22.1.2010 | 23:17
Minnir hrollvekjandi á Tenerifeslysið.
Atvikið á Luxemborgarflugvelli minnir óþægilega á mesta flugslys sögunnar á Los Rodeos á Tenerife þar sem 583 manns fórust við árekstur tveggja stórra farþegaþotna í þokusúld.
Flugslys verða ævinlega hræðilegri en önnur slys þegar árekstrar verða eins og leiðir af eðli máls, miklum hraða, fjölda fólksins sem á í hlut og hæð frá jörðu eins og oftast er.
En á jörðu niðri verða flugslysin líka verri en önnur. Væntanlega hafa ekki verið margir um borð í Cargolux-flutningavélinni en nógu mikill voru hraði og massi vélarinnar til að gera atvikið dramatískt.
Fyrir mörgum áratugum var ég eitt sinn að aka flugvél minni að braut 20 (sem nú er 19) og yfir hana að skýli 4. Ég gangsetti hana þar sem hún stóð skammt frá brautinni og fékk samstundis heimild til að aka yfir. Það var þokusúld og lélegt skyggni og ætlunin aðeins að færa vélina yfir á svæðið við Fluggarða.
Það liðu varla nema 20-30 sekúndur frá því komst í samband við turninn og fékk heimildina þangað til ég kom að brautinni.
Þegar ég ver í þann veginn að aka inn á hana varð mér litið af tilviljun til hægri og sá þá þotu koma æðandi eftir henni út úr súldinni beint í áttina að mér.
Ég stansaði auðvitað, dauðskelkaður og ringlaður, því að ég hafði ekki heyrt að þotan fengi flugtaksheimild.
Þegar ég spurði flugumferðarstjórann hvers vegna þetta hefði gerst var hann alveg miður sín og sagði að þotan hefði verið búin að fá flugtaksheimild áður en ég komst í samband við turninn, en henni hefði dvalist það lengi úti á flugbrautarendanum, að hann hefði verið búinn að gleyma henni þegar hann gaf mér heimildina, enda sá hann ekki þotuna úr turninum vegna súldarinnar.
Síðan þetta gerðist lít ég ævinlega vandlega til beggja hliða áður en ég eki flugvél yfir braut þótt ég hafi fengið heimild úr turni til aksturs og jafnvel þótt veðrið sé eins gott og hugsast getur.
Augnablikið þegar þotan kom æðandi í áttina að mér gleymist aldrei.
Flugvél Cargolux lenti á bíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég held ég fari rétt með það að „voice“ breyttist töluvert eftir slýsið á Tenerife.
Hætt var að nota orðið „clear“ fyrir annað en lendingu og flugtak.
Áður hafði mátt segja t.d. „cleared for line up“. Og það mun hafa vera það sem turninn tilkynnti KLM vélinni, en flugstjórinn, sem var orðinn mjög óþolinmóður, heyrði aðeins „cleared“.Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 17:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.