11.2.2010 | 00:01
Þjóðhátíð í Klapparhlíð.
Ég segi stundum í gamni um tengdason minn í Klapparhlíð 30 að nú sé þjóðarsorg í Klapparhlíðinni þegar Arsenal tapar leik.
Hann er óhagganlegur aðdáiandi og fylgismaður liðsins en ég segist vera Púlari af því að það lið sé með flottasta baráttusönginn.
Ég á 37 ára gamlan og lúinn Range Rover jöklajeppa með jafn gamalli Nissan Laurel dísivél.
Hann er viðbragsðbíll á fjöll ef til þess kæmi að fara ferð með mannskap og tæki í myndatökuferð.
Þegar ég keypti hann á slikk fyrir sjö árum var Arsenal-merki í gluggum bílsins og ég hef ekki fjarlægt þau.
Þau glöddu tengdason minn mikið þegar hann sá bílinn fyrst eins og meðfylgjandi mynd ber með sér.
Ég var hrifinn af andanum í viðtalinu við þjálfara Arsenal í kvöld þess efnis að peningaaustur með himinskautum eigi ekki að ráða úrslitum í knattspyrnunni, en hann átti víst aðallega við Chelsea.
Og það hlýtur að hafa glatt hann að Chelsea tapaði í kvöld fyrir Everton.
Nú er líklegast þjóðhátíð í Klapparhlíðinni eftir úrslit kvöldins og sjálfsagt líka á Birkimelnum hjá Bjarna Fel.
Hér á Háaleitisbrautinni er þó engin þjóðarsorg heldur samgleðst ég Friðriki Sigurðssyni og mínum gamla vini og fóstbróður Bjarna Fel.
Ég hef ekki innt syni Friðriks og Iðunnar dóttur minnar, þá Sigurð Kristján og Birki Ómar, eftir því með hvaða liði þeir halda og fer því varlega í þau mál.
Þess vegna ætti ég kannski að fara varlega í það nú og framvegis í því að lýsa yfir þjóðarsorg eða þjóðhátíð í Klapparhlíðinni.
Arsenal lagði Liverpool - United náði stigi - Chelsea tapaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég hef alla ævi verið mikill íþróttaunnandi, líklega vegna þess hversu laus ég er við alla meðfædda burði til að hasla mér þar völl sjálfur. Frjálsar íþróttir eru þar fremstar og svo á ég auðvitað létt með að lifa mig inn í handboltakappleiki. Knattspyrna er fremur neðarlega á mínu áhugasviði. Knattspyrna er komin inn á vígvöll óheiðarlegra viðskipta og ósmekklegs fjármunabruðls. Bestu leikmennirnir ganga kaupum og sölum líkt og veðhlaupahestar og dómurum er mútað hægri-vinstri af fréttum að dæma.
Úrslitaleikir enda gjarnan með lífshættulegum átökum milli sturlaðra áhangengja í öndverðum liðum, enda eru ofbeldissinnaðar "fótboltabullur" farnar að líta á þetta svipuðum augum og fyllibyttur á útihátíðir.
Meistaramót í frjálsum íþróttum eru orðin afgangsefni hjá íþróttafréttamönnum og með þeim fylgst af minni áhuga en einhverjum útlendum keppnimótum í nánast óþekktum íþróttagreinum hér á landi.
Ég er í stuttu máli öskureiður vegna tómlætis okkar vel kunnandi íþróttafréttamanna í garð okkar glæstu frjálsíþróttamanna sem mikið eru að leggja á sig til að ná sem bestum árangri og eru án teljandi undantekninga góð og heilbrigð fyrirmynd æskufólks á hverjum tíma.
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 19:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.