19.2.2010 | 10:34
Meiri mælingar.
Líklegast eru auknar mælingar helsta skýringin á fjölgun hraðakstursbrota. Settar hafa verið upp sjálfvirkar hraðamyndavélar í Ölfusi, Melasveit og víðar og hafa árreiðanlega borgað sig.
Blönduóslöggan er landsþekkt en vitað er að Akureyrarlögreglan hefur gert ráðstafanir til að hafa hemil á ökuhraða í Öxnadal og á Þelamörk þar sem eru langir beinir kaflar og ökumenn hafa hyllst til að gleyma sér.
Eins og þeir vita sem ekið hafa á hraðbrautum í Þýskalandi, eru flestir bílar orðnir það góðir að það er ekkert mál að aka þar á 130 km hraða og þar yfir ef menn sætta sig við aukna eldsneytiseyðslu.
90 km hámarkshraðinn helgast af því að umferð mætist úr gagnstæðum áttum og ef eitthvað ber útaf er sá hraði lífshættulegur fyrir þá sem eru í bílum sem rekast hvor framan á annan.
Á brautum sem eru tvöfaldar og með vegriði á milli erlendis er leyfður hraði hærri, þetta 100-110 km hraði. Í Svíþjóð er leyfilegur hraði yfirleitt um 10-20 km hærri en á samsvarandi vegum í Noregi og slysatíðnin þó ekkert meiri.
Það er líklega mest vegna þess að norsku vegirnir eru yfirleitt miklu hlykkjóttari og þrengri.
Ef hraðamyndavélar eru nógu margar gera þær gagn. Dæmi veit ég um Íslending sem ók norður frá Osló í átt til Þrándheims og fékk sjö hraðasektir í hausinn úr sjálfvirkum vélum sem er raðað þar við veginn.
Á ferð um Noreg verður íslenskur ökumaður að gera ráð fyrir miklu lægri meðalhraða en hér á landi.
Eftir tveggja daga akstur í Noregi er búið að ná Íslendingnum niður og skilaboðin,sem hafa seytlað um sálina eru þessi: "Minnkaðu stressið og hafðu hugann við aksturinn svo að aksturslag þitt sé öllum til hagsbóta og öryggis."
Að lokum þessi vísa um Blönduóslögguna.
Ef bíla snögga ber við loft /
brátt má glögga sjá, /
því Blönduóslöggan æði oft /
er að "bögga" þá.
Hraðakstursbrotum fjölgar mikið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þakka þér Ómar,að koma inn á þennan málaflokk.
Ég er ekki andvígur hraðamyndavélum,eins og kemur fram í bloggi mínu.Heldur tel ég,eins og þú,þörf á að fjölgja þeim.
Ég vil hins vegar,vita hvort það ég lögleg aðgerð að ákæra og sekta ökumenn,eftir upptöku vélanna.Mig minnir að,samhvæmt dómsúrskurði hafi það ekki löglegt.Því spyr ég,hvort það sé komin gildandi lög,sem heimila slíka aðgerð.
Ef það er lagaheimild fyrir þessu,tel rétt að ágóði af sektum,verði eyrnamerkt,lögreglu,slysavörnum og vegagerð.
Ingvi Rúnar Einarsson, 19.2.2010 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.