11.2.2010 | 00:28
Var nálægt því að taka mynd af eigin dauðdaga.
Myndin af hörmulegu þyrluslysi í Brasilínu minnir mig óþyrmilega á það að fyrir tólf árum munaði aðeins fáum mínútum að ég tæki mynd af eigin dauðdaga í banaslysi.
Ég var einn á ferð við mynni íshellisins undir Kverkjökli í Kverkfjöllum þar sem hin volga á Volga kemur undan jöklinum.
Þá höfðu stórir ísklumpar verið að falla úr bogadreginni hvelfingunni yfir munna hellisins og ég vildi gera frétt til aðvörunar fyrir ferðamenn, enda hefur orðið eitt banaslys við svona aðstæður í mynni íshellis við Hrafntinnusker.
Fyrst stóð ég nálagt munnanum og talaði þar nokkur orð fyrir framan myndavélina en flutti hana síðan í nokkurra tuga metra fjarlægð til að taka fjærmynd af mér á sama stað til að sýna stærðarhlutföllin.
Þegar ég kom til baka úr þessum leiðagnri byrjaði ég að taka mynd af bresti sem var í ísstálinu yfir munnanum og fyrir ótrúlega tilviljun byrjaði bresturinn að gliðna á þeirri sekúndu sem ég "súmmaði" inn á brestinn !
Ég víkkaði myndina út og um leið féll um 1000 tonna ísstál niður og þeytti skæðadrífu af stórum ísklumpum í gríðarlegri gusu þar yfir sem ég hafði staðið nokkrum mínútum fyrr !
Líkurnar á að ná þessari mynd voru einn á móti 30 milljónum, því að svona stórt stykki hafði ekki fallið niður í heilt ár.
Hins vegar munaði aðeins örfáum mínútum að myndavélin hefði tekið af því mynd að ísstálið félli niður meðan ég stóð undir því og hefði það orðið magnað skot, - því verður ekki neitað, hreint einstakt í sjónvarpssögu heimsins.
Kannski hafði Steindór Andersen þetta einstæða atvik í huga þegar hann gerði okkur báðum til gamans vísu um mig, sem ég held afar mikið upp á, því að þessi frábæra níðvísa byrjar þannig, að halda mætti að hún væri hólvísa.
Og ég tek fram að vísur af þessari gerð eru íslensk íþrótt sem á ekkert skylt við illvilja eða illkvittni, heldur mest til gamans.
Svona er þessi frábæra vísa:
Hann birtu og gleði eykur andans, - /
og illu burtu hrindir. /
Og þegar hann loksins fer til fjandans /
fáum við sendar myndir !
Tók mynd af þyrluslysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hahah.. frábær vísa
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 00:55
Mögnuð frásögn og bráðsnjöll vísa. En nú rifjast upp fyrir mér nafn. Guðmundur Hannesson hét maður og var lengi yfirverkstjóri hjá Rarik við lagningu á háspennulínum. Eitt sinn fór hann í -að mig minnir- eftirlitsferð með þyrlu um hálendið; ekki man ég hvar. Eitthvað bilaði í þyrlunni og hún féll til jarðar en þyrluflugmanninum tókst þó með einhverjum brögðum sem ég kann ekki að lýsa að forða banaslysi og þeir Guðmundur sluppu heilir á húfi.
Guðmundur var orðlagt karlmenni sem brá ekki við smámuni. Á leiðinni niður tók hann nokkrar myndir "að gamni sínu."
Nokkrum árum síðar fórst þyrla með fólk og vistir frá Rarik við rætur Esjunnar og enginn lifði af. Þar fórst sjö manna hópur og einn þeirra var Guðmundur Hannesson yfirverkstjóri.- Engar myndir.
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 11:28
Líkast til hefur fyrra slysið verið þegar þyrla Gæslunnar brotlenti á Rjúpafelli suður af Kerlingarfjöllum.
Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið segir máltækið.
Þorsteinn Jónsson flugkappi var ekki hræddastur í flugi sínu í stríðinu þegar hann var í daglegum loftbardögum og slapp oft ævintýralega heldur var hann orðinn sjúklega hræddur í lok stríðsins þegar þýskar flugvélar voru nánast horfnar.
Það var vegna þess að hann óttaðist að vera búinn með "heppniskvóta" sinn og að næst hlyti hann að draga spaðaásinn úr spilastokki heppni og óheppni.
Steini fór marga hættuför síðar, meðal annars í Biafra, en að lokum lést hann í elli á líkan hátt og flestir aðrir.
Ómar Ragnarsson, 11.2.2010 kl. 12:30
Rjúpufell mun hafa verið kennileitið sem tengdist fréttinni. En þó finnst mér að þyrlan hafi komið niður á nokkuð sléttan mel. Þekki ekki staðhætti þarna því þetta er langt frá mínum kirkjusóknum.
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 13:37
Mig rámar í þetta þyrluslys því ég flaug fyrir Sjónvarpið þangað inn eftir til að taka mynd af því.
Mig minnir að Þórhallur Karlsson, gamall flugvinur minn, sem lærði flug skömmu á undan mér og kenndi mér síðan nokkra flugtíma, hafi verið flugstjórinn.
Fyrir honum og Guðmundi lá það sama, að báðir fórust síðar í þyrluslysum, Þórhallur í Jökulfjörðum og Guðmundur við Hjarðarnes á Kjalarnesi.
Merkileg tilviljun.
Ómar Ragnarsson, 11.2.2010 kl. 14:34
Talandi um feiga og ófeiga.
Einn af náfrændum mínum var starfsmaður RARIK þegar þessi örlagaríka þyrluferð sem Árni minnist á hérna fyrr var farin. Til stóð að hann ætti að fara með í ferðina en skömmu áður en leggja átti af stað varð honum illt og það illa að hann treysti sér ekki til að fara með þannig að hann varð eftir. Skömmu eftir að þyrlan lagði af stað bráði skyndilega af honum og hann kenndi sér enskis meins.
Einar Steinsson, 11.2.2010 kl. 14:41
Mig minnir að nafnið a þyrluflugmanninum sem flaug þyrlunni í Kjalarnesslysinu hafi verið Lýðvík Karlsson.
Svona atvik eins og þú vísar til Einar eru ótrúlega mörg og sögur af þeim má lesa í frásögnum langt aftur í aldir bæði hérlendis sem erlendis. Sjálfur hef ég þekkt fólk sem sagði mér frá eigin reynslu á þessu mystiska sviði.
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 15:05
..Lúðvík Karlsson að sjálfsögðu.......
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 15:06
Krassaðir þú ekki frúnni einmitt í tengslum við kjalarnessslysið? Mig rámar í myndir af henni á hvolfi um sama leyti. Hvað skeði þá? Skall hurð nærri hælum?
Annars ættir þú að taka þessi ævintýri þín saman í kver. Líkast til yrði það þó doðrantur.
Jón Steinar Ragnarsson, 11.2.2010 kl. 15:20
Reyndar sagði Steini Jóns frá því í ferð Fyrsta flugs félagsins úti í London árið 1998 að hræddastur hafi hann orðið þegar hann var einmitt í einni af fyrstu ferðunum sínum inn yfir Frakkland í stríðinu. Þá varð skyndilega allt krökkt af Me 109 og harðir loftbardagar blossuðu upp allt í kring um hann, en sjálfur sá hann ekki eina einustu flugvél, heyrði bara lætin í talstöðinni. Skyndilega þutu byssukúlur fram úr honum, þá voru tvær þýskar vélar komnar í skottið á honum og hann auðvelt skotmark, nýliðinn. Hann náði að hrista þá af sér í dýfu minnir mig, en mikið ofboðslega varð hann hræddur. Þessu sagði hann hópnum frá þarna úti í London, 58 árum síðar, upp á dag, hann fór einmitt að tala um þetta vegna þess að þessa "afmælis".
Guðmundur Helgason (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 16:41
Ég var úti á Kaníreyjum þegar hinn stórkostlegi sagnamaður Lúðvík Karlsson fórst á Kjalarnesi.
Ómar Ragnarsson, 11.2.2010 kl. 19:53
Lúðvík fórst í janúar 1975. Ekkert flugóhapp var skráð á mig milli 1967 og 1978.
Ómar Ragnarsson, 11.2.2010 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.