5.2.2010 | 13:00
Eftirminnilegir hnefaleikar.
Í gegnum tíðina hef ég nokkrum sinnum átt þess kost að kynna hnefaleika eða dæma í þeim í skólum.
Eftirminnilegast varð þetta í Verslunarskólanum í Reykjavík þar sem nemendur settu upp hring og fengu tvo nemendur til að berjast. Mér var falið að kynna viðburðinn og dæma.
Keppendurnir voru ólíkir. Annar var samanrekinn og vöðvaður nagli í stíl við Tyson, hinn var renglulegur og hávaxinn og ég man nafn hans, þótt hitt sé mér gleymt.
Þetta var Ásgeir Örn Hallgrímsson og mér skildist að hann hefði lítið fengist við hnefaleika en Tyson-týpan kunni greinlega talsvert fyrir sér.
1. lotan varð einstefna. Ásgeir Örn átti í vök að verjast fyrir öflugum áhlaupum hins kraftalega mótherja og ósigur Ásgeirs virtist blasa við.
Ég tók þó eftir því að hann hafði lipran fótaburð og var laginn við að verjast eða víkja sér undan skæðadrífu af höggum sem beint var að honum.
Mér sýndist ljóst að viðureignin gæti varla enst út 2. lotu, svo harður var þessi bardagi.
2. lota byrjaði með sömu látunum og ég átti erfitt með að ímynda mér að Ásgeir Örn stæðist þetta mikið lengur. En þá gerðist undrið. Skyndilega fór Ásgeir Örn að koma inn snörpum, hnitmiðuðum og hörðum gagnhöggum eins og þau gerast best.
Ég reyndist að vísu sannspár að bardaginn yrði útkljáður í þessari lotu en úrslitin urðu þveröfug við það sem virst hafa stefnt í.
Ásgeir Örn náði með frábærum gagnhöggum sínum, hraða og fótaburði algerum yfirburðum og gekk algerlega frá andstæðingnum.
Ég sagði við þetta tækifæri að Ásgeir Örn væri greinilega búinn sérstökum alhliða íþróttamannshæfileikum, svipuðum þeim sem til dæmis Hermann Gunnarsson bjó yfir á sinni tíð.
Ég orðaði það svo að Ásgeir Örn gæti komist í fremstu röð í hvaða íþróttagrein sem hann kysi sér.
Og það hefur gengið eftir.
Eftir þessa eftirminnilegu stund sem Ásgeir Örn gaf mér hér um árið fylgist ég af áhuga með honum og gleðst þegar vel gengur.
Ásgeir Örn til Faaborg HK | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skemmitleg saga
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.2.2010 kl. 13:32
Þú ert minn uppáhalds hnefaleikaþulur, uppspretta þekkingar !!
runar (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 17:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.