Veturinn er vanmetin auðlind.

Janúarferðalag jeppaklúbbs NFS fór fram um þessa helgi og var gott dæmi um þá möguleika sem gefast að vetrarlagi til þess að njóta landsins okkar. Hátt á fjórða tug manna á 15 aldrifsbílum fóru í þessa ferð. 

P1011202

Að þessu sinni var dvalið í Hrauneyjum og farin á laugardeginum um jeppaslóð yfir Búðarháls að fossinum Dynk í Þjórsá. 

Lára mín og Haukur Olavsson ásamt Iðunni Huldu dóttur þeirra fóru í ferðina að vanda á hinum 21. árs gamla Toyota Hi-lux pallbíl, sem ég hef notað til að draga bátinn Örkina austur á Kárahnjúkasvæðinu og telst vera minnsti Toyota jöklajeppi landsins. 

P1011194

Að þessu sinni var minnsti jöklajeppi landsins, Suzuki Fox ´86, ekki tiltækur fyrir mig vegna bilunar og "vakti ég því upp" 19 ára gamlan Geo Tracker blæjujeppa, sem var bandarísk útgáfa af Suzuki Vitara og hafði verið geymdur úti í fjögur ár suður í Kapelluhrauni.

Á efstu myndinni sést "Örkin" draga einn þátttakandann upp skafl sem reyndist flestum erfiður.

Aldrifsbílarnir spönnuðu allan regnbogann, allt frá Dodge Ram pallbíl á 49 tommu dekkjum niður í Toyota Rav 4x4 og hjálpsemi og ferðagleði voru í fyrirrúmi. 

P1011200

Ferðir af þessu tagi eru alveg óborganlegar, bæði skemmtilegar og gefandi allan tímann.

Akstursleiðin bauð upp á fjölbreytni, meðal annars akstur yfir á með ísskörum og tveimur vöðum. 

Ferðin sýndi að óþarfi er að láta reynsluleysi eða litla getu fararskjótanna draga úr sér kjark til að fara svona ferðir, svo framarlega sem með í ferð séu einnig reyndir  jeppamenn á sæmilega öflugum bílum.  

P1011201

Veðrið var betra en spáð hafði verið, bæði mildara og ekki eins mikil úrkoma og spáin hafði sýnt. 

Ekki var útsýni til fjallahringsins ofan af Búðarhálsi með Heklu, Kerlingarfjöll og alla jöklana við sjóndeildarhringnum en það skipti engu höfuðmáli, aðalatriðið var ferðagleðinu og félagsskapurinn.  

Ýmislegt varð að varast og sýna bæði aðgæslu og útsjónarsemi, því að flughált var víða og víða erfitt að fóta sig.

Slóðinn að Dynk nær ekki alla leið að fossinum, flughált í hallanum þar sem gönguslóðin liggur að honum, og þar að var auki orðið framorðið eftir tafsama ferð og varð því að láta nægja að skoða fossinn í klakaböndum vetrarins úr allmikilli fjarlægð eins og sést á myndinni af ferðafólkinu þar sem fossinn er í baksýn, langt í burtu. 

P1011204

Gljúfurleitarfoss hafði verið á dagskránni en hann verður að bíða betri tíma.

Raunar er bagalegt hve aðgengi er lélegt að þessum tveimur af tíu mestu stórfossum landsins.  

Um kvöldið var "veisla hjá innfæddra eldi" eins og segir í söngnum góða, fyrst lambakjöt og síðan tekið forskot á sæluna með þorramat.

Í fjöldasöng kom sér vel að hafa NFS-hljómsveitarmennina Sigga storm, formann klúbbsins, og Róbert Marshall í för eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

P1011207

Rautt ennisband er einkennishöfuðfat í svona ferðum en í mynd af þeim Sævari Jóhannessyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni og Hauki Holm sést að sá síðastnefndi býr yfir sundurgerðarhæfni af bestu gerð.

 

Um miðnætti var síðan brenna en förinni lauk síðan í dag, sunndag.

 

  

Veturinn er vanmetin auðlnd hjá okkur Íslendingum.

Okkur er tamt að líta á hann sem eitthvað erfitt og drungalegt, sem við þurfum að þola á meðan við bíðum eftir því að það fari að birta og hlýna.

 

P1011206

 En þetta þarf ekki að vera svona. 

Veturinn er ekki aðeins auðlind vegna þess að hann bjóði upp á möguleika til stóraukins ferðamannastraums í skammdeginu, svonefndrar upplifunarferðamennsku.

 

 

Hann er ekki síður mikils virði fyrir okkur sjálf til að njóta náttúruundra landsins og öðlast gefandi upplifun í góðum félagssskap.  

P1011218P1011217

 

 

 

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að þessum pistli.  Þú minnist á að ekki hafi allir verið mjög reyndir.  Það sést greinilega á fyrstu myndinni þar sem verið er að draga bíl úr festu.  Nefndu það við ökumanninn að draga aldrei afturábak, því mismunadrif eru nærri helmingi veikari ef tekið er á í öfuga átt.  Sennilega er það heppni að drifin í tojotunni eru heil ennþá og því að þakka að þetta hafa ekki verið alvarlegar festur.

Libbðu svo heill.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 11:33

2 identicon

Takk fyrir þetta, Þorvaldur. Þetta var í fyrsta og líklega síðasta sinn sem ég dreg bíl svona, gerði það nú vegna hvatningar frá karli einum

Drifin eru enn heil, enda þurfti ekki mikið átak til að draga þennan bíl, hann var nú ekki það fastur, greyið.

Lára Ómarsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 12:22

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er hárrétt hjá þér Þorvaldur, en ástæðan til þess að ég mælti með því við Láru að draga bílinn afturábak í þetta sinn var þreföld:

1. Það þurfti lítið átak til að draga bílinn því hann skorti aðeins dálítið grip og var ekki fastur.

2. Kaðlarnir á milli bílanna voru veikburða og þoldu ekki mikla kippi. Það kom í ljós síðar þegar þeir slitnuðu hvað eftir annað þegar Lára dró bíla sem bundnir voru aftur í Toyotuna.

3. Lára sá betur út þegar þetta var gert svona og að öllu framansögðu samanlögðu var engin hætta á að drifin brotnuðu í þessum drætti.

Í þeim sem á eftir fóru voru bílar fastari og þá var snúið rétt en þurfti að vísu í lokin miklu sterkara dráttartóg.

Ómar Ragnarsson, 18.1.2010 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband