11.2.2010 | 19:47
Verður er verkamaðurinn launa sinna.
Ofangreind orð úr Biblíunni þekkja flestir en stundum er það þannig, að þau séu samt ekki viðurkennd.
Ég er það gamall að ég man þá tíð þegar Jón Leifs gerðist brautryðjandi í réttindamálum tónskálda og eigenda flutningsréttar, en þau voru þá fyrir borð borin.
Ég man hið gamla samfélag þar sem vinnuafköst voru mæld í kílóum, tonnum, lítrum og öðrum áþreifanlegum verðmætum sem vinnufúsar hendur skópu eða handfjötluðu.
Tónlistarmönnum var að vísu borgað fyrir að handleika hljóðfæri og framleiða með því tónlist og í einstaka tilfellum borgað fyrir að semja hana en lengra náði það ekki.
Jón Leifs og aðrir brautyðjendur í höfundarréttarmálum þurftu að brjótast í gegnum þykkan múr fordóma og skilningsleysis sem enn eimir af eins og nýleg mál sýna.
Allir skilja að ef maður lætur einhverjum bíl sinn eða eign til afnota sé rétt að greiða fyrir þau afnot.
En þegar kemur að tónlist, skáldverkum eða annarri list tekur undarleg viðleitni við hjá mörgum þess efnis að reyna allt sem hægt er til að komast hjá því að borga nokkuð fyrir afnotin.
Með tölvu- og nettækninni steðja ný viðfangsefni að í þessum efnum eins og sést á nýjustu dæmunum um málaferli og varnarviðbrögð þeirra sem sannanlega skópu verðmætin, sem um er að ræða, en reynt er að ræna afkomugrundvelli sínum með því að hafa af þeim þau laun, sem vinna þeirra og hugvit hafa skapað.
Ánægður með dóm Hæstaréttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skiljanlega kaupir fólk ekki tónlist af einokunarfyrirtækinu Skífunni þegar diskarnir kosta allir um og yfir 3000 kr.
Þá frekar legg ég mig í hættu með niðurhali.
Siggi (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 19:55
Þú veist greinilega ekki, Siggi, hvað þarf til og hvað það kostar að semja, flytja og taka upp tónlist á geisladisk svo að vel sé.
Þú veist greinilega ekki heldur um þá skattlagningu sem er á þessari starfsemi.
Ómar Ragnarsson, 11.2.2010 kl. 20:05
Gott og vel að það kosti sitt að "semja, flytja og taka upp tónlist", eru það samt sem áður rök fyrir því að það þurfi að borga stefgjöld af tómum minniskubbum í myndavélar og eins tómum geisladiskum??
Og reyndar hélt ég í fávisku minni að venjulega væri greitt fyrir flutning á tónlist nema kannski í tilvikum þar sem hljómsveitir væru að koma sér á framfæri, og eins með að semja tónlist. Er einhver sem borgar einhverjum fyrir tíma í einhverjar hugsarsmíðar hvort sem það er tónlist, ritlist eða eitthvað annað. En alltént ætti nú varla að vera mikill kostnaður við það að sitja með gítar og vera að semja eitthvað lag.
Kjartan Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 20:23
Ég er ekki 100% inni í þessum málum, en þetta hljómar sem það er að hengja bakara fyrir smið. Eins og ég hef skilið þetta þá er verið að ákæra hann fyrir að reka torrent síðu og að hann sé ábyrgur fyrir því efni sem sett er inn á hana.
Torrent er tækni til að deila efni, öllu efni, ekki bara ólöglegu. Og það er spurning hvort menn sem reka svona þjónustu eigi að vera ábyrgir fyrir öllu sem kemur inn á hana eða einungis þeir sem setja ólöglegt efni inn á hana.
T.d. væri Intersport seint ákært fyrir að selja byssur sem væru notaðar í morði. ÁTVR fyrir að selja áfengi sem ölvaður ökumaður drakk osfrv.
Ég er stuðningsmaður þess að listamenn eigi að fá greitt fyrir vinnu sína, en mér finnst líka mjög undarlegt þegar það er verið að stoppa tækniþróun með svona dómum og t.d. gjöldum á geisladiska og upptökubúnað í nafni höfundarréttar. Ég efast um að þjóðin myndi sætta sig við að það yrði sett 10kr gjald á allar pappírsarkir því það er hægt að skrifa upp/prenta út bækur á þær ólöglega.
Ingi (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 20:31
Mikið af tónlist hefur verið dreift ólöglega á netinu, það er ekki spurning. Hinsvegar hefur óréttlætið og ósanngirnin sem við höfum þurft að þola í nafni höfundarréttar tónlistarmanna gert það að verkum að fáir hafa samúð með þeim, sérstaklega ekki yngra fólki.
Guðmundur Ólafsson (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 23:27
Ef ég hlusta á útvarpið mitt heima hjá mér, þá er ég í góðum málum.
Ef ég hins vegar fer með það út í garð, þá er það orðið STEF-gjaldskylt, þó það sé eflaust lýtt elt uppi...
... en fari ég með það á vinnustaðinn minn og óviðkomandi heyri í því (sem þó á örugglega útvarp sjálfur) þá eltir STEF það uppi.
Billi bilaði, 12.2.2010 kl. 00:37
"...sitja með gítar og semja eitthvert lag.." segir meira en mörg orð um þær hugmyndir sem margir hafa um hlutskipti tónskálda og textahöfunda.
Þá veit maður það.
Ómar Ragnarsson, 12.2.2010 kl. 01:31
Það er enginn að gera lítið úr hlutskipti laga og textahöfunda Ómar. Það er bara hálf absúrd að borga einhverjum fyrir að semja hvort sem það eru tón- eða ritverk, það er ómögulega hægt að borga öllum fyrir slíka iðju eða hvað?? Auðvitað eru einhverjir heldri menn á istamannalaunum fyrir vel unnin störf áður en ekki er hægt að segja að það sé fyrir framtíðarstörf. Það sem ég er að setja útá ef það fór fram hjá þér er að STEF sé að klípa auka krónur af alls kyns hlutum sem hafa verið nefndir hér í þessum þræði sem koma tónlist lítið við, og ef þetta rennur allt til tónlistarmanna af hverju þarf þá að borga þeim sérstaklega fyrir lagasmíðar??
Kjartan (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 02:07
Aldeilis er merkilegt hversu mörgum finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt að stela, svona úr því tæknin er til.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 09:40
Tökum smá dæmi, Ómar. Er það ekki rétt hjá mér að eftir þig liggi hellingur af efni sem ekki hefur verið gefið út á geisladiski? Eitthvað sem kom út á vínyl fyrir mörgum árum en hefur ekki verið endurútgefið?
Megum við ekki hlusta á það nema við eltum uppi rispaðar vínylplötur?
Ef einhver framtakssamur einstaklingur tekur sig til og afritar þá tónlist á stafrænt form svo fleiri geti notið tónlistarinnar þinnar, ferðu þá í mál við hann?
Ef ég rekst á gamalt lag með Ómari, hleð því niður og brenni á disk, er ég þá glæpamaður? Það skiptir litlu, því STEF og SmáÍs ákváðu um leið og ég keypti tóman geisladisk að ég væri glæpamaður, og rukkuðu mig um sekt áður en ég framdi "glæpinn".
Er ekki alveg jafngott að stela hænu ef það á að hengja mann fyrir að stela eggi?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 12.2.2010 kl. 14:00
Aðeins brot af því efni sem ég hef samið hefur verið gefið út. Það getur enginn "elt upp rispaðar vínylplötur" til að afrita það svo ég hef engar áhyggjur af því.
Ég er ekki að fjalla um mín verk í bloggi mínu, heldur veit ég vegna samskipta minna og vinnu með tónlistarfólki í hálfa öld hver kjör þess eru og hvernig er hægt að hlunnfara það og hreykja sér af.
Ómar Ragnarsson, 12.2.2010 kl. 18:52
Enda átti ég þarna við það efni sem hefur verið gefið út en er ekki auðvelt að nálgast í dag. Ég efast ekki um að þú hafir samið nægt efni til að halda uppi plötuútgáfu á Íslandi í nokkra áratugi í viðbót.
En finnst þér í lagi að þjófkenna alla sem kaupa sér skrifanlega geisladiska eða mp3-spilara?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 12.2.2010 kl. 18:59
Ég hef keypt mér í gegnum tíðina 3 mp3 spilara, þar af einn fokdýran ipod. Ég hef fjárfest í allnokkrum usb minniskubbum og fleiri óskrifuðum geisladiskum en nennan leyfir að telja. Af öllum þessum vörum, sem samtals hafa kostað mig sex stafa tölu, hef ég borgað STEF gjöld. Gjald, sem sett var á með lögum þar sem gert er ráð fyrir að allir sem kaupi ofangreindar vörur munu á einhverjum tímapunkti geyma á þeim ólöglega sótt efni og því sé best að hirða STEFgjaldið fyrirfram.
Aftur á móti hefur ólöglega sótt efni aldrei verið geymt á ofangreindum varningi, heldur einungis afrit af tónlist sem ég þegar hef keypt, og lög kveða á um að ég megi afrita til eigin afnota, og hef ég þ.a.l. borgað mitt STEF gjald.
Þannig að ef ég kaupi mér geisladisk, tek af honum afrit til að geyma í bílnum, annað til að hafa í sumarbústaðinum og set hann inn á ipodinn minn fyrir sprellið mitt í ræktinni hef ég þurft að borga sama STEFgjaldið fyrir téðan disk 3x oftar en lög kveða á að mér beri.
Það er því alveg verðug spurning hver sé að stela af hverjum hérna...
Sigurður Kárason (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.