5.2.2010 | 16:25
Hvað um "Söknuð" ?
Þótt aðeins tólf nótur séu í áttundinni er það mesta furða hve mörg lög hafa verið samin sem eru ólík öllum öðrum lögum.
Hitt er óhjákvæmilegt að lög geti verið lík og þess vegna allt eins hægt að byrja á einu þeirra og fara yfir í annað.
Eitt skemmtilegasta dæmið um það, sem ég hef fundið, er hvernig lagið "Yfir voru ættarlandi" sem var verðlaunalag þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldi var svo líkt "Deutschland, Deutschland uber alles" að hægt er að fara fram og til baka á milli þessara tveggja laga eins og ekkert sé.
Þrír fyrstu taktarnir og fjórar fyrstu nóturnar í hinu frábæra lagi "Ó, þú" eftir Magnús Eiríksson eru hinar sömu og í vinsælu dægurlagi, sem Nat King Cole söng á þeim tíma þegar Magnús var smástrkákur.
Lag Magnúsar er samt mun betra.
Lagið um Nínu og Geira er svo nauðalíkt KFUM-laginu "Fús ég Jesú fylgi þér" að hægt er að valsa á milli þeirra í söng án þess að fólk verði þess vart.
Svona mætti lengi telja. Ingimar heitinn Eydal hélt því reyndar fram að öll lög gætu verið sama lagið og sýndi það á sinn einstaka hátt í þættinum "Á líðandi stundu."
Ég á líka einhvers staðar í fórum mínum spólu þar sem hann spann áfram með þetta í viðtali fyrir Stöð 2 sem ég tók við hann en var aldrei sýnt.
Ég hygg að höfundar Je Ne Sais Quoi þurfi ekki að óttast vandræði þótt einhverjum þyki lagið keimlíkt öðru lagi.
Fyrir eitthvað um 20 árum komst ítalskt lag á toppinn í Evróvision sem var svo hræðilega stolið úr laginu "What am I living for?" að ég komst alltaf í vont skap við að heyra það.
Hins vegar er ég ekki sáttur við það að Norðmaður sem hér á landi var þegar hið frábæra lag Jóhanns Helgasonar, "Söknuður" var mikið spilað, skuli hafa stolið því lagi og grætt á því miklar fjárfúlgur erlendis.
Norsarinn stal reyndar tveimur lögum og skeytt saman. Hitt lagið er "Oh, Danny boy."
Þegar ég heyrði þetta "norska" lag spilað í útvarpi í Noregi árið 2003 þegar ég var þar á ferð varð ég sem þrumu lostinn.
Gaman væri að heyra hvernig málin standa nú út af þessu lagi.
P. S. Ég sló inn nafn Jóhanns G. Jóhannsonar þegar ég pikkaði þenna pistil niður og hafði ekki tíma til að líta á hann aftur fyrr en níu klukkustundum síðar. Auðvitað átti þetta að vera Jóhann Helgason og þetta lag hans er ekki bara ein af fegurstu lagaperlum Íslands heldur ekki síður útsetning Magnúsar Kjartanssonar.
Set hér á síðuna mynd af Elísabetu Ormslev, Jóhanni Helgasyni og Helgu Möller frá því rétt fyrir síðustu jól þar sem Magnús Kjartansson stýrði hljómsveitinn að baki þeim.
Fyrir mistök er minni gerð af myndinni fyrir neðan.
Lagið ekki stolið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Blessaður.
Sönghópur sem ég var í og starfaði í rúman áratug hafði það reglulega á prógramminu að taka lög sem við kölluðum "tvíburalög". Þá tókum við tvö eða þrjú lög og flökkuðum á milli. Það sem vinsælast var alltaf voru tvö vinsæl Britney Spears lög (Oops, I Did it Again og Baby One More Time) sem við sungum sem eitt og kusum að kalla "Oops, Baby, I did it One More Time Again".
Síðan tókum við oft bakraddirnar við "Kúkinn í lauginni" við lagið Undir bláhimni, sem svínvirkaði.
Íslendingar hafa nú alveg leyft sér svona lagastuld. Eitt sumarið sem unglingur (sumarið áður en eftirnefnt lag kom út) var ég staddur á Spáni ásamt foreldrum mínum þar sem óþolandi maður með skemmtara tróð upp á hverju kvöldi. Hann söng allavega einu sinni á kvöldi ágætis lag á spænsku sem ég lærði ágætlega þar sem hann söng það svo oft.
Innan við ári seinna kom þetta lag út á plötu með Milljónamæringunum og hét "Marsbúa-Cha-Cha-Cha" og Sigurður Perez var titlaður höfundur.
Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 16:49
það eru ekki ófá "lag og texti Ási í bæ" heldur
Sjóveikur, 5.2.2010 kl. 17:05
Viðlagið í Je ne Sais Quoi er nákvæmlega eins og í lagi Kate Ryan "Who do you Love"
Auðvelt er að bera þetta saman HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.2.2010 kl. 17:36
Ómar ef ég man rétt þá er Söknuður eftir Jóhann Helgason en ekki Jóhann G. Jóhannsson, er hins vegar algjörlega sammála þér varðandi stuld á því lagi, og reyndar annað í blogginu hjá þér.
Sigurður Þorsteinsson, 5.2.2010 kl. 18:42
Sæll, Ómar.
Skemmtilegt efni sem þú tekur fyrir hér. En þar sem þú nefnir Söknuð eftir Jóhann Helgason þá væri ekki úr vegi fyrir þig að hlusta á My friend the wind með Demis Roussos og bera þau lög saman.
Höfundar eru s. vlavianos / r. constantinos og að mig minnir er það frá svipuðum tíma.
Hörður Torfason (IP-tala skráð) 6.2.2010 kl. 01:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.