Lán til hvers sem var.

Orðið 2007 er þegar orðið tákn um ruglið sem heltók menn á því herrans ári. Reynslulausir nýgræðingar í bankastarfsemi hrópuð: "Kaupum hvað sem er!" 

Um allt Ísland bergmáluðu hróp lánastofnananna: "Lán til hvers sem er!"

Haldið var uppi 30-40% of háu gengi krónunnar og sagt við þá sem ráku sjávarútveginn, að þeir ættu bara að fjármagna tapið af þessu stórfellda peningaráni frá útflutningsgeinunum með því að fá sér lán, helst erlend.

Ofan á þetta bættist stórfelld færsla fjármuna út úr greininni til verkefna og umsvifa sem komu henni ekki við.

Nú skular sjávarútvegurinn 550 milljarða en það er eins og fólk líti á það sem sér eitthvað óviðkomandi, líkt og sjávarútvegurinn sé í hlutverki karlsins sem sat uppi á hestinum og setti poka á bak sér en ekki fyrir framan sig á hestinn um leið og hann sagði: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber."

Öðru máli gegnir um Icesave, sem er miklu minni upphæð, en lendir beint á skattborgurunum og þess vegna er öll athyglin á því.

Á Stöð tvö var rætt við konu, sem er atvinnulaus og einstæð þriggja barna móðir. Hún er menntuð og ákvað í atvinnuleysiinu að fara í frekara nám eins og fólk á hennar róli hefur verið hvatt til.

En "2007" skuldirnar hafa vaðið upp og nú er komið í öngstræti hjá henni. Hún er réttilega reið út í þá sem ollu hruninu og þúsundir Íslendinga geta deilt þeirri reiði með henni.

En frásögn hennar og spurningar sjónvarpsfólksins skildu eftir eina mótsögn.

Skuldir hennar eru tvenns konar.  

Hún fékk lánað fyrir íbúð og skuldar nú fimm milljón krónum meira en íbúðin er virði. 

Hún taldi sig geta staðið í skilum en hrunið breytti því og þúsundir fólks getur ekki unað við það, skiljanlega.  

En í lok viðtalsins var tæpt á atriði sem mér finnst vekja ósvaraðar spurningar.

Hún sagðist hafa keypt sér bíl með því að skuldsetja sig,  þannig að nú skuldaði hún 2,2 milljónir í bílnum.

Ekki var spurt að því af hvort hún hefði gert eitthvað til að losa sig við bílinn og mátti af því skilja að sjálfagt væri að hún ætti bíl í þessum verðflokki. 

Daglega má sjá í Fréttablaðinu auglýsingar um bíla sem kosta innan við 250 þúsund krónur.

Ég hef síðasta áratug ekið mest af mínum akstri á bíl sem virða má á nokkra tugi þúsunda og  þekki fleiri sem gera slíkt ef fjárhagurinn leyfir ekki meira.   

Það hefði mátt fara nánar út í þetta bílamál í viðtalinu.  


mbl.is Reynslulausir íslenskir bankamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Já, þetta er svolítið merkilegt með bílakaupin, því í einu viðtali, sem birt var á annarri hvorri sjónvarpsstöðinni fyrir nokkru, var kvrtað yfir því að erlenda lánið á jeppanum, sem keyptur var á 100% erlendu láni, væri nú komið í 12 milljónir og lánið á fólksbílnum í fjórar milljónir, en hann var líka keyptur fyrir 100% erlent lán.

Þessar hörmungar bættust við erfiða stöðu vegna hækkunarinnar á íbúðaláninu, sem líka var erlent.

Maður hefur oft hugsað til þess, hvílík firring og rugl var í gangi á þessum árum, þegar öllum átti að vera ljóst, að gengið var allt of hátt skráð og aðeins tímaspursmál, hvenær það myndi falla, án þess þó, að menn hefði órað fyrir svo miklum skelli, sem raun varð á.  Helmingurinn af gengisfallinu hefði komið, án nokkurra utanaðkomandi áhrifa, en fáir, allra síst bankamenn, virtust gera sér grein fyrir því.

Axel Jóhann Axelsson, 20.1.2010 kl. 13:47

2 Smámynd: Ellert Júlíusson

Ég seldi minn 2m króna bíl þegar ég keypti mér íbúð 2005. Keyri um á 98 módeli af skuldlausri Corollu sem hefur kostað mig minna en 70.000kr í varahluti síðan hann var keyptur, sennilega minna en tvær afborganir af nýjum bíl.

Þetta skilur fólk ekki. Það miklar það fyrir sér að fara með gamlan bíl i viðgerð því það sé svo "dýrt". Jú, 20.000kr til að skipta um bremsuklossa eru nokkrir aurar, en það má ekki gleyma skylduskoðununum á nýjum bílum. Þær kosta að því ég best veit LÁGMARK 35.000kr, og það er bara fyrir að aka dollunni inn um dyrnar. Hæsta tala sem ég hef heyrt var 120.000kr í 20.000km skoðun. Skipt um allt í bremsum, og einhver reytingur sem umboðinu datt í hug að stela af eigandanum.

Já, það er margt skrítið í kýrhausnum.

Ellert Júlíusson, 20.1.2010 kl. 14:29

3 identicon

Það er hálf broslegt að í dag er það frekar vísbending um góðan persónulegan efnahag að keyra um á gömlum og ódýrum bíl en nýjum og dýrum.

Annars rýrnar verðgildi bíla mjög hratt og það getur verið erfitt að ná einhverju teljandi hlutfalli af bílaskuld sem menn vilja losna við með því að selja bílinn. Ef þú leggur saman venjulega verðrýrnun, sérstaka sölutregðu í dag og áhrifin sem gengisfall hefur haft á myntkörfulán þá er ekki erfitt að sjá af hverju margir eru lentir í illviðráðanlegum vandamálum með bílaskuldir.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 15:03

4 identicon

Hef ekki átt bíl síðan 1992 - og sakna þess afskaplega lítið. Strætó nægir - og leigubílar, þegar þess þarf - og kostar mig mun minna á hverju ári, en að reka hvaða bifreið sem er, á hvaða verði sem hún hefði fengist.

En, vissulega þurfa sumir að eiga bíl, ég skil það vel. Ég er bara ekki einn þeirra.

Skorrdal (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 15:59

5 Smámynd: Offari

margir bílar eru yfirveðsettir og fólk veigrar sér ekkert við að selja þá á yfirverði fáist kaupandi. Verðfall hefur verið á dýrari ílum mmeðan gomlu verðlausu druslurnar eru allt í einu orðnar einhvers virði.   Það erekkert ýkja langt síðan menn henntu 8-10 ár bílum en í dag eru þeir söluvara.

Mér finnst þessi þróun ágæt því hún er atvinnuskapandi og kemur í veg fyrir að mmmenn hendi verðmætum.   Sjálfur ek ég um á 10 ára gömlu Opel sem ég keypti á 100þ á sínum tíma.  Bíllin hefur reynst mér vel á þeim 50þ km sem ég hef ekið honum en vissulega veit að þega bílar eru farnir að rúlla 400þ km að það styttist í stórt viðhald.   Fari svo neyðist ég til að fá mér annan bíl..   Kannski vill Ómar selja mér einhverja gamla lús sem er orðin of gömul fyrir hans smekk.Ég reyndar efast um að hann tími að láta dótið sitt. 

Offari, 20.1.2010 kl. 16:08

6 identicon

Ég var búinn að keyra á eldgömlum lélegum bíl í mörg ár, árið 2006 þá ákvað ég að láta það eftir mér að fá mér nýjan úr kassanum þar sem sá gamli var orðin heldur lélegur. Keypti mér ósköp venjulega drossíu sem, engin lúxus bíl.  Staðgreiddi bílinn því ég hef alltaf farið vel með peninga og átti orðin ágætissjóð. 

Þetta vakti mikla hneyksli margra, einn kunningi minn sem var bankamaður  sagði að ég hefði auðveldlega getað fengið bílinn gefins með því að taka myntkörfu fyrir bílnum og nota frekar peningana sem ég borgaði bílinn með til þess að fjárfesta, arðurinn af því myndi borga bílinn upp á stuttum tíma. 

Sem betur fer fór ég ekki að ráðum bankamannsins því þá myndi lánið standa töluvert hærra núna en virði bílsins, peningurinn sem hefði farið í að fjárfesta væri einnig tapaður. 

Það má ekki dæma alla sem eru á nýjum eða nýlegum bílum að það sé lán áhvílandi á þeim.

Haraldur (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 17:29

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alveg rétt, Haraldur. Aðstæður eru mismunandi eins og gengur og í öllum venjulegum aðstæðum er eðliegt að bílar fólks séu nýlegir. Það þarf hins vegar ekki annað en að horfa á bílaflotann á ferð á götum borgarinnar til að sjá að bílarnir eru þúsundum saman allt of stórir og dýrir.

Ómar Ragnarsson, 20.1.2010 kl. 18:11

8 identicon

Já sammála, lengi þótt það áhugaverðara að eiga skranið en að láta skranið eiga mig.

Alexander (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 18:18

9 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Þú fyrirgefur mér vonandi Ómar þó ég noti mér bloggið þitt til að biðja þig um að kíkja inn á mitt blogg og ef þú hefur áhuga að fjalla um það og koma því á framfæri við fólk sem þú þekkir og hittir á förnum vegi um landið.

Með fyrirfram þökk Laugi 

Sigurlaugur Þorsteinsson, 20.1.2010 kl. 22:11

10 Smámynd: Stefán Jónsson

Það hefur legið ljóst fyrir í marga áratugi að kaup á bíl eru ekki fjárfesting, heldur neysla/eyðsla, öfugt við t.d. kaup á húsnæði.
Það hefur s.s. alltaf verið uppi á borðinu, frá fyrsta degi, að með því að kaupa bíl á 100% láni eru menn að taka verulega fjárhagslega áhættu, án nokkurrar vonar um hagnað.
Ýtnin, frekjan og dónaskapurinn í sölumönnum og starfsmönnum margra fjármálafyrirtækja undanfarin ár, að reyna að troða einhverjum andsk... óþarfa ofan í kokið á fólki á 100% lánum, keyrði alveg um þverbak.
En fólk ber líka ábyrgð á sjálfu sér, því bar engin skylda til að gleypa við þessari þvælu.
Hvað hafa menn ekki séð margar bílaauglýsingar undanfarin ár, þar sem "hagstætt bílalán" fylgir? Fyrir mér hefur þessi orðasamsetning, "hagstætt bílalán", aldrei haft neina vitræna merkingu, er í raun mótsögn eða þverstæða. Svipað og að tala t.d. um "notalegan banvænan sjúkdóm" eða "virkilega huggulegt morðtilræði", nú eða þá "stríðið sem á að binda endi á öll stríð".

Stefán Jónsson, 20.1.2010 kl. 22:36

11 identicon

Sumir geta ómögulega farið á milli staðar A og B nema nota til þess 3-4tonn af glænýju stáli sem kostar frá 2-3 milljónum og uppúr. Ef fjárhagurinn leyfir ekki þá VERÐUR náttúrulega að taka lán fyrir þeim ósköpum.

Arnór (IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 00:10

12 Smámynd: Billi bilaði

"Ekki var spurt að því af hvort hún hefði gert eitthvað til að losa sig við bílinn..."

Bílar seljast ekki frekar en húsnæði!

Billi bilaði, 21.1.2010 kl. 02:34

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er rangt hjá þér, Billi. Ég hef nógu góð sambönd við bílasala til að upplýsa að vegna þess að innflutningur nýrra bíla hefur stöðvast er furðu mikil sala á notuðum bílum.

Það mikið var selt af stórum nýjum bílum í gróðærinu að margir eigenda þeirra eru að minnka við sig og kaupa smærri bíla, til dæmis eins og þann sem konan átti. 

Það kostar ótrúlega mikið meira að reka stóran bíl en lítinn, miklu meira en fólk telur sér trú um. 

Ómar Ragnarsson, 21.1.2010 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband