Maybe I should have. Maybe we should have. Maybe we should...

Við erum í raun stödd ennþá í miðju hruninu og hlutir eru að gerast sem gefa lítið eftir því sem gerðist í aðdraganda þess.

Á það erum við minnt með ákæru ríkissaksóknara gegn mótmælendum sem brutu sér leið inn í Alþingishúsið fyrir rúmu ári.

Það var fljótlegt og einfalt fyrir ákæruvaldið að taka í lurginn á þeim á sama tíma og spurt er erlendis hvenær og hvort komi að því að við nokkrum þeim verði blakað sem stóðu að hruninu.

Einmitt þegar þetta er að gerast er að koma til sýningar í kvikmyndahúsum heimildamynd Gunnars Sigurðssonar og Lilju Skaftadóttur, "Maybe I should have." 

Myndin er mjög þarft innlegg í þetta stærsta mál þjóðarinnar því að með henni er farið í gegnum aðdraganda hrunsins, hrunið sjálft og það sem tekið hefur við. Þeirri kvöldstund er vel varið sem þetta er gert í kvikmyndahúsi.  

Þótt fátt nýtt komi fram í þeirri mynd umfram það sem sagt hefur verið og komið hefur fram í fjölmiðlum til þessa þá vekur hún þá, sem hana sjá, til umhugsunar um ástand mála og orsakir þess og er því góður og nauðsynlegur sjónauki til að nota í þeirri sjálfsskoðun sem íslensk þjóð þarf nú á að halda. 

Það eru margir sem geta við slíka skoðun ekki aðeins sagt "Maybe I should have" heldur einnig "Maybe we should have" og líka um ástandið núna: "Maybe we should..."  Hvernig eigum við að bregðst við nú? Fer hér allt í sama farið aftur? Lærum við ekki neitt? Er farið af stað sama skammsýna óðagotið þar sem auðlindir landsins verða seldar fyrir baunadisk og ekkert hugsað um komandi kynslóðir? 

Ég tek ofan fyrir því hugsjónafólki sem hefur afrekað það að gera þær heimildamyndir um hrunið sem þegar hafa litið dagsins ljós. Það kostar mikla vinnu og fórnarlund að gera svona myndir og þær eru mjög nauðsynlegar fyrir okkur. 

Margt er vel gert í þessari mynd og hvað eftir annað var klappað í salnum fyrir snjöllum athugasemdum og góðum sprettum. Má nefna snarpa teiknimyndakafla í því sambandi. Tugþúsundir Íslendinga geta sett sig í spor Gunnars Sigurðssonar þar sem hann fer að leita að peningunum sem hurfu og fer um víðan völl. Þetta er sterkasta hlið myndarinnar og þetta þurfum við öll að gera.  

Ef benda ætti á eitthvað sem betur hefði mátt fara eru það full miklar endurtekningar á setningum og atriðum sem sagðar eru eða koma fram aftur og aftur og missa því vigt auk þess sem myndin lengist að óþörfu. 

 Þetta hefur líklega orsakast af tímahkapphlaupi og einnig af því þekkta fyrirbrigði að í gerð kvikmynda, leikrita og bókmennta verða þeir sem vinna úr efniviðnum að vera grimmir við það að "drepa börnin sín" eins og það er kallað, þ. e. að henda efni sem mikið var haft fyrir að taka og höfundinum þykir vænt um. 

Eins og sagt er með öðrum orðum: "Ruslafatan er besti vinur listamannsins."

Aðeins höfundar verksins vita hverju hent var, - áhorfendur vita það ekki og sakna ekki þess sem þeir vita ekki að hafi verið til. 

Það er ekki þannig að hvert skot og hver setning sem ofaukið var, hafi verið slæm, síður en svo, heldur hitt að endurtekning dregur niður tempó og fletur út. 

Kvikmyndagerð er dýr. Ég hef stundum kallað kvikmyndagerðarmenn einhverja mestu sjálfspíningarmenn sem ég hafi kynnst. Ekki er alltaf víst að allir séu sammála um allt sem kemur fram í heimildarmyndum en það er hverjum hollt að kynna sér mál, skoða þau og mynda sér skoðanir þegar um þau er fjallað eins og gert er með kvikmyndagerð. 

Það er mikilvægt að fólk styðji við bakið á hugsjónastarfi eins og býr á bak við þessa mynd og fari, bæði vegna þess og vegna sjálfs sín í bíó til að sjá hana þegar hún kemur fyrir almenningssjónir.  


mbl.is Mál mótmælenda þingfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Markmiðið með tímasetningu kærunnar er klárlega að draga hug úr fólki varðandi frekari mótmæli eftir birtingu skýrslunnar ?

Er ekki eitthvað bogið við svona réttarkerfi ?

hilmar jónsson, 21.1.2010 kl. 13:05

2 Smámynd: Haukur Baukur

Sammála þér Ómar.

 Þetta er í okkar höndum að gera eitthvað.   Aflið er í okkur fólkinu, ekki möppudýrunum sem vilja stýra okkur.   Og við getum vel notað aflið til löglegra aðgerða.  Ein besta aðgerðin er að stýra fjármagninu.  Ef við tökum höndum saman og verslum aðeins hjá völdum fyrirtækjum og þjónustum, þá eru það við sem stjórnum þeim, ekki öfugt.  Styðjum frjálsu einstaklingana, verslum beint frá bónda, kaupmanninn á horninu o.sv.frv.

 Hér er líka listi yfir fimm atriði sem fólk ætti að gera fyrir sig og sína.

1. Taktu peninginn út úr bankanum ef viðskiptabankinn þinn fékk enduskipulagningu (bailoutmoney) taktu þinn pening og leggðu hann inn á reikning í einn af litlu sparisjóðunum.

2. Losaðu þig við öll Debit og Kreditkort – Notaðu bara reiðufé. Í versta falli haltu eftir svokölluðu síhringi-debitkorti eða fyrirframgreiddu kreditkorti.

3. Ekki kaupa hlutabréf, verðbréf eða aðra óþarfa áhættu . Ef þú átt aukakrónur leggðu þær inn á sparireikning, eða það sem best er, greiddu niður skammtímaskuldir. Eða kauptu bara blóm handa móður þinni.

4. Láttu til þín taka í öllum þínum hjartans málum. Ekkert er eins öflugt og atkvæðið þitt. Farðu á fundi í stjórnmálaflokknum þínum.  Greiddu atkvæði eftir þínu hjarta og eftir þinni sannfæringu.   Farðu á borgarafundi, stattu með okkur á Austurvelli.  Hringdu í alþingi og fáðu að tala við uppáhalds þingmanninn þinn. (Hér er ég að tala af alvöru.  Ekki hringja í þann sem þú hefur slæmar tilfinningar til og ausa yfir hann skömmum) Segðu þingmanninum þína sýn á framtíð Íslands.   Hafðu líka áhrif í vinnunni.   Þú ert ekki launaþræll.  Þú ert að selja átta klukkustundir af þínum tíma hvern vinnudag. Láttu það skipta máli.

5. Hugsaðu um þig og fjölskylduna. Finndu frið í þínu lífi, veldu þér fólk sem er ekki fullt neikvæðni og gremju. Hlustaðu á börnin þín, þau hafa margt til málanna að leggja. Láttu sem minnst reita þig til reiði. Haltu þig við gott fólk. Slökktu á sjónvarpi, síma, fjölmiðlum og farðu í 30 mínútna göngutúr á hverjum degi. Gefðu þér þinn tíma á þínum forsendum. Borðaðu ávexti og grænmeti. Forðastu ruslfæðið sem er fullt af sykri og salti. Hvítt hveiti og hvít hrísgrjón eru óholl. Borðaðu bara “alvöru mat”. Knúsaðu foreldra þína. Fáðu góðan nætursvefn. Ekki láta sjónvarpið stjórna því hvenær þú ferða að sofa. Segðu upp stöð 2 og veldu að lesa eina bók á mánuði. Komdu reglu á daglegt líf. Farðu að heimsækja ömmu um helgar þegar þér dettur ekkert í hug að gera. Það er ódýrara að fara í sund en í bíó.

Veldu frjóa hugsun. Nýttu ímyndunaraflið þitt til góðra hluta.  Þessi listi er bara hugmynd til að koma þér af stað.

Haukur Baukur, 21.1.2010 kl. 14:55

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Markmiðið með tímasetningu kærunnar er klárlega að draga hug úr fólki varðandi frekari mótmæli eftir birtingu skýrslunnar ? "

Bölvuð vitleysa er þetta í þér Hilmar. Þó taka megi undir þau sjónarmið að hægt gangi að draga aðalmennina í hruninu til ábyrgðar, þá liggur mál þessara mótmælenda á borðinu. Á þá að draga að afgreiða það... bara til að draga að afgreiða það?

Ég tel að þetta fólk eigi að fá sína refsingu fyrir athæfi sitt. Hvað haldið þið að myndi gerast ef það slyppi undan allri ábyrgð á gjörðum sínum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2010 kl. 15:54

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Við erum sannarlega í miðju hruninu, en hve margir tóku eftir yfirlisingu Samtaka Iðnaðarins, þess efnis að stefni í að innlendar fjárfestingar hérlendis, verði þær minnstu á einu ári í gervallri lýðveldissögu Íslands.

Hrunið, er langt í frá búið:

Fjárfestingar stefna í sögulegt lágmark

"Mikill samdráttur í fjárfestingum atvinnuveganna á síðasta ári og takmörkuð áform um fjárfestingar á árinu 2010 valda því að ástæða er til þess að hafa áhyggjur af þróuninni í atvinnumálum. Óvissa um framtíðina, háir vextir, gjaldeyrishöft, skattahækkanir og minnkandi kaupgeta stuðla almennt að slæmu andrúmslofti fyrir fjárfestingar. Ef dráttur verður á áformum um fjárfestingar í virkjunum og orkufrekum iðnaði á þessu ári eru líkur á því að fjárfestingar atvinnuveganna verði minni í hlutfalli við landsframleiðslu en þær hafa verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar."

"Í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að fjárfestingar atvinnuveganna nemi 180-190 milljörðum króna 2010. Áætlaðar fjárfestingar í Helguvík, Búðarhálsvirkjun, Hellisheiðarvirkjun og stækkun álversins í Straumsvík nema um 60-70 milljörðum. Eigendur álversins í Straumsvík hafa samþykkt að ráðast í 1. áfanga stækkunar álversins (straumhækkun) en þar er um að ræða framkvæmd upp á 13 milljarða króna sem slagar hátt í fjárfestingu allra sveitarfélaganna í landinu á árinu sem er áætluð um 15 milljarðar króna á árinu 2010. Fjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur eru áætlaðar um 20 milljarðar á árinu. Eftir stendur yfir 100 milljarða fjárfesting í öðrum atvinnuvegum sem erfitt er að sjá fyrir í núverandi starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja."

SA er í raun og veru að segja, að það stefni í að áætlanir fyrir þetta ár, gangi ekki eftir og að samdráttur muni reynast meiri og einnig atvinnuleysi meira. Þetta skiptir máli fyrir ríkið, því þá fær það inn minna frá skattheimtu en það gerir ráð fyrir og að auki veldur meira atvinnuleysi meiri kostnaði en gert er ráð fyrir. Svo, ef þetta gengur eftir, þá mun hallinn reynast mun meiri á fjárlögum þessa árs, en nú er stefnt að.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.1.2010 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband