2.2.2010 | 20:11
Örbílasafn Íslands?
Siggi stormur kallaði mig til Keflavíkur í morgun til að skrafa við mig á útvarpssstöðinni Kananum um hugmyndir mínar um "Örbílasafn Íslands."
Sigurður hafði heyrt ávæning af þessu og vildi fá nánari útlistun. Ég rúllaði suðureftir á ódýrasta bíl landsins, Fiat 126 Maluch.
Hér á síðunni eru myndir af honum og nokkrum öðrum bílum sem koma til greina á safnið.
Það helsta sem kom fram í samtali okkar var þetta:
Eftir leit á netinu hef ég aðeins fundið tvö örbílasöfn eða "micro car museums". Annað er í Austurríki og sýnist ekki vera stórt.
Hitt er mjög stórt og glæsilegt og er í Georgíu í Bandaríkjunum.
En það er ekki á aðal ferðamannaslóðum Bandaríkjanna og því virðist ekkert svona safn vera þar sem ferðamenn eru flestir í því landi, á austurströndinni og á vesturströndinni.
Ekkert svona safn virðist vera í allri norðanverðri Evrópu.
Ég hef því fengið þá hugmynd að hægt sé að setja svona safn á fót í Reykjavík og myndi það verða undir formerkjum nægjusemi og naumhyggju eða minimalisma eins og það heitir á útlendu máli.
Kjörorðin "small is beautiful" og "less is more" mætti líta þar á veggjum.
Smæðin ein yrði ekki skilyrði heldur líka hugtökin ódýr og einfaldur og sömuleiðis bílar sem voru minnstir eða ódýrastir á einhverju tímabili.
Einnig yrðu á safninu bílar sem eru minnstir sinnar gerðar eða síns stærðarflokks.
Dæmi um það gæti verið minnsti jöklajeppi á Íslandi, minnsti jepplingur landsins, minnsti 4x4 bíllinn, minnsti sjálfskipti bíllinn, minnsti brúðarbíllinn, minnsti Toyota jöklajeppi landsins, minnsti blæjubíllinn o. s. frv....
Þarna væru myndir af bílunum á hinum mismunandi stöðum og upplýsingar um þá og sögu þeirra.
Í gróðærinu 2002-2008 henti fólk litlum og einföldum eða gömlum bílum í stórum stíl eða seldi þá fyrir allt niður í 15 þúsund krónur.
Á þennan hátt slæddust til mín bílar sem ég hef geymt flesta á Geymslusvæðinu í Kapelluhrauni en einnig í litlum bílskúr í Vesturbænum í Reykjavík, en vegna þess hvað bílarnir eru litlir hef ég getað geymt fjóra í skúr sem annars tekur aðeins einn bíl !
Ég hef einnig fylgst með því að nokkrum bílum, sem ekki eru í minni eigu, verði ekki fargað og geti fengið inni á hugsanlegu Örbílasafni.
Þar gæti einnig verið minnsti Mini í heimi, sem hefur verið til skrauts og ánægju sem sýningargripur fyrir viðskiptavini Paulsens í Skeifunni en hefur vegna fjárskorts ekki verið hægt að skrá á götuna.
Auðvitað þarf fjármagn til að setja á fót svona safn en af eðli málsins er ljóst að það ætti ekki að þurfa stórt húsnæði.
P. S. Í morgun var Mini-mini-bíllinn fluttur upp í bilasalan.is sem er við Nethyl í Árbæjarhverfi.
Súkkulaðigarður opnar í Peking | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
maður að nafni Magne ludvigsen safnar smábílum í noregi.
http://www.tv2underholdning.no/broom/se-hoeydepunktene-fra-broompremieren-3002910.html
hér er viðtal við hann í broom.no sem er vionsæll bílaþáttur á TV2
Óskar Þorkelsson, 2.2.2010 kl. 21:34
Eftir að hafa séð þetta innslag sýnist mér hið íslenska Örbílasafn geta boðið upp á fleiri örbíla en Magne Ludvigsen.
Hann er með Fiat 500, Messershmitt kabinroller, Loyd Alexander, Wartburg, NSU-Fiat og Peel P50.
Aðra sá ég ekki og ekki sýndist mér þetta vera formlegt bílasafn.
Á íslenska örbílasafninu gætu strax verið þessir bílar: NSU-Prinz, Fiat 500, Fiat 126, Fiat 126 cabrio, Fiat 600 (Zastava 750), Fiat Panda 4x4,, Suzuki Alto, minnsti Mini í heimi, Daihatsu Cuore sjálfskiptur, Cuore beinskiptur, Cuore 4x4, Heinkel Kabine og hugsanlega líka Austin Seven, auk UAZ 452 og Toyota Hi-lux, tveggja manna pick-up.
Ómar Ragnarsson, 2.2.2010 kl. 23:25
Frystihúsið á Stöðvarfirði er til sölu. Það gæti hentað undir þetta safn.
Offari, 2.2.2010 kl. 23:55
Örbílasafnið þyrfti helst að vera í Reykjavík því að sjálfur þarf ég að aka á einum slíkum að jafnaði.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2010 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.