Einkenni Colafíkninnar.

Koffínneysla á sér langa sögu allt síðan kaffið hélt innreið sína í mannlífið. Þetta er lúmskt fíkniefni sem virðist sakleysislegt en er þó þess eðlis að ef þess er ekki neytt hjá þeim sem eru háðir því, koma greinileg fráhvarfseinkenni í ljós. 

Ég er einn af þeim sem verð var við það ef ég fæ ekki smá skammt að morgni í formi sopa af Coca-Cola eða Pepsi-Cola.

Colafíknin er skæð vegna þess að hún er tvöföld, fíkniefnin eru tvö og annað þeirra, hvítasykurinn, er eitt skaðlegasta fíkniefni samtímans sé þess neytt í óhófi, en neysla hvítasykurs er allt of mikil hjá okkur nútímafólki. 

Ég áttaði mig ekki á því hve sterk þessi fíkn var fyrr en verkfall skall á í Coca-Cola verksmiðjunni Vífifelli fyrir aldarfjórðungi.

Verkfallið vofði yfir um nokkurt skeið og þegar það síðan skall á hefði mátt halda að fráhvarfseinkennin yrðu áberandi hjá mér.

Svo fór ekki, því að ég hef líklega verið einn af örfáum Íslendingum sem ekki skorti kókið allan tímann sem verkfallið stóð því að í ljós kom að ég hafði hægt og bítandi, næstum ómeðvitað, birgt mig upp af þessum drykk á hreint magnaðan hátt og voru flöskurnar faldar á ótrúlega fjölbreyttum felustöðum.

Meira að segja komu leynibokkur í ljós undir limgerði úti í garði !

Hvítasykurinn er fitandi og því óhollur auk þess sem hann og áhrif hans á holdafarið geta skapað áunna sykursýki. Sætuefnin sem eru í svonefndum sykurlausum drykkjum eru hugsanlega enn verri.

Ég hef heyrt þá kenningu sem mér finnst ekki svo galin þótt hún sé líklega ekki sönnuð.

Ef ég man þetta rétt felst kenningin í því að þegar þessi gervisykur komi í líkamann séu send skilaboð til heilans um að sykur sé á leiðinni og heilinn sendir skilaboðin áfram um framleiðslu insúlíns.

Þegar skilaboðin reynist röng og það gerist svo þúsundum skiptir hætti líkaminn að framleiða insúlínið, lætur ekki plata sig, og áunnin sykursýki sé afleiðingin.  Auk þess séu fleiri efni varasöm í sætuefnunum sem ekki sé að finna í hvítasykrinum.  

Það að auki espar neyslan upp fíkn í hreinan sykur enda hefur mér orðið starsýnt á hve margt fólk, sem er of feitt, drekkur bara diet-Coladrykki.  

Ég hef aldrei drukkið kaffi, finnst það vont, jafnvel þótt mokað sé sykri út í það að hætti sumra koffein-fíkla sem eru haldnir hinni lúmsku, tvöföldu fíkn.  


mbl.is Stóraukin koffínneysla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var einu sinni með einum coca cola þampara til sjós, og einu sinni varð hann uppiskroppa með kók og hann varð fárveikur og gat ekki einu sinni unnið.

Hann varði það sem eftir var af túrnum rúmliggjandií kojunni sinni, sem hann fékk að gera vegna þess að hann var sonur skipstjórans

 Skemmtilegt blogg hjá þér Ómar.

Kv,

Þórður

Skin Treatment Guide

Þórður Rúnars (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 11:47

2 identicon

Hvar í ósköpunum grófstu nú upp þessa kenningu um gerfisykur (sugar substitute) og insúlín?

Undir limgerði?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 12:53

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, Haukur minn, það var líffræðingur sem hefur legið yfir þessu sem útlistaði þetta fyrir mér. Gaman væri að heyra hvort einhverjir fleiri hafa svipaðar eða aðrar hugmyndir um sætuefnin.

Það hefur vakið athygli mína hve oft það hefur nægt að hugsa til forfeðra og formæðra okkar langt aftur í árþúsundin, hvað lífaðarhættir þeirra færðu þeim í genunun sem hafa borist til okkar þegar við reynum að leggja mat á nýjungar og patentlausnir sem nútímatæknin á að færa okkur.

Ég er því ávallt tortrygginn gagnvart því sem ekki var til þá. Þá voru engin sætuefni og kaffi drukku Íslendingar ekki fyrr en fyrir tiltölulega skömmu ef miðað er við aldir og árþúsund.

Þegar pensilínið kom þótti það allra meina bót og maður hefði verið sakaður um argasta þvætting og róg ef maður hefði haldið því fram þá að smám saman yrði ofnotkun þess og sýklalyfjanna til þess að skapa ónæmi hjá sýklum og veirum sem myndi leiða til hrikalegs og vaxandi vanda sem verður hugsanlega eitt illvígasta heilbrigðisvandamálið á næstu áratugum.

Sjálfur lenti ég í því 2008 að það þurfti svo svæsið sýklalyf og í svo miklum mæli til að vinna bug á heiftarlegri sýkingu að það olli lifrarbresti. Ég hef hitt ótrúlega marga sem hafa svipaða sögu að segja af aukaverkunum af þessu lyfi sem verður að nota þegar líf liggur við vegna þess að önnur, sem áður dugðu vel, duga ekki lengur.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2010 kl. 13:16

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Smáleiðrétting. Það var lífeindafræðingur sem gaukaði að mér ýmsu varðandi sætuefnin.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2010 kl. 13:57

5 identicon

Það er hárrétt hjá þér að ofnotkun á antibiotics (penicillin, fluoroquinolones, tetracycline etc.) orsakar ónæmi (resistance) hjá bakteríum. Þetta er nú þegar orðið mikið vandamál, ekki síst hvað berkla (tuberculosis) varðar. Það hafa komið upp tegundir berklasýkingar, sem er ólæknandi. Ég hef hinsvegar ekki heyrt eða lesið neitt um það sem þú minntist á, að gerfisykur gæti orsakað diabetes (type 2), þó er ég sæmilega vel lesinn á þessu sviði. Fróðlegt væri að fá slóðina á “study” um þetta. Resistance eða ónæmi vegna ofnotkunar ýmissa efni eru ekki svo gömul vísindi. Allt er best í hófi, er gamalt og gott spakmæli.By the way, kærar þakkir Ómar fyrir skemmtilega og fróðlega pistla. Þú ert góður penni, segir vel frá og veist allan andskotann.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 14:21

6 Smámynd: Jóhannes Ólafsson Eyfeld

Ég hef löngum verið háður fíkniefninu sem er kaffibollinn og þykir mér það miður þar sem faðir minn lést af ofneyslu koffíns.

Nei nú er ég að gantast.

Svo það fari ekki milli mála þá er hann engu að síður látinn.

Jóhannes Ólafsson Eyfeld, 4.2.2010 kl. 14:42

7 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Frábær pistill, Ómar.

Ég var kókfíkill upp undir þrítugt. Guð veit hvað lítrarnir gátu verið margir á dag. 

Svo hætti ég cold-turkey og fæ mér svona 1-2 dósir á mánuði í mesta lagi. Og þykir bara ágætt þannig. Þetta er bölvaður óþverri, eins og þú segir réttilega er spurningin um hóf. Í óhófi er þetta einmitt óþverri.

Af þessum sökum kann ég vel við smáar umbúðir og forðast stóru flöskurnar, sem eru gildra ofneyslu.

En kaffinu sleppi ég seint... :-) 

Ólafur Þórðarson, 4.2.2010 kl. 16:03

8 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Af kóki alltaf illa sef
og einnig kaffi.
Ætíð drykk við hönd því hef
sem hefst á vaffi.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 4.2.2010 kl. 17:32

9 identicon

Það er rétt að benda á að það er ekki venjulegur hvítur sykur í flestum gosdrykkjum heldur kornsíróp (High-fructose corn syrup-HFCS). Þetta síróp er talsvert sætara en venjulegur sykur og af mörgum talið mikið óhollara, enda sýna amerískar rannsóknir fram á mjög jöfn tengsl á milli aukinnar neyslu á HFCS og fjölgun offitusjúklinga. Matvæli sem nota HFCS (sem eru flest sykruð matvæli, enda er þetta mjög ódýr iðnaðarvara) verða miklu sætari á bragðið og eykur það sókn í sætindi. Þannig verður þetta vítahringur. Vissirðu til dæmis að það er svona sykur í frönskunum á McDonalds? Þess vegna eru þær svona sætar, gullnar, stökkar og góðar.

Sumum þykir nóg um sóknina í sífellt sætari matvæli, enda eru sumir gosdrykkjaframleiðendur farnir að framleiða gosdrykki sem eru auglýstir án HFCS - bara venjulegur hvítur sykur.

Jón P (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband