Molar í henni þessari.

Eiður Guðnason hefur verið iðinn við "Mola um málfar" og veitir ekki af. Hann er nú kominn með molana sína á eyjuna.is og því ætla ég að grípa tvo mola upp hér af mbl.is.

Í frétt af opnun Nauthólsvegar á mbl.is er sögnin að opna enn einu sinni notuð á órökréttan hátt, en þetta er árátta hjá blaða- og fréttamönnum. 

Sagt er að borgarstjóri hafi "opnað umferð" um Nauthólsveg. Þetta er ekki hægt. Umferð er ekki lokuð og heldur ekki opin heldur eru vegir, götur og brýr það.

Það er ekki aðeins rangt mál heldur rökleysa að hægt sé að opna umferð.

Seinna í fréttinni er sagt að aðkoma verði að Hótel Loftleiðir. Þetta er enn ein villan sem veður uppi í notkun nafna flugfélaga. 

Stundum heyrir maður nafnið Flugleiðir beygt svona: Flugleiðir um Flugleiði o. s. frv.

Þetta er afar dapurlegt því að er engu líkara en að verið sé að tala um leiði eins og eru í kirkjugörðum.

 


mbl.is Umferð hleypt um Nauthólsveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það má lengi snúa út úr og eltast við tittlingaskít.   Þarna hefur orðið "fyrir" bara fallið út fyrir mistök, "borgarstjóri opnaði fyrir umferð um Nauthólsveg".   

Ragnar Eiríksson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 00:49

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekki viss, Ragnar. Frétta- og blaðamenn þrástagast á því að hús, heiðar og jafnvel fjöll opni án þess að sagt sé hvað þessi hús, heiðar og fjöll séu að opna, enda geta þessi fyrirbæri ekki opnað neitt.

Á erlendum fjölmiðlum, sem vilja láta taka sig alvarlega og standast kröfur, líðst ekki jafn órökrétt mál og veður hér uppi, hvað þá málvillur.

Það þarf ekki annað en hlusta á BBC til að heyra hvaða kröfur eru gerðar.

Hér líðst meira að segja að fréttamenn tali með framburði smábarna á ljósvakamiðlum eða sleppi svo úr orðum og hlaupi yfir þau að lesturinn verður illskiljanlegur.

Ómar Ragnarsson, 6.2.2010 kl. 02:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband