16.2.2010 | 21:45
Illskárri, takmörkuð lausn.
Ef beislun kjarnorkunnar væri frábær lausn væru löngu búið að hverfa til hennar. En það er ekki tilviljun að ekkert nýtt kjarnorkuver hafi risið í Bandaríkjunum í 30 ár og það eru ekki aðeins kjarnorkuslysin sem hafa fælt menn frá frekari nýtingu.
Flestum ber saman um að öryggi hafi aukist en vandræðin vegna úrgangsins og öflunar þeirra hráefna sem kjarnorkuvæðingin krefst verður ekki hægt að leysa til frambúðar ef menn leita nú á náðir hennar öllu öðru fremur.
Það hafa verið nefnd ýmis úrræði, kjarnorkan, kolaorka, etanól, metanól, vatnsorka, sólarorka, vindorka og jarðvarmi sem komið gætu í stað þverrandi olíu- og gaslinda.
En engin ein þessara leiða getur leyst vanda hins stórkostlega orkubruðls sem mannkynið stundar.
Að því leyti til byrjar Obama á öfugum enda því að mestu skiptir gerbreytt stefna í orkunýtingunni.
Honum er hins vegar vorkunn, því að smíði kjarnvorkuvera er fljótlegasta úrræðið og vonandi heykist hann ekki á að efna stóru loforðin úr kosningabaráttunnni um breytta umhverfis- og orkustefnu.
Obama ætlar ekki að ráðast í virkjanir í þjóðgörðum Bandaríkjanna, sem væri afar fljótlegur kostur, þótt sumir þeirra, eins og hið gríðarlega jarðvarma og vatnsafls-orkubúnt Yeollowstone myndi vafalaust verða ofan á ef núverandi íslensk viðhorf ríktu vestra í meðerð náttúruverðmæta í Ameríku.
Það er umhugsunarefni að mesta orkubruðlsþjóð veraldar hugsar þó skár í þeim efnum en við Íslendingar.
Obama vill tvö ný kjarnorkuver | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
ég heyrði á viðtal við þig á útvarpi sögu, þar sem þú talar um skammgóðan vermi í atvinnusköpun, ég hef aldrei á minni æfi kynnst atvinnuöryggi, og virðist það fylgja Því að búa á þessu skeri að vera aldrei öruggur hvort maður hefur vinnu á morgun.
en það sem mér finnst virklega vanta er að þessir menn sem kenna sig við umhverfissina, setjist niður og komi með hugmyndir sem skapa atvinnu, í stað þess að vera alltaf í Því hlutkverki að vera neikvæðir þegar kemur að þvi að búa til störf á þessu skeri. störf fyrir nokkur þúsund manns í 3 ár, eru alltaf störf fyrir nokkur þúsund í 3 ár, plús það þarf svo eftir það fólk til að vinna í því orkuveri sem er byggt.
eða kannski orða þetta öðruvísi. ég skora á þig að fara úr þeim hugsunargangi að vera með neikvæðni í garð fólks sem er að reyna að takast á við vandann, og byrja að koma með alvöru lausnir.
Gunni (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 00:00
Svokallaðir CANDU ofnar, skv. Kanadískri hönnun, geta nýtt lággeilsavirkt úraníum og þurfa því ekki, auðgað úraníum.
http://www.ieee.ca/millennium/candu/candu_achievement.html
---------
En, auðgunarferlið er mjög "wasteful" þ.s. umtalsvert magn af úraníum, þarf til að búa til það auðgaða úran, sem er notað í hefðbundnum ofnum.
------------
Þeir hafa víst einnig þann möguleika, að geta notað hágeilsavirkan úrgan sem eldsneyti.
------------
Svokallaðir breeder ofnar, eru einnig þannig, að þeir geta notað lággeilsavirkt úran. Þeir starfa við mun hærri ofnar, en vatnskældir ofnar.
Þ.s. helst gerir aðila fælna að nota þá, að hliðarafurð þeirra er plútoníum.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 17.2.2010 kl. 00:21
Ég meinti, að breeder ofnar starfa við umtalsvert hærri hita.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 17.2.2010 kl. 00:22
Ástæðan fyrir því að ný kjarnorkuver hafa ekki verið byggð er hræðsla stjórnmálamanna við geðveikisleg mótmæli umhverfissinna. Þetta er hávær minnihlutahópur með alltof mikil völd miðað við fjölda þeirra, en þeir eru afar vel skipulagðir og lunknir að afla sér fjármagns í baráttu sína. Einnig hika þeir ekki við að vera með ýkjur og bull sem hinn almenni borgari hefur ekki þekkingu til að hrekja.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2010 kl. 00:31
Er Obama ekki að vinna í stórum skrefum að bættri nýtingu orkunnar líka? Til dæmis með "smart grid" lausnum sem eiga að vinna gegn orkutapi í flutningskerfinu, með betri byggingarreglugerðum sem eiga að draga úr þörf fyrir kyndingu og loftkælingu og með stífari kröfum til raftækjaframleiðenda um orkunotkun heimilistækja. Jú það er verið að gera þetta allt. Þetta snýst bara ekkert um annaðhvort eða, það þarf bæði að vinna í bættri nýtingu orkunnar og því að tryggja að ný orka sé unnin með umhverfisvænari hætti en verið hefur.
Hið slæma orð sem kjarnorkan hefur á sér er að mestu leyti óverðskuldað, vandamálin hafa verið ýkt fram úr hófi og kostirnir verið hunsaðir. Sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem arfleifð hippatímans lifir enn þó að tæknin hafi tekið stökkbreytingum síðan þá. Bandaríkin framleiða sitt rafmagn að miklu leyti með kolabruna sem er skítugasta og óheilnæmasta aðferðin til raforkuframleiðslu sem fyrirfinnst. 1000 MW kolaorkuver losar t.d. margfalt meira af geislavirkum úrgangi út í umhverfið en jafn stórt kjarnorkuver gerir. Það er vegna þess að í kolunum finnast geislavirk efni frá náttúrunnar hendi sem losna úr læðingi þegar kolin eru brennd. Ef hægt er að draga úr þeim óskapnaði með meiri notkun kjarnorku þá er það einfalt val fyrir Bandaríkin. Helsti galli nútíma kjarnorkutækni er að úraníumsamsæturnar sem henta best við vinnsluna eru takmörkuð auðlind, rétt eins og olían, þó að það séu nokkuð margir áratugir í að það verði vandamál. Næsta kynslóð kjarnorkutækni sem byggir t.d. á þóríni frekar er úrani geturkomið til hjálpar þar.
Bjarki (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 09:12
Þetta kemur málinu að vísu ekki við. En mikið leiðast mér þessi íslensku heiti á frumefnum sem enda á -ín, í stað -íum. Natríum, kalíum, úraníum, þóríum, helíum, kalsíum, litíum osfr.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 11:12
Allar þær hugmyndir sem fram hafa komið hjá umhverfisverndarfólki undanfarin ár hafa verið taldar "óraunhæfar", "fjallagrasatínsla", "eitthvað annað" o. s. frv.
Nú eru þrjú ár síðan ég reyndi allt hvað ég gat á opinberum vettvangi að halda fram þeim möguleikum, sem gagnaver og önnur starfsemi sem skapaði meiri og betri störf og tekjur á hverja orkueiningu en álverin.
Þá töldu stóriðjufíklar þetta allt talin tóma vitleysu álverin væru eina raunhæfa lausnin á atvinnumálum Íslendinga.
Þegar ég benti á að jafnvel þótt allri virkjanlegri orku landsins yrði ráðstafað til álvera myndi aðeins 2% vinnuafls landsmanna fá vinnu í þeim, var samt sagt að álverin væru það eina sem kæmi til greina, það þýddi ekkert fyrir mig og skoðansystkin mín að benda á "eitthvað annað."
Það er ekki nóg með að svona sé talað til okkar.
Þegar í ljós kemur að gagnaver, kíliliðja og fleiri fyrirtæki eru raunhæfur kostur er því bara logið að við höfum aldrei minnst á þessa möguleika og komum aldrei með neinar nýjar hugmyndir !
Þar með er ljóst að það er vita gagnslaust að tala um þess mál.
Ég hef nú síðustu misserin ítarlega kynnt tillögur mínar um miklu ábatasamari nýtingu svæðisins Leirhnjúkur-Gjástykki til ferðaþjónustu heldur ef þetta verður gert að ígildi Hellisheiðarvirkjunar en þó með meira en tífalt minni orku.
Ég hef, eftir ferðalög allt frá Finnlandi til Kaliforníu, haldið fram sterkum rökum um þetta.
Halldór Blöndal afgreiddi þetta svona: "Nú er talað um að friða Gjástykki en hvers vegna veit enginn".
Langur listi yfir "eitthvað annað" er blásið út af borðinu sem vitleysa en álverin eru "alvöru lausnir."
Einu sinni var sagt: Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki."
Ómar Ragnarsson, 17.2.2010 kl. 12:54
Bentu mér á eitthvað því til staðfestingar að einhver hafi sagt að annað en álver væri tóm vitleysa, Ómar.
Ég held að þú vitir innst inni að þetta er ekki rétt hjá þér, en ef þú heldur þessu fram nógu oft og nógu lengi, þá fara sjálfsagt einhverjir að líta á þetta sem staðreynd.
Og sei sei já
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2010 kl. 16:18
Þetta var aðalatriði í stefnu Íslandshreyfingarinnar sem ég hélt fram í ótal kappræðuþáttum í útvarpi, á fundum og í sjónvarpi.
En þetta fékk engan hljómgrunn og væri vel hægt að spila upptökur af þessum þáttum til að sjá það.
Geir Haarde orðaði það svo eftir kosningarnar að þessi rök hefðu ekki fengið hljómgrunn.
Ævinlega var sagt að við ættum engin úrræði nema fjallagrasatínslu og ég sé ekki betur en að hér að ofan sé þessu enn einu sinni haldið fram, að við bendum ekki á neitt annað.
Ómar Ragnarsson, 17.2.2010 kl. 16:27
Með því að skipta um kjarnorkuver, og færa sig frá þeim sem vanalega eru notuð í dag, þ.e. vatnskæld ver sem vinna við tiltölulega lágt hitastig en á móti þurfa auðgað úran cirka 20% til að vinna; yfir í kjarnorkuver er starfa við hærra hitastig sbr. CANDU eða svokallaða Breeder ofna sem ef ég man rétt eru kældi með fjljótandi salti; er hægt að ná mun meiri orku úr úraníum, en í dag er gert.
Mér skilst, að megnið af geislavirkninni sé hægt að nýta, þannig að eftir verði að stærstum hluta lággeislavirkur úrgangur.
http://en.wikipedia.org/wiki/Fast_breeder_reactor
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 17.2.2010 kl. 16:29
Þú semsagt getur ekki bent á neitt.... kemur ekki á óvart
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2010 kl. 16:44
Gunnar, maður verður að passa sig að kasta ekki grjóti þegar maður býr í glerhúsi var einhvern tímann sagt. Þú ferð fram á að Ómar komi með skjalfestingu á að einhver hafi sagt að eitthvað annað en álver væri tóm vitleysa. Á sama tíma og þú sjálfur skellir fram fullyrðingu fyrr í athugasemdunum um að ekkert kjarnorkuver hafi verið byggt vegna hræðslu við geðveikisleg mótmæli umhverfisverndarsinna sem hafi alltof mikil völd miðað við fjölda og ýmislegt fleira sem þú lætur flakka í þeirri athugasemd. Reikna síður með að þú getir lagt fram skjalfest gögn um þessar fullyrðingar.
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 18:44
Mikið er ég orðinn þreyttur á þessu „verðum að skapa atvinnu“ tali. Það er eins og að samfélagið virki ekki nema að 90% þjóðarinnar sé vinnandi frá 8 til 5, fimm daga vikunnar. Þetta er fáránleg einföldun sem á ekki við nein rök að styðjast. Og þar ofaná þá er talað um „atvinnuöryggi“ eins og það sé bara til eitt form af „atvinnuöryggi“ og allt annað en þetta eina rétta „atvinnuöryggi“ sé einsemd og volæði.
Hvernig hjálpar það ef að allir menn myndu vinna 45 tíma vikunnar? Hvað myndi breytast? Í samfélagi þar sem hlutir eru offramleiddir á gígantískum skala og 10% þeirra eru atvinnulausir, hin 90% vinna við það að auka enn á offramleiðslunaog kannski 0,5% vinnur við það að segja hinum fyrir verkum og kaupa sér Porche-jeppa fyrir arðin sem þessi 90% skapa, hvernig hjálpar það að auka þetta prósentuhlutfall upp í 98%. Offramleiðslan verður meiri, einnýtingin eykst, brjálaðið verður öfgafyllra.
Hvað með að minnka framleiðsluna, endurnýta í stað þess að einnýta og henda? Af hverju, þegar við höfum allt sem við þurfum og svo margfallt meira að við erum komin í hringinn og inn í kreppu án þess að nokkuð skorti. Að afhverju er þá ekki hægt á. Fólk getur tjillað og notið þess sem það hefur. Atvinnuöryggið gæti verið falið í því að vinna 20 stundir á viku í stað 45 (það ætti að slá á þetta atvinnuleysi sem allir óttast svo).
Atvinnuöryggi er ekki eitthvað sem kapítalistarnir hafa einkarétt á að veita. Atvinnuöryggi þarf ekki að innihalda arðrán. Maður þarf ekki einhverja gígantíska framleiðslumaskínu ofan á þúsund aðrar til þess að búa til atvinnuöryggi. Tuttuga karlar í jakkafötum þurfa ekki að græða tuttugumilljónir fyrir hvern þúsundkall sem maður innan atvinnuöryggis skapar. Það þarf ekki að riðja skóga, drekkja landi, skjóta indjána eða hækka skuldabréfaálag kauphallarinnar í New York um fimm fjórðunga til að búa til atvinnuöryggi. En það þarf að gera allt þetta og milljón verri hluti í viðbót ef að kapítalistarnir ætla að halda áfram að blekkja okkur með þeirra „atvinnuöryggi“.
Ef að fólk ætlar að búa við alvöru atvinnuöryggi -en ekki bara eitthvað falsöryggi sem að kapítalistarnir geta svipt jafnóðum og þeir koma með- þá þurfum við að skapa okkur það sjálf innan samfélagsins. Ekki með því að framleiða það sem kapítalistarnir segja að við þurfum þúsundfallt, heldur á okkar eigin forsendum. Atvinnuöryggi er það þegar enginn vinnur meira en hann þarf. Atvinnuöryggi er að hafa tíma til að fara í fótbolta og ala upp krakkana okkar. Atvinnuöryggi er að láta engan arðræna sig.
Áver í boði Alcóa, lúxusheilsugæslustöð fyrir útlenska milla í boði Wessman og Gagnaver í boði Yahoo uppfylla öll skilyrði þess að veita falsöryggi kapítalismans en engin alvöru atvinnuöryggi. Frjálsir bændur (sem eru óháðir SS) og frjálsir fiskimenn (sem veiða utan kvóta) uppfylla skilyrði atvinnuöryggis að hluta. Ef að menn eru orðnir þreyttir á að hafa ekki þetta „atvinnuöryggi“ þá gjörið þið svo vel og hættið að láta arðræna ykkur, hættið að láta þræla ykkur út til að vinna alltof langa vinnudaga fyrir alltof lítin pening, hættið að láta ríkisbubba kaupa sér jeppa og utanlandsferðir á ykkar kostnað og hættið að framleiða hluti sem nú þegar er alltof mikið af.
Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.