Óðinn fimmtugur.

Nú er hálf öld síðan varðskipið Óðinn kom til landsins. Hann kom þegar nokkuð var liðið á fyrsta þorskastríðið og er eina skipið sem tók þátt í öllum þremur stríðunum.

Hann hefur líka aðra sérstöðu því um borð í honum var tekinn eina heimildarmyndin, sem tekin var um borð í varðskipi í þorskastríði.

Af þessum sökum skipar Óðinn sérstakan sess í mínum huga því í desember 1975 var ég ásamt tveimur öðrum sjónvarpsmönnum sendur í nokkura daga úthald um borð í skipinu á miðunum norðaustur af landinu og gerði um það heimildarþátt, sem hét "Á vígstöðvum þorskastríðsins" og var sýndur í sjónvarpinu skömmu síðar.

Erfiðasta myndskeiðið var ekki tekið þegar herskip gerði atlögu að Óðni heldur tekið í vélarrúmi skipsins þótt ótrúlegt megi virðast. Ástæðan var sú að vegna þess að vél skipsins var sex strokka var takturinn í gangi hennar 1-2-3-1-2-3-1-3 sem er sami taktur og sami hraði og í laginu La Dansa.

Þess vegna voru margar nærmyndir teknar af ventlaörmum og hverju því sem sló þennan takt í vélinni.

En þegar ég ætlaði að klippa þetta myndskeið kom í ljós að hraðinn á vélinni var ekki jafn, þegar skipið sigldi upp öldur hægði örlítið á vélinni og þegar hún sigldi niður í öldudal herti hún aðeins á sér.

Ég var heila vökunótt að basla við þetta þangað til ég var ánægður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband