19.2.2010 | 13:21
Laddi var enn flottari !
Atvikið í leik Sádi-Arabíu og Bareins er einstakt en þó veit ég um einstakara atvik í boltaíþrótt.
Tveir af mögnuðustu leikmönnum stjörnliðsins míns hér áður fyrr voru Albert Guðmundsson og Laddi.
Albert skoraði körfu frá vítapunkti í Laugardalshöll með því að nota fótinn. Hann gat allt til æviloka, með stóra ístru, slæma sjón og kominn vel á sjötugsaldur, gripið fljúgandi bolta með fætinum, staðið með hann á ristinni, og sent hann siðan hvert sem var án þess að hann kæmi við jörðu.
Engan mann á nokkrum aldri hef ég séð geta leikið þetta eftir.
Boltinn á styttunni af honum í Laugardalnum ætti að vera á tám hans en ekki liggjandi á jörðinni.
Laddi á þó heimsmetið að mínum dómi, enda mesti grísara snillingur sem ég hef kynnst.
Atvikið gerðist í "Ljónagryfjunni" í Njarðvík þegar við höfðum lokið knattspyrnuleik okkar í hléi körfuboltaleiks.
Við vorum á leiðinni út þegar Laddi hljóp til baka yfir völlinn út í horn hans til að ná í eitthvað sem hann hafði gleymt þar.
Jón bróðir minn var að ganga út af vellinum með boltann þegar Laddi kemur hlaupandi úr gagnstæðu horni og kallar til Jóns að senda boltann til sín.
Jón spyrnti boltanum í fasta og langa sendingu sem stefndi hátt og í löngum boga á Ladda.
Laddi hljóp á móti boltanum, stökk hátt upp með fæturna í splitti eins og fimleikakona. Boltinn lenti á vinstra hné hans og fór í löngum, háum boga í átt að körfunni.
Laddi var lentur og byrjaður að "kvitta fyrir" skotið þegar boltinn small ofan í körfuna !
Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður í heiminum geti leikið þetta eftir. Að þessu voru hundruð áhorfenda vitni en því miður er ekki til nein mynd af því.
Frábært sigurmark (myndband) | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mig minnir að Albert hafi skorað korfuna frá miðju. Ég var þarna á staðnum, en kanski misminnir mig. Gaman væri að heyra í öðrum sem voru þarna.
Sveinn Elías Hansson, 19.2.2010 kl. 16:07
Ég var ekki viðstaddur þetta atvik þegar Albert skoraði körfuna með fætinum. Samkvæmt frásögnum tóku menn þarna vítaskot frá vítapunkti og Albert gerði þetta á sinn hátt.
Af frásögnum liggur beinast við að álykta sem svo að hann hafi staðið á vítapunkti. Það skiptir í rauninni ekki máli því að það var að sjálfsögðu í heimsklassa að geta gert þetta.
Albert lék alla leiki sem hann mögulega komst í með mér í Stjörnuliðinu og þegar hann var fjármálaráðherra 1983 sniðgekk hann það að hitta formann fjárlaganefndar Bandaríkjaþings, því að hann vildi frekar fljúga með Stjörnuliðinu til Akureyrar til að spila þar.
Ómar Ragnarsson, 19.2.2010 kl. 23:43
Ég sá nokkra leiki með þessu stjörnuliði, og karlinn var stórkostlegur, það náði enginn boltanum af honum.
En svo má ekki gleyma þínum sérstaka hlaupastíl sem þú notaðir stundum.
Sveinn Elías Hansson, 19.2.2010 kl. 23:47
Ég var þarna (með Sveini) þegar Albert skoraði körfu.
Hef fyrir löngu gleymt hverjir áttust við á vellinum, eða hvernig leikurinn fór. En í hálfleik var boðið upp á skemmtiatriði. Ýmsir valinkunnir menn voru "dregnir" út á völlinn og boðið að koma körfubolta ofan í körfu - frá miðju vallarins!
Áhorfendur skemmtu sér dátt yfir misheppnuðum tilraunum undanfara, sem sumir drógu vart hálfa leið. En þá fékk Albert boltann.
Hláturinn í salnum hljóðnaði á meðan Albert tók sinn tíma til að velta boltanum fyrir sér, hringsnúa honum í höndum sér, vega hann og meta. Síðan leit hann á körfuna, tók skref afturábak, lét boltann falla, sveiflaði fætinum og smellhitt'ann þegar fótur og bolti mættust. Boltinn sveif í fallegum boga yfir hálfan völlinn og beint ofan í körfuna!
Áhorfendur ærðust!!
Held að Berta hafi aldrei verið boðið á körfuboltaleik síðan! Maðurinn gjörsamlega "stal senunni"!
Ybbar gogg (IP-tala skráð) 20.2.2010 kl. 04:32
Ég held að ég hafi örugglega verið þarna líka, og vill staðfesta miðjuna.
Billi bilaði, 20.2.2010 kl. 06:03
Þar sem ég var sömuleiðis á þessum leik og átti dálítinn þátt í keppninni sem haldin var í hálfleik ætla ég að taka fram að það er misminni þeirra sem halda því fram að Albert sálugi hafi hitt frá miðju. Þannig var að til stóð að halda vítakeppni stjórnmálamanna og voru ýmsir fengnir til þess. Einn þeirra var Guðmundur G. Þórarinsson. Hann vildi ekki verða sér til athlægis og hitti því vin sinn, Valdimar Örnólfsson, að máli og bað hann að kenna sér að skjóta á körfu, en þá var Valdimar fimleikastjóri Háskólans og hafði yfirumsjón með íþróttahúsi hans. Af tilviljun var ég staddur hjá Valdimar þegar Guðmundur kom. Og með því að á þessum tíma æfði ég körfubolta hjá ÍS bað Valdimar mig fara með Guðmund í salinn og kenna honum að skjóta, hvað ég gerði með glöðu geði. Árangurinn varð hinsvegar ekkert sérstakur. Þess vegna VEIT ég að þetta var vítakeppni en ekki miðjukeppni. Og Albert tók þátt í henni og grýtti boltanum í spjaldið. Þegar hann skoppaði til baka tók kallinn hann á ristina, einu sinni á lofti eða svo og skaut svo. Boltinn lenti dálítið fast í nærbrúnina á körfunni, hoppaði beint upp og datt í gegn. Þakið tolldi að vísu á höllinni.
Hins vegar finnst mér gaman að sjá hvernig sögurnar hafa myndast um þetta atvik og sanna að það er stundum lítið að marka sjónarvotta. Sérstaklega finnst mér skemmtilegt kommentið frá manninum sem heldur að hann hafi verið þarna og getur því staðfest að skotið hafi verið frá miðju. Ef einhver heldur svo að mig misminni má auðvitað geta þess að Albert minnist á þetta atvik í ævisögu sinni og þar kemur enn fram að um vítakeppni var að ræða.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.2.2010 kl. 17:31
Ég gæti skrifað langan lista um atvik úr leikjum Stjörnuliðsmanna og geri það kannski síðar.
Þessi dæmi eru bara tvö af ótal snilldartilþrifum sem þessi snillingar sýndu, enda valinn maður í hverju rúmi þótt liðið væri skipað alveg einstaklega ólíkum einstaklingum.
Ómar Ragnarsson, 20.2.2010 kl. 23:53
Mér finnst styttan af Albert hrein hörmung. Ekkert fótboltalegt við líkamsstöðuna.
Eins finnst mér verðlaunabikarinn fyrir Íþróttamann ársins, vera brandari ársins og eiginlega bara til skammar. Ég bíð eftir því að pínulítil fimleikadrottning fá þessi ósköp í fangið
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.2.2010 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.