13.1.2010 | 12:58
Hláleg saga af viðskiptum Íslendings í Afríku.
Sagan af óprúttnum Nigeríumanni sem plataði Dana upp úr skónum vekur upp minningar um spaugileg viðskipti mín í ferð til Marokkó áður en svona prettir urðu öllum kunnir hér á landi.
Ég fór með þrjár dætur mínar, 13 til 16 ára, fyrir meira en 20 árum frá Torremolinos til Marokkó.
Þegar við komum yfir Gibraltarsundið tók ég leigubíl og hugðist vera leiðsögumaður okkar sjálfur eftir ítarlegan lestur um Marokkó og borgina Tetuan.
En leigubílstjórinn þekkti náttúrulega allt betur en ég var fljótlega búinn að koma því svo fyrir að ég varð algerlega háður honum og ráðleggingum hans.
Var hann fljótlega búinn að taka af mér öll völd af fádæma refskap og ýtni og gerðist bæði umboðsmaður okkar og leiðsögumaður í hvívertna, sleppti ekki af okkur hendinni og lét okkur finna fyrir yfirburðum sínum og jafnframt fyrir því, að án hans myndum við fara okkur að voða við hvert fótmál.
Hann þekkti alla sem við skiptum við og hefur áreiðanlega fengið umboðslaun af verslun minni hjá hverjum og einum því að kostnaðurinn vatt sífellt meira upp á sig.
Meðal þess sem hann fékk okkur til að gera var að fara inn á heimili manns, sem í ljós kom að rak umfangsmikla teppaverslun, og ófu kona hans og dætur teppin af mikilli list.
Það var svo sem afar fróðlegt að koma inn á svona ekta arabískt heimili en fljótlega var leigubílstjórinn búinn að flækja okkur inn í net sem engin leið var að losna út úr.
Okkur voru bornar veitingar og síðan borin inn teppi í tugatali, sem breidd voru á gólfið hvert á eftir öðru.
Ekki var um annað að ræða en að við keyptum eitthvað og hófst nú hið dæmigerða afríska prútt, þar sem húsbóndinn var að sjálfsögðu á heimavelli og prangaði hverju teppinu af öðru inn á mig.
Loks tókst mér að láta þessu lokið og bar við fjárskorti. En þá tók tíu sinnum verra við.
Húsbóndinn sagðist allan tímann hafa verið að prútta í dönskum krónum en ekki íslenskum eins og ég var að gera.
Við þetta margfaldaðist umsamið verð og engu varð um þokað, ekki að ræða það að fækka teppunum eða breyta neinu. Mér var sagt að ef ég möglaði yrði það tekið sem argasta móðgun við teppasalann og gæti ég haft verra af.
Engu skipti þótt ég segðist ekki hafa nóga peninga, - farið yrði með mig í banka og pósthús og gengið frá öllu.
Þegar þangað kom hittum við bandarísk hjón sem voru hálfgrátandi yfir því að hafa verið svikin illilega í viðskiptum.
Létt mér ögn við það því hvað segir ekki máltækið góða: Sætt er sameiginlegt skipbrot.
Ekki fékk ég að pakka teppunum inn, heldur voru þau rifin af mér um leið og ég hafði greitt kaupverðið og mér sagt að vinur leigubílstjórans á pósthúsinu myndi taka af mér allt frekara ómak.
Ekki var við það komandi að ég fengi að taka teppin með mér, - leigubístjórinn sagði að þá biði mín mikil vandræði á ferjunni til baka. Þóttist ég nú sjá að ég sæi teppin ekki framar og ekki losnaði ég við leigubílstjórann fyrr en hann hafði smurt duglega ofan á umsamdar greiðslur til hans fyrir leiðsögn hans og umsjónarstörf.
Skemmst er frá því að segja að ég varð að athlægi þegar komið var úr þessari sneypuför og fréttist um viðskipti mín.
Þetta var jólaferð og leið nú fram eftir vetri að sagan af verslunarleiðangrinum mikla lífgaði upp á skammdegið hjá öllum sem hana heyrðu.
Á útmánuðum gerðist það síðan að bréf kom til mín um það að ég ætti sendingu á pósthúsi.
Og viti menn, - var þar þá ekki kominn risavaxinn teppapakki frá Afríku eftir langa og stranga ferð til Íslands!
Þetta var það mikið af teppum að þau dreifðust og prýðir eitt þeirra enn stóran vegg í húsi í Bolungarvík !
Lærdómur: Það er engu að treysta í viðskiptum við Afríkubúa, - ekki einu sinni hægt að treysta því að engu sé að treysta !
Enn fellur fólk fyrir Nígeríusvindli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar. Nú eru það Íslenskir bankaræningjar sem eru á þessu þroskastigi og sumir landsmenn kanski með. Láta teyma sem út í vitleysu með dautt dollara-blik í augum. Hollur er heimafenginn baggi þegar Ísland er annars vegar. Það fylgir alltaf böggull skammrifi. Ef einhver ætlar að græða mikið á svindli tapar hann. Það eru gömul og ný sannindi. M.b.kv. Anna.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.1.2010 kl. 14:45
Afsakið, teyma sig átti það að vera.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.1.2010 kl. 14:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.