3.2.2010 | 10:45
Vandi íþróttanna.
Þau viðfangsefni sem nú er glímt við varðandi dómgæslu í handknattleik endurspegla einn helsta vanda íþróttanna, sem felst í því að innan gildandi ramma þeirra finnast nánast vísindalegar aðferðir til að ná árangri og þessar aðferðir breyta ásýnd og eðli viðkomandi íþrótta.
Mælanleg áhrif þessa sjást glögglega í þeirri byltingu, sem varð í frjálsum íþróttum á sjöunda áratug síðustu aldar.
Fram að þeim tíma höfðu frjálsíþróttaafrek að mestu leyti verið sambærileg og sum metin stóðu jafnvel áratugum saman.
Fyrstu merkin um breytingu á þessu sáust í sigri Bob Hayes í 100 metra hlaupi í Tokyo 1964 þar sem fram kom alveg ný týpa spretthlaupara, menn voru allt að 100 kíló vöðvatröll. Hayes kom úr bandaríska ruðningnum og var mjög dæmigerður fyrir íþróttamenn í þeirri grein.
Á næstu árum á eftir varð bylting í flestum greinum, einkum kastgreinunum og ástæðan varð næsta augljós nokkrum árum síðar þegar notkun stera varð á almanna vitorði.
Notkun þeirra og annarra lyfja skaðaði ekki aðeins íþróttirnar hvað snerti þá íþróttamenn, sem notuðu þessi lyf, heldur líka orðstír þeirra sem stórbættu árangur sinn án þess að séð væri að um svo mikla framför í stíl væri að ræða að það útskýrði 2-3ja metra bætingu og aldrei var sannað að hefðu notað sterana.
Dæmi um það er Guðmundur Hermannsson, sem hafði um árabil á þeim árum sem íþróttamenn eru í mesta líkamlega blóma kastað kúlunni 15-16 metra en fór síðan nálægt fertugu að kasta æ lengra og bætti sig svo metrum skipti.
Með því að taka upp notkun trefjastanga í stað stálstanga var stangarstökkinu gerbreytt svo að nam bætingu upp á 1,5 metra !
Fyrsti handboltamaðurinn sem kom til Íslands og var af alveg nýrri gerð handboltamanna var Hans Schmidt, sem brilleraði í leik Gummersbach við Íslandsmeistara FH og fékk áhorfendur upp á móti sér vegna þess hroka sem hann sýndi andstæðingum sínum.
Schmidt var hinn fyrst af hinum luralegu og sívölu vöðvatröllum frá Austur-Evrópu sem augsjáanlega voru byggðir upp með lyftingum og lyfjanotkun.
Sænski kringlukastarinn Ricky Bruch upplýsti síðar um það hvernig sterarnir breyttu honum í renglulegum unglingi í níðþungt vöðvabúnt og fleiri dæmi má nefna frá þessum tíma í mörgum greinum, bæði hér á landi og erlendis.
Bruch lýsti líka vel hvernig þessi lyfjanotkun hefndi sín þegar keppnisferlinum lauk.
Við munum vel þá tíma hér á landi þegar liprir línumenn á borð við Sigurð Einarsson, Jóhann Inga Gunnarsson og Björgvin Björgvinsson glöddu áhorfendur með snilli sinni á línunni.
Ég minnist aðeins eins slíks á EM nú, en hann virtist samt hafa þurft að þyngja sig allvel til þess að eiga möguleika inni í milli tröllanna.
Handboltinn hefur sem betur fer getað lagfært ýmislegt sem var orðið til trafala, svo sem "gönguhandboltinn" eða "svæfingarhandboltinn" sem mörg lið frá Austur-Evrópu fullkomnuðu sig í og birtist í löngum sóknum þar sem sífellt var verið að dæma aukaköst þangað til andstæðingarnir "sofnuðu" á verðinum og gáfu á sér höggstað.
Ég treysti því að reglurnar í handboltanum verði nú sem fyrr lagaðar að því að auka það sem gleður mest augað, hraða, snerpu, lipurð og skotttækni. Það er lífsnauðsyn fyrir þessa íþrótt.
Sérstakir varnarmenn úr sögunni? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hansi Schmitd var V-ýskur... ef ég man rétt
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2010 kl. 14:31
V-þýskur
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2010 kl. 14:32
Já, en hann var innfluttur frá Rúmeníu á svipaðan hátt og Klitscko-bræðurnir hinir ukrainsku tóku sér þýskt ríkisfang.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2010 kl. 16:37
Alexander Peterson er 100% Íslendingur og margir innfæddir gætu tekið hann sér til fyrirmyndar. Mig minnir að hann hafi verið aðeins 17 ára gamall þegar hann kom hingað til lands frá Litháen, til þess að spila handbolta með íslensku liði... var það ekki Grótta/KR?
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2010 kl. 17:03
"Ég treysti því að reglurnar í handboltanum verði nú sem fyrr lagaðar að því að auka það sem gleður mest augað, hraða, snerpu, lipurð og skotttækni. Það er lífsnauðsyn fyrir þessa íþrótt."
Nú fylgdist ég með evrópumótinu í handbolta eins og u.þ.b. 80% þjóðarinnar og ég verð að segja að þetta mót var hin mesta skemmtun. Ekki nóg með það að leikið var hraðan bolta heldur sá maður líka lipurð línumannanna stinga sér á milli varnarmanna, stórglæsileg skot utan af velli og snerpuna sáum við allir hjá Alexander Petersson þegar að hann stal svo stórglæsilega boltanum af Pólverjanum (sem ég man ómögulega hvað heitir) sem var við það að komast í gegn á örlagaríku augnabliki. Ekki sé ég þörfina í því að breyta reglum handboltans.
Eitt enn, Alexander Petersson kom frá Lettlandi og spilaði með Gróttu/Kr.
Gylfi (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 21:16
Það þar mikla snerpu til að skipta á milli varnar og sóknar í nútíma handbolta. Ekki má heldur gleyma því að varnartröllin eru þeir fyrstu sem strauma upp völlinn og eru að skapa færi fyrir sig og aðra í hraðaupphlaupum og seinnibylgju.
Ég mæli með nútíma handbolta og engin þörf er á breytingum á reglum. Varnarmenn (þó sértaklega markmenn) þurfa yfiirhöfuð að vera í betri þjálfun en þeir sem spila einungis sóknarleik.
Þetta vita þeir sem hafa staðið í þessum handbolta.
Eggert Guðmundsson, 4.2.2010 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.