6.2.2010 | 15:31
Slæmt stjórnarfar.
Eþíópía er dæmi um Afríkuland þar sem í raun ríkir alræði stjórnvalda. Landið hefur sveiflast frá einni alræðisstjórn til annarrar allt frá innrás Ítala á fjórða áratugnum til dagsins í dag.
Þegar Haile Selassie hafði verið steypt komust kommúnistar til valda og eftir að þeim hafði verið steypt hefur ástandið lítið skánað.
Dæmi um þetta er sú staðreynd að í landi sem er ellefu sinnum stærra en Ísland og með 200 sinnum fleira fólk eru aðeins innan við tíu litlar flugvélar og afar strangar reglur gilda um flug þeirra.
Engin alræðisstjórn landsins hefur þó dirfst að ráðast á þjóðargersemarnar sem tengjast kristni koptanna, en alls staðar má þó sjá varðmenn og takmarkanir nálægt þeim stöðum.
Yfirvöld hafa lag á að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjastjórn og fá að launum hernaðaraðstoð þegar uppreisnarmenn í Sómalíu gerast of djarfir.
Í raun eru herlög í Eþíópíu sem byggð eru að langvarandi ófriðarástandi gagnvart Eritreu.
Alræðisstjórnir nærast á því að viðhalda slíku ástandi gagnvart sameiginlegum erlendum óvinum, og það er óspart notað í Eþíópíu sem er svo fátækt land, að hagkerfi landsins er minna en Íslands þótt fólkið sé 200 sinnum fleira.
Stolt landsins er Eþíópíska flugfélagið, sem er hið eina í landinu sem sambærilegt má telja í samkeppni við erlend fyrirtæki af sama toga ef frá er skilin Coca-Cola-verksmiðja í Addis Ababa.
Það var því mikið áfall fyrir landið að missa farþegaþotuna í dögunum, þótt slysið sé rakið til mikils óveðurs.
Dæmi um ógöngur Eþíópíu er flugvöllurinn í Arba Minch sem ég kom til á gömlu FRÚ-nni minni með Helga Hróbjartssyni fyrir sjö árum.
Þetta er stór flugvöllur með stórri flugstöð úr marmara, en engum flugvélum nema einni og einni á stangli.
Eþíópía er heillandi land með stórkostlega sögu. Þar var tekin kristni 700 árum á undan kristnitökunni á Íslandi og samband drottingarinnar af Saba og Salómóns er helgisögn í hæsta klassa í þessu hrjáða landi fólks, sem enn á sér stolt og vonir og gleðistundir, þótt hungursneyð, þurrkur og gróðureyðing geri lífið erfiðara en við Íslendingar getum gert okkur í hugarlund.
Leynd heimildamanna bönnuð í Eþíópíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú er ég forvitinn. Hvar stoppaðir þú á leiðinni til Eþíópíu?
Sjónflug eða blindflug?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.2.2010 kl. 23:45
Eþíóbía hefur aldrei búið við annað en alræði.
Á undan Mengistou Haile Myriam, var það Haile Selassie keisari.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 7.2.2010 kl. 00:02
Flugvél, sem eitt sinn var í minni eigu með einkennisstafina var seld til Akureyrar 1987 og síðan keypti Helgi Hróbjartsson hana.
Henni var flogið til Eþíópíu þar sem hann notaða hana til að lenda á erfiðum lendingarstöðum meðal fátækra og afskekktra þjóðflokka og varð dáður sem nokkurs konar engill af himnum.
Ég fór til Eþíópíu 2003 og 2006 til þess að fylgjast með Helga og gerði um það fréttaskot en vonandi get ég klárað myndina "Engill af himnum" um hugsjónastarf Helga.
Við flugum í bæði skiptin um þetta víðlenda land, í fyrra skiptið með Helga en í síðara skiptið fór ég hluta af leiðinni í annarri eins hreyfils flugvél því að gamla "FRÚin hafði þá verið seld til Tanzaníu.
Hún er sú einshreyfils flugvél íslensk sem á að baki skrautlegastan feril, hefur lent á ótal ótrúlegum lendingarstöðum í Afríku og ekki síður mörgum stöðum hér á landi, þar á meðal í Surtsey, í miðbæ Akureyrar og á Esjunni í nauðlendingu.
Ómar Ragnarsson, 7.2.2010 kl. 00:05
"Alræðisstjórnir nærast á því að viðhalda slíku ástandi gagnvart sameiginlegum erlendum óvinum, og það er óspart notað í Eþíópíu sem er svo fátækt land...."
þessi klausa er hárrétt hjá þér, hér að ofan Ómar. en er einvher munur á grundvallarhugsunarganginum hjá Eþíópu og t.d. Bandaríkjunum....?
bandaríkin halda uppi þessum þvílíka áróðri um al-Qaeda og bin laden. það er hægt að færa rök fyrir því, og það mjög auðveldlega að bandaríkin hagnist á því að búa til þessa grýlu fyrir hinn venjulega borgara sem veit ekki betur, og les aðeins vestrænar fréttir.
þarna eru Bandaríkin að gefa til kynna að öll sú flóra hryðjuverkahópa í heiminum (fleiri hundruð þekktir hryðjuverkahópar til í heiminum) sé þessi eini erki óvinur, al-Qaeda. þetta er reindar sérstakt rannsóknarverkefni að átta sig á því hvernig þeir geta fengið fólk til að trúa þessu. en með því að einskorða allar árásir á bandarískar eignir í útlöndum við al-Qaeda, hafa þeir útvegað sér ástæðu til að ráðast á írak og afganistan. og með þessum al-Qaeda frasa, leifa þeir sér að halda áfram hernaðarátökum í afganistan.
ef fólk skoðar atburðina í raunsæju ljósi sem gerðust þann 11. september árið 2001, þá er ekki erfitt að komast að þeirri niðustöðu að eftir þessar árásir, þá var al-Qaeda endanlega hinn stóri mikli óvinur. stjarna bin ladens hefur aldrei skinið eins skært og þá. svo er það náttúrulega önnur spurning hverjir framkvæmdu hvað og hverjir leifðu hinu og þessu að gerast. þarna var al-Qaeda komin á svipaðan stall og sovétríkin hér á árum áður, ef fólk man ennþá eftir þeim fíflagangi í bandarískum fjölmiðlum.
man einhver eftir netfyrirtækjunum sitthvorumegin við aldarmótin??? stuttu fyrir 9/11 fóru flest þeirra á hausin og mynduðu keðjuverkandi áhrif á bandarískt samfélag. ekki eins mikið og núverandi kreppa náttúrulega. en bandarískt hagkerfi var illa statt á árinu 2001. eftir 9/11 varð þetta ekkert mál. hergagnabröltið og hagnaðurinn í kringum hann í kjölfar innrásarinnar í afganistan kaffærði netbóluskandalin.
svo er það spurning hversu lengi stærsta lántökuþjóð heimsins getur verið stærsta stórveldið. fræðimenn úti í heimi eru margir hverjir ekki bjartsýnir fyrir þeirra hönd. enda ekkert skrýtið þar sem kínverjar taka við ríkisskuldabréfum fyrir viðskiptahallan við bandaríkin. í dag eiga kínverjar rúmlega helming ríkisskuldabréfa í bandaríkjunum. og ef kínverjum dettur í hug að selja þau. segjum t.d. að þeir yrðu fox illir við bandaríkjamenn yfir einhverju eins og vopnasölu við taivan eða fundar obama við tíbet munkin dalai lama. þá gætu þeir sett bandarískt hagkerfi á hausin og þjóðina líka. en það vill svo til að kínverjar líta á ríkisskuldabréfin í bandaríkjunum sem eina af þeim betri fjárfestingu í heiminum.
en nóg um þetta. lifið öll heil og eigið góða helgi.
el-Toro, 7.2.2010 kl. 14:30
Um þetta síðasta gildir hið sama og sagt var forðum: Stórskuldugur maður getur verið ríkur þangað til að hann þarf að fara að borga skuldirnar.
Íslendingar státuðu sig af því í gróðærinu að vera ríkasta þjóð heimsins á sama tíma og heimilin í landinu fjórfölduðu skuldir sínar.
Ómar Ragnarsson, 7.2.2010 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.