Alcoasamninga um Kárahnjúkavirkjun og ári áður en framkvæmdir hófust.
Ég þekki mann, sem sérhæfði sig í innflutningi fyrir einstaklinga, einkum frá Bandaríkjunum.
Hann sagði mér að strax við undirritun samningana um álverið hefði alger ládeyða í innflutningi breyst í brjálaða törn. Samt var heilt ár þangað til einhvað var yrði farið að vinna við Kárahnjúka.
Hann sagði mér að yfirleitt hefðu þeir sem komu til hans slegið lán fyrir kaupunum og keyrt yfirdráttarheimildir í botn.
Ráðleggingar hans um að fara að með gát hefðu fallið í grýttan jarðveg, - allir voru að taka lán út á væntanlega þenslu.
Það var athyglisvert að skreppa í dag og skoða tvo nýja bíla sem á að fara að flytja inn til landsins.
Það er lítið um slíkt framtak um þessar mundir, svo mikil lægð hefur verið í bílainnflutningi að nálgast frost.
Hjá Brimborg var verið að kynna nýja gerð af Ford Ka, sem er minnsti bíll Fordverksmiðjanna og tvíburabíll Fiat 500 sem var kjörinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom á markaðinn, Meðal keppinauta þessa nýja bíls eru þríburabílarnir Citroen C1, Toyota Aygo og Peugeot 107, Suzuki Alto, Hyunda i10 og Kia Picanto.
Ford Ka og Fiat 500 eru vel heppnaðir og mismunurinn á þeim liggur fyrst og fremst í útliti og tilbrigðum í búnaði og fjöðrun.
Minnstu og ódýrustu bílarnir sem hér hafa verið nefndir kosta frá rúmum tveimur milljónum króna.
Á sama tíma var verið að kynna nýjan Toyota Landcruiser 150 en bílarnir af þeirri gerð, sem sýndir voru, kosta 10 til 13 milljónir króna.
Nú skyldi maður ætla að á tímum kreppu og hruns væri mikil hreyfing í kringum ódýrustu bílana en færra áhugafólk um þá dýru, stóru og þungu.
En þetta var alveg öfugt. Mikill fjöldi fólks var í bílasalnum hjá Toyota og þegar ég spurði sölumennina hvort þetta fólk væri að skoða Toyota Aygo og Yaris svöruðu þeir því til að sáralítil hreyfing væri á þeim bílum.
Allt þetta fólk væri að skoða stóru jeppana, nokkrir jeppanna hefðu þegar selst og liti ágætlega út með söluna á fleirum næstu vikur.
Hvernig má það vera að nær engin hreyfing sé á ódýrustu bílunum en húsfyllir að skoða bíla sem kosta hver um sig á annan tug milljóna króna?
Einu sinni var sunginn söngurinn "Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið" og kannski er svarið núna" Þú ert svolítið 2007 inn við beinið."
Þrjár aðrar skýringar má nefna.
1. Það er alltaf gaman að láta sig dreyma, svona svipað eins og þegar fólki býðst að fara á sýningu þar sem kjólar, skartgripir og dýrir munir glitra, bara til að fá að horfa á og skoða.
2. Eftir gróðærið eiga margir jeppa í þessum flokki og hafa áhuga á að skoða nýjustu gerðina.
3. Ævinlega er til fólk, sem hefur góð fjárráð, hvort sem ríkir uppsveifla eða kreppa. Sumir finna jafnvel betri gróðamöguleika í kreppunni en í gróðæri.
Tilfellin þar sem fólk á í vandræðum með bílalánin eru jafn mismunan og þau eru mörg, allt frá því að vera komin í vandræði út af ástandi, sem ekki var hægt að sjá fyrir, og upp til þess að hafa látið blindast af gylliboðum gróðærisins og óraunhæfum fjárhagsáætlunum.
Enn mótmælt á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ein skýring á Toyota LandCruiser 150 kaupunum getur verið sú, að hún er ekki arfavitlaus „fjárfesting á hjólum“ eins og ætla mætti við fyrstu sýn. Hvar á að geyma 150-200 milljarða króna sparnaðinn? Ekki í hlutabréfum, fallandi ríkisverðbréfum, fallandi fasteignum, hvað þá krónudóti þegar allt eins er búist við bankaáhlaupi á hverri stundu. Gjaldeyrir er besta geymslan, en gjaldeyrisreikningar eru ekki öruggir. Þetta er færanleg eign, seljanleg í gjaldeyri erlendis með tiltölulega litlum afföllum ef illa fer miðað við allt annað. Kannski mjatlast jöklabréfin í þetta?
Ívar Pálsson, 9.1.2010 kl. 23:37
Ekki svo galin skýring þessi, Ívar.
Ómar Ragnarsson, 10.1.2010 kl. 00:58
Útrásin er að breytast í innrás.
Sigurður Haraldsson, 10.1.2010 kl. 02:17
Góð færsla hjá þér Ómar. Þú hefur alltaf verið mikill áhugamaður um sparneytna smábíla eins og sést á blogginu og auðvitað áhugamaður um umhverfismál. Þú þyrftir að kíkja á okkur í Brimborg á mánudaginn næsta en þá munum við í samvinnu við Íslenska Nýorku afhenda 10 vetnisrafbíla til notenda.
Mjög spennandi.
Kveðja
Egill
Egill Jóhannsson, 22.1.2010 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.