13.2.2010 | 15:49
Vietnam kemur upp í hugann.
Viðfangsefni Bandaríkjamanna í Afganistan minna um margt á Vietnamstríðið. Þá, eins og nú, varð það niðurstaða Kennedys og síðar Johnsons að með því að fjölga hermönnum og auka hernaðaraðgerðir hlyti sigur að vinnast.
Afganistan er að sönnu gerólíkt Vietnam en löndin eiga það þó sameiginlegt að henta afar illa til hernaðar af því tagi þar sem Bandaríkjamönnum gagnast með hernaðartæki sín við framandi aðstæður.
Þar er óvinurinn á heimavelli og beitir ýmsum brögðum skæruhernaðar sem erfitt er að fást við nema að það bitni svo á saklausum borgurum að það baki þjóðaróvild.
Þetta er hættan sem vofir yfir í hernaði Bandaríkjamanna í Afganistan og minnir óþægilega á sams konar fyrirbrigði í Vietnamstríðinu.
McCaine færði að því rök að Bandaríkjamenn hefðu getað unnið sigur í Vietnamstríðinu eða í það minnsta ekki þurft að tapa því svo illa sem þeir gerðu.
Í fréttaflutningi var til dæmis hin fræga Tet-sókn Vietkong mikið áfall fyrir Bandaríkjamenn og sneri almenningsálitinu heima í Bandaríkjunum gegn hernaðinum.
En í raun var Tet-sóknin misheppnuð ef miðað er við markmið hennar og vonir Vietkong. Mannfallið var skelfilegt og fórnirnar ægilegar fyrir skæruliðaherinn.
En Vietnamstríðið tapaðist ekki þar heldur heima í Bandaríkjunum. Og þá komum við að einum mun sem er á stríðinu í Afganistan og í Vietnam.
Bandaríkjamenn misstu að vísu marga hermenn í Vietnam en að öðru leyti sá stríðsins ekki beint stað í Bandaríkjunum sjálfum.
Hins vegar hófst styrjaldarþáttaka Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni og stríðið í í Afganistan á því að gerðar voru beinar árásir á Bandarikin, á Perluhöfn 7. desember 1941 og New York 11. september 2001.
Slíkar árásir þjappa þeim þjóðum saman sem fyrir þeim verða.
Raunar eru uppi samsæriskenningar þess efnis að bandarísk yfirvöld hafi í báðum tilfellum látið viljandi undir höfuð leggjast að koma í veg fyrir árásirnar vegna þess að mannslífin, sem fórnað væri, væru mun færri en þau sem myndu tapast síðar ef ekkert yrði að gert.
Ekkert verður sannað í þessum efnum en ef það er rétt að Vietnam-styrjöldin hafi tapast heima fyrir, mun stríðið í Afganistan líka geta tapast þar. En árásin á New York er sennilega í of fersku minni sem og aðrar árásir sem ýmist hafa verið reyndar eða verða gerðar.
Síðan er auðvita sá möguleiki fyrir hendi að menn sjái að jafnvel þótt sigur vinnist í Afganistan muni hryðjuverkum ekki linna, - andúðin á Bandaríkjamönnum og stuðninsmönnum þeirra sé of útbreidd.
Sem aftur leiðir hugann að eldsmatnum fyrir þetta allt fyrir botni Miðjarðarhafs, sem ekkert raunhæft er gert í að fjarlægja.
Fimm NATO-liðar fallnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Heill og sæll; Ómar !
Feigðarflan; Bandaríkjamanna og NATÓ, austur í Baktríu (Afghanistan), mun einungis, hitta þá sjálfa fyrir.
Munum; brölt Rússa og Breta, austur þar - á 19. öldinni, þó; betri hefðu þeir búnaðinn, en heima menn, svo; ekki sé nú talað um Sovétríkin, á síðustu öld.
Með beztu kveðjum /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 16:34
Það er einkennilegt til þess að vita að öfga Islam er alið og fjármagnað frá Saudi Arabíu og bandaríkjamenn eru sterkir bandamenn þeirra. Hamas og fleiri öfgasamtök eru öll með þessu öfgatrúarívafi og snúast um heimsyfirráð Islam. Samt er ekki einn fingur sem bendir á rótina og það þarf enginn að segja mér að Ísraelar t.d. viti ekki hvar hún liggur. Nei þetta er spil, sem er svona vegna þess að það er hreinn vilji fyrir því. Óvininum má ekki eyða. Hann er nauðsynlegur efnahagshvati.
Hræsnin í þessum málum er gersamlega botnlaus. Hryðjuverkamenn 911 komu allir frá Saudi. Osama er Sádi, sem og allir helstu leiðtogar og öfgaklerkar þessa hryllingsstríðs. Allur aurinn til uppbyggingar á moskum og trúartengum öfgasellum kemur fraá Saudi.
Hvers vegna er þagað um það?
Jón Steinar Ragnarsson, 14.2.2010 kl. 12:02
Nokkur orð í belg um Tetsóknina:
Tetsóknin endaði vissulega með hernaðarlegum ósigri Þjóðfrelsishreyfingarinnar (Vietkong!) og hersveita Norður-Víetnams en hún hafði víðtækar pólitískar afleiðingar. Svo miklar að það má líta á Tetsóknina sem vendipunktinn í Víetnamstríðinu. Þá missti Bandaríkjastjórn frumkvæðið og almenningur í Bandaríkjunum missti móðinn.
Tetsóknin afsannaði fullyrðingar Róberts McNamaras varnarmálaráðherra um „að stríðið gengi vel“ og að bandaríski herinn „hefði full tök“ á ástandinu. Bandaríkjastjórn missti því trúverðurleikann. Almenningur í Bandaríkjunum gerði sér skyndilega grein fyrir því að það væri raunveruleg hætta á því að Bandaríkin töpuðu stríðinu.
Tetsóknin var mikill skellur fyrir bandarísk stjórnvöld. Mánuði eftir að sóknin hófst sagði Róbert McNamara af sér embætti og tveimur mánuðum síðar lýsti Lyndon B Johnson því óvænt yfir að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna.
Tetsóknin varð til þess að fjárfestar og bandamenn Bandaríkjanna fóru að efast um það að Bandaríkjamenn gætu unnið stríðið. Viðskiptahalli Bandaríkjanna var á þessum tíma svakalegur. Vegna hans sátu bandamenn Bandaríkjanna uppi með haug af dollurum. Dollarinn var jafngildur gulli en gulltryggingin byggðist á trausti. Tetsóknin sannfærði menn um að hernaðarútgjöldin kæmu ekki til með minnka heldur snaraukast og gróf þannig undan dollaranum.
Guðmundur Guðmundsson, 14.2.2010 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.