10.2.2010 | 13:12
Góðar fréttir.
Ég tafðist aðeins við að skrifa þennan bloggpistil. Ástæðan er sú að stóriðjufíklar eru strax byrjaðir að hamra á síbyljunni um að ég og skoðanasystkin mín leggist gegn öllum virkjunum og séum á móti allri atvinnuuppbyggingu, þar á meðal Búðarhálsvirkjun.
Maður neyðist til að bera hönd fyrir höfuð sér í athugasemdum við þessi blogg og ég þurfti raunar í gær líka að bera þær sakir af mér, umhverfisráðherra og fleirum, að við séum líklega á móti fjölgun starfa hjá Actavis.
Skiptir þá engu máli að við höfum einmitt viljað berjast fyrir því að skapa slík störf en stóriðjufíklar kallað það óraunhæfar lausnir.
Ein bloggfærslan vegna fréttarinnar um Búðarhálsvirkjun hér á mbl.is lætur að því liggja að Svandís Svavarsdóttir hafi ekki þegar brugðist hart við gegn henni, vegna þess að hún viti ekki enn um hana !
Þessir þyljendur síbyljunnar um að ég og skoðanasystkin mín viljum fara aftur inn í torfkofana og séum á móti rafmagni hafa ekkert fyrir því að athuga hver afstaða okkar er til Búðarhálsvirkjujar eða fjölgunar starfa hjá Actavis.
Nei, brugðist er hart við og áróðurinn um fjallagrasatínsluna og moldarkofana er keyrður upp samstundis.
Fyrirsögn þessa bloggpistils, "Góðar fréttir" segir það sem segja þarf um það, að mér vitanlega hefur ekki ein einasta manneskja sagt eitt einasta styggðaryrði í garð þessarar framkvæmdar heldur hafa þeir talsmenn náttúruverndar, sem um hana hafa verið spurðir, verið fylgjandi henni.
Ég er fylgjandi henni líkt og ég hef verið fylgjandi virkjunum, sem ég gæti talið upp í löngum lista og hef raunar gert, en það hefur ekki minnstu áhrif á stóriðjufíklana, sem ætla sér að komast upp með að úthrópa okkur náttúruverndarfólkið sem öfgafólk.
Því að fólk, sem er að móti atvinnuuppbyggingu og rafmagni hlýtur nefnilega að vera þjóðníðingar og öfgafólk.
Hinir, sem vilja fórna allri orku Íslands og þeim náttúruverðmætum sem það kostar og leysa atvinnuvandann með því að skapa störf í álverum sem nemur 2% vinnuafls hér á landi, eru taldir hófsemdarmenn og þjóðvinir.
Nú síðast kemur í ljós að þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum SV-línu sé ekki lengur "hindrun í vegi hennar", eru það önnur atriði sem tefja hana. En samt er Svandísi kennt um töfina.
Það er vandlifað um þessar mundir og verður fróðlegt fyrir seinni tíma kynslóðir að lesa þessi skoðanaskipti sem nú fara fram hér á blogginu.
Útboð vegna Búðarhálsvirkjunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég man ekki eftir að hafa séð nokkursstaðar, að einhverjir séu á móti 50 störfum hjá Actavis.
Ég man heldur ekki eftir því að hafa séð einhvern halda því fram að þú sért á móti Búðarhálsvirkjun , en ég hef séð ÞIG minnast á þetta með reglubundnum hætti
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.2.2010 kl. 13:50
Ég fæ líka að heyra að ég sé öfgamaður sem er á móti rafmagni og vilji flytja aftur í torfkofana, en það er vegna afstöðu minnar til aðildar Íslands að ESB. Merkilegt hvernig áróðurinn er endurnýttur á mismunandi málefni.
Axel Þór Kolbeinsson, 10.2.2010 kl. 13:52
Það er samt verst þegar fjölmiðlar sjá ekki í gegnum þess lags útúr snúninga sbr. tafir vegna Helguvíkur álveri.
Önnur dæmi um slíka gerninga eru uppsagnir ölframleiðanda í Reykjavík vegna fyrirhugaðs sykurskatts. Þegar hætt var við skattinn þá var framleiðandinn spurður hvort þessir starfsmenn yrðu ráðnir aftur? en svarið var nei. Einnig þegar floti Vestmann eyja var siglt í Land vegna fyrningaráforma ríkissins og átti að vera þar til hætt yrði við. Þegar í raun var von á fárviðri og fór hann út aftur um leið og færi gafst. Kallast þetta ekki tilraunir til að fella pólitískar keilur.
Allavega er maður búinn að hlusta þessa möntru lengi að ef maður er á móti brjálaðislegum álframkvæmdum þá hlýtur maður að vera á móti öllu.
Andrés Kristjánsson, 10.2.2010 kl. 18:50
Ég lagði það ekki á minnið í gær hver skrifaði það í einum af bloggpistlunum í gær að væntanlega væri VG á móti atvinnuuppbyggingu á borð við störfin hjá Actavis.
Þótt ég sé ekki í VG finnst mér skylda mín að skjóta skildi fyrir vinstri græna þegar sífellt er veist að þeim á þessum vettvangi.
Í dag er síðan gefið í skyn að Svandís Svavarsdóttir kunni að vera á móti Búðarhálsvirkjun og ég tek slíkt alveg eins til mín og hennar, því að sífellt er verið að tala um okkur sem öfgafólk sem sé á móti atvinnuuppbyggingu.
Ómar Ragnarsson, 10.2.2010 kl. 18:52
Ég er sammála því hjá Ómari að þessi umræða mætti gjarnan vera yfirvegaðri. Ég skil ekki þá hugsun að náttúrufegurð og óspillt náttúra sé "verðlaus", þó enginn sé á henni verðmiðinn. Það er ekkert hallærislegt við það að meta ekki öll verðmæti í króunum og aurum.
Sigurður Þórðarson, 10.2.2010 kl. 21:46
Bloggsíður eru eitt, en Þessi áróður fer óhindrað inn í fréttatíma. Þetta á ekki bara við um áróður gegn umhverfissinnum heldur virðast fjölmiðlar hleypa hvaða bulli sem er inn. Bara ef það kemur frá þekktu andliti, stjórnsýslunni, stórfyrirtækjum eða erlendum fjölmiðlum. T.d. hafa fjölmiðlar flutt okkur gagnrýnislaust frekjuköst virkjanasinna í garð Svandísar Svavars, fréttaflutningur frá Haíti hefur verið í meira lagi þversagnakenndur o.fl.
Fréttaflutningur af þessu tagi er sérstaklega áberandi Þegar valdamikil öfl vilja ná fram vilja sínum. Þá gildir; "anything goes" og fjölmiðlar spila með.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, 10.2.2010 kl. 22:09
Ómar ég ætla að vera sammála þér að þessi umræða er á afar lágu plani. Við þurfum að skoða vel í hvað við ætlum að nota þá orku sem við eigum. Hvers konar störf eru að skapast, hver er ávinningurinn, hver er fórnarkostnaðurinn osfrv. Álver skapaði störf hér á árum áður, og það þótti gott, og því setja margir samasemmerki milli álvera og atvinnu og hagkvæmni. Þetta þarf að skoða á gagnrýnni hátt.
Því miður temja margir ESB sinnar málflutning margra Álversmanna. Þetta torfkofahjal og einangrunarstefnu.
Hitt er annað mál að við þurfum að taka upp umræðu um atvinnustefnu. Það er ekki að sjá að atvinnuuppbygging sé ofarlega á óskalista þessarar ríkisstjórnar.
Sigurður Þorsteinsson, 10.2.2010 kl. 22:22
Verð að taka undir það sem hér kemur fram og lýsa eftir málefnalegri og vitrænni umræðu um virkjanir og atvinnuuppbyggingu yfirleitt. Það er að verða vægast sagt þreytandi að hlusta á sama gamla vælið endalaust þegar kemur að umræðum um virkjanir og aðrar stórframkvæmdir, og á það við bæði um stóriðjusinna og umhverfissinna.
Ég er líka orðinn svolítið pirraður á því að sjá alla vera að bíða eftir að ríkisstjórnin komi með svo og svo mörg störf á silfurfati til að redda málunum, það er ekki og á ekki að vera verkefni ríkisstjórnar að koma með á borðið ákveðin störf. Það er verkefni ríkisstjórnar hverju sinni að sjá til þess að umhverfi til atvinnurektsturs sé heilbrigt, gegnsætt og að jafnræðis sé gætt milli atvinnugreina. Mikið nær sjálfri atvinnustarfseminni á ríkið helst ekki að koma ef við viljum búa við eðlilegt umhverfi í atvinnumálum og farsæla þróun til framtíðar.
Ég bý erlendis sem stendur vegna náms míns og reyni að fylgjast með fréttum bæði úr heimspressunni og frá Íslandi og ég verð að viðurkenna að þessi stóriðjudýrkun og einsleitni í atvinnuuppbyggingu, meðan aðrar þjóðir leggja áherslu á fjölbreytni í sinni stefnu, dregur svolítið niður í þjóðarstoltinu hjá mér. (var kannski í lagi að draga aðeins úr því svosem)
Var á námskeiði í síðustu viku um alþjóðaviðskipti og umhverfismál og þar læddist ég með veggjum einn daginn þegar fyrirlesarinn sagði að mengandi stórfyrirtæki væru i stórum stíl að líta í kringum sig eftir "hentugum stöðum" fyrir starfsemina og þar litu þau helst til Suður Ameríku, Kína, Afríku og svo að sjálfsögðu Íslands sem eitt vestrænna ríkja "gæfi" mengunarkvóta og náttúruauðlindir. Gæfi er innan gæsalappa því það er bein tilvitnun í manninn og hann notaði reyndar sjálfur gæsalappir um orðið á sínum glærum.
Sel það ekki dýrara en ég keypti en þetta fannst mér allavega leitt að heyra.
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 08:04
Þetta hefur verið glöggur maður og hreinskilinn Hjalti. Auðvitað er Ísland búið að merkja sig inn í umræðu alþjóðasamfélagsins sem vænleg bráð fyrir orkuþurfandi fyrirtæki sem siðaðar þjóðir hafa ýtt frá sér.
Það styttist í það að þegar Íslendingur birtist á erlendu veitingahúsi og þanti sér mat þá byrji þjónninn á því að bjóða honum upp á að sýna honum hvernig eigi að nota hníf og gaffal. Og sýni honum síðan salernið og skýri fyrir honum til hvers allur þessi pappír á rúllunni sé.
Saklausar sveitastúlkur sem misstu fótanna eftir komuna til Reykjavíkur hældu sér af því í bréfum til vinkvenna sinna heima að þær þættu svo sætar að allir strákarnir vildu fá að gera do, do og þær hefðu bara engan tíma til að sinna öðru.
Svona ámóta og íslenkir samningamenn sem hvíslast á um hvað þeir hafi platað viðsemjendur frá Río Tinto rosalega.
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.