9.2.2010 | 22:46
Las Brown bloggið mitt?
Fyrir um það bil ári bloggaði ég um það að í viðleitni minni til að stöðva þyngingu mína hefði ég farið í saumana á mataræðinu og komist að því að ein af ástæðunum fyrir vaxandi líkamsþyngd væri sá gamli siður, sem ég tók upp fyrir meira en hálfri öld að neyta þjóðarréttar Íslendingar sem þá var nýbúinn að ryðja sér til rúms og hét og heitir enn "Kók og Prins."
Ég fann út að þriðjungur Prins Pólósins væri hrein fita og restin sykur og að þetta ætti stóran þátt í því að eftir að ég hafð lést í veikindum í hitteðfyrra um 16 klíó, niður í 74 kíló, hafði ég í gleði minni yfir batanum og því að geta í fyrsta sinni í 40 ár étið eins og mig lysti, náð öllum 16 kílóunum til baka, 10 kílóum meira en góðu hófi gegndi.
Með því að minnka Prins Póló neysluna niður í eitt stykki á viku "nammidaginn", sunnudag, gæti ég sparað 7-8 þúsund krónur á mánuði og tekið í burtu eitt til tvö kíló af þyngingu í leiðinni.
Gordon Brown hefur neytt óhollara súkkulaðis, því að Kit-Kat er með ljóst súkkulaði sem telst óhollara en dökkt súkkulaði eins og er í Prins Póló.
Nýlega var ég þó að lesa að í dökku súkkulaði sé koffein sem gerir það að þreföldu fíkniefni, koffein, fita og hvítasykur.
Það versta við þetta uppátæki Browns er það að þessi skúrkur sem hann er í augum allra sannra Íslendinga, fær ákveðna samúð þjáningarbróður síns, eða eigum við að segja nautnabróður, því að auðvitað værum við ekki að borða þetta nema vegna þess hvað okkur finnst það rosalega gott og mikill gleðiauki í lífinu.
Brown skipti yfir í banana. Ég yfir í epli. Tæknivætt "Apple"-lýðveldi er skárra en bananaríki.
Gordon Brown skiptir KitKat út fyrir banana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.