26.2.2010 | 20:57
Dæmigerðar íslenskar samræður.
(Ég vil í upphafi þessarar færslu benda á aðra nýrri myndskreytta færslu um séríslenskt fyrirbæri í umferðinni sem getur verið lífshættulegt, samanber eigin reynslu.)
Í dag hef ég átt athyglisverðar samræður við fólk sem hefur lagt bílum sínum í stæði fatlaðra þótt það sé ófatlað sjálft.
Ástæðan var sú að ég átti leið í apótek í verslunarmiðstöð hér í borginni þar sem mjög stutt er frá stæðum, sem sérmerkt eru fötluðum inn í lyfjaverslunina. Búið var að moka allt bílastæðið og gangstéttirnar og við verslunarmiðstöðina eru tvö samliggjandi blálituð stæði með einu merki sem vísar til þess að þessi stæði séu ætluð fötluðum.
Engu að síður er erfiðara að fara um á hækjum heldur en var fyrir nokkrum dögum, en þessar vikurnar telst ég vera liðsmaður í hækjuliðinu.
Þegar ég kom þarna fyrst að voru bílar í öllum stæðunum, sem voru næst innganginum, og varð ég því að leggja mínum bíl nokkuð fjarri.
Það hefði svo sem verið í góðu lagi undir venjulegum kringumstæðum en þegar ég hafði hökt á hækjunum að innganginum sá ég að hvorugur bíllinn, sem var í stæðunum sem voru ætluð fötluðum, var með merki fatlaðra í gluggum.
Brátt kom fyrri bílstjórinn út úr versluninni og ég spurði hann hvort hann vildi ekki þiggja hjálp mína vegna fötlunar sinnar. Samtalið í framhaldinu var athyglisvert:
Maðurinn: Hvaða stælar eru nú þetta?
Ég: Jú, ég hlýt að bjóða þér aðstoð, ég geri það alltaf þegar menn eins og þú leggja í stæði fatlaðra.
Maðurinn: Ég reiknaði ekki með því að fatlaðir væru á ferðinni í svona færð.
Ég: Ég er nú samt á ferðinni.
Maðurinn: Það er nú ekkert að marka þig!
Ég: Heldurðu að ég sé að hökta á hækjum með fótinn í gifsi að gamnin mínu?
Maðurinn: Bíllinn við hliðina á mér er í stæði fatlaðra, ekki minn.
Ég: Jú, líka þinn, þetta eru tvö stæði.
Maðurinn: Ekki sá ég það þegar ég lagði hérna. Og hitt stæðið var autt þegar ég kom.
Ég: Hvernig vissurðu að það yrði autt áfram eftir að þú fórst inn? Það sést vel þegar þú lítur niður að bæði stæðin eru blá.
Maðurinn: Það er engin þörf fyrir tvö stæði fyrir fatlaða í svona veðri.
Ég: Hvernig veist þú hvort það koma einn eða tveir fatlaðir hingað? Og þurfa fatlaðir einmitt ekki frekar á stæðum sínum að halda þegar færð er erfið eða veður er ekki gott?
Maðurinn: Ég var nú mjög stutt inni.
Ég: Hvernig átti sá fatlaði að vita það ef hann kom hér akandi að þú myndir verða stutt inni?
Maðurinn: Þér kemur þetta ekkert við.
Ég: Jú, einmitt núna kemur mér þetta við.
Maðurinn sneri upp á sig, snaraðist upp í bílinn og ók í burtu. Ég hökti nú að mínum bíl og fór upp í hann, en sá að stæðið öðru megin við bláu stæðin losnaði og lagði því mínum bíl þar inn.
Ég var orðinn forvitinn um framvindu mála. Skömmu síðar kom bíll með merki fatlaðra í framglugga og lagði í merkta stæðið. Út snaraðist aldeilis ófötluð kona og skokkaði létt inn. Augjóslega var hún að misnota merki manns hennar eða annars skyldmennis.
Í beinu framhaldi af því var bíl lagt í bláa stæðið, sem hafði losnað, við hliðina á mér. Út snaraðist maður, aldeilis ófatlaður, en ég kallaði á hann út um opinn gluggann: "Fyrirgefðu, þú varst að leggja í stæði fatlaðra!" Aftur spannst skemmtilegt samtal:
Maðurinn: Þetta er ekki stæði fatlaðra. Það er bara eiitt merki hér við stæðið.
Ég: Jú, þú sérð að bæði stæðin eru blámáluð.
Maðurinn: Og hvað með það?
Ég: Ef það kemur fatlaður bílstjóri hérna, fær hann ekkert stæði nema langt í burtu.
Maðurinn: Það eru engir fatlaðir á ferð í þessu færi.
Ég: Ó, jú, sjáðu bara hækjurnar sem ég þarf að nota. Og hægri fóturinn á mér er í gifsi.
Maðurinn: Af hverju lagðir þú þá ekki í stæðið?
Ég: Af því að ég er ekki með merki í glugganum og var þar að auki svo heppinn að fá þetta stæði hér.
Maðurinn: Nú, þá ertu bara jafn merkislaus og ég og fékkst stæði hvort eð er. Hvaða nöldur er þetta í þér?
Það með var hann rokinn inn. Ég var orðinn forvitiinn um hegðun fólks og ákvað að sitja góða stund og fylgjast með.
Brátt komu bæði maðurinn og konan út og óku í burt en um leið snaraðist inn bíll sem lagði miðja vegu í auða bilið þannig að hann tók bæði stæðin. Aldeilis ófatlaður maður kom út úr bílnum og þriðja samtalið hófst:
Ég: Halló! Fyrirgefðu, - þú leggur í tvö stæði!
Maðurinn: Það er ekkert hægt að sjá það í þessu færi.
Ég: Jú, þú sérð að þetta eru tvö blámáluð stæði þegar þú skoðar þau og þú sérð álengdar að þetta er tvöföld breidd.
Maðurinn: Það var enginn í stæðunum þegar ég kom.
Ég: En það kynnu einhverjir að koma sem þyrftu að nota þau.
Maðurinn: En ég kom á undan.
Ég: Þú tekur tvö stæði sem ætluð eru fötluðum.
Maðurinn: Ég er á svo stórum bíl og ætla bara rétt að skreppa inn.
Ég: Hvernig á fatlaður bílstjóri sem kemur hér að að vita það?
Maðurinn: Það kemur enginn fatlaður hingað í svona færi.
Enn lyfti ég hækjunum og fór í gegnum svipaða rökræðu og fyrr sem virtist ekki hafa hin minnstu áhrif á þennan mann frekar en aðra sem leggja bílum svona.
Maðurinn sagðist ekki skilja hvaða erindi fatlaðir ættu á þennan stað í svona veðurlagi. Ég benti honum á að einmitt hér væri einna styst vegalengd frá stæði fatlaðra inn í lyfjabúð og að fatlaðir væru líklegri til að þurfa að versla við lyfjabúð en svonefnt heilbrigt fólk. Þá kom alveg dásmlegt andsvar:
Maðurinn: "Fatlaðir eiga að velja sér þægilegri verslunartíma en þegar umferðin er mest.
Ég: Ef þeir eru að ná í mikilvægt lyf, eiga þeir þá bara að draga það af því að þú og þínir líkar viljið versla á mesta annatímanum?
Maðurinn: Æ, ég nenni ekki svona þrasi.
P. S. Bætti við öðrum og styttri pistli með mynd í framhaldi af þessum undir heitinu: "Það var stór bíll hér áðan" og minni á enn nýjan pistil um íslenska hegðun í umferðinni sem getur verið lífshættuleg, samanber eigin reynslu.
Athugasemdir
íslendingar eru svona, fruntalegir fautar sem hafa ekki fengið tillitsemi í vöggugjöf eða lært það snemma í þessu þjóðfélagi að tillitsemi er bara fryrir hina... en ekki þá
Óskar Þorkelsson, 26.2.2010 kl. 21:24
Góður Ómar! Alltof margir leggja í stæði fyrir fatlaða, m.a. af því of fáir þora að láta fólk heyra það eins og þú gerðir!
Einar Karl, 26.2.2010 kl. 21:24
Tillitsleysi á háu stigi í íslensku samfélagi. Svo furðar fólk sig á siðleysi útrásarvíkinga.
Lilja Ingimundardóttir, 26.2.2010 kl. 21:29
Þörf áminning og ábyggilega rétta hjá þér Ómar að tillitssemi er ekki okkar sterka hlið. Spurning hvort áróður/auglýsingaherferð myndi hjálpa til við að skerpa á meðvitund fólks.
Páll Vilhjálmsson, 26.2.2010 kl. 21:30
Alveg sammála Einari Karli. Alltof fáir láta fólk heyra það.
Sæmundur Bjarnason, 26.2.2010 kl. 21:41
Akkúrat Ómar, þetta hef ég því miður allt of oft séð, er verslunarstjóri á Stór Reykjarvíkursvæðinu og er alltaf að lenda í að sjá þessa hluti, siðleysi er rétt lýsing á háttalagi þessa hóps fólks og hreinlega slæmt uppeldi, það er bara ógeðslegt að verða vitni af slíkri hegðun! sama á við um umferð á vegum, fólk kann hreinlega ekki umferðareglur í dag!!!!!
Guðmudur júlíusson (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 21:43
Sæll Ómar þessi barátta er flott, en hún þarf dómgreind. Fyrir nokkrum árum var ég að keyra ættingja minn sem bæði er fædd með mikla fötlun, en auk þess var að stíga upp úr hjólastól vegna MS kasts. Veður var eins og í gær og við lögðum að blokk sem var merkt með eitt stæði fyrir fatlaða á meðan hún kæmist inn í húsið. Út úr blokkinni kemur kona milli sennilega rúmlega sextug.
,,Af hverju leggið þið í stæði fatlaðra".
,, Af þvi að hún er fötluð"
,, Þið eruð ekki með neitt merki í bílglugganum"
Það var sama hvað leitast var að útskýra dæmið, við áttum ekki að leggja í stæði fatlaðra, þar sem hún mat fötlun ættingja míns ekki ásættanlega. Við buðum konunni ekki upp á að hún fengið að skoða þá fötluðu.
Annað er þegar makar fatlaðra misnota merkingar bíla, þegar fatlaðir eru ekki með í för.
Annars hef ég aldrei orðið var við að lögregla sekti fólk fyrir að leggja í stæði fatlaðra. Athugasemdir okkar sem tengjumst fötluðum eru mikilvægar í baráttunni, en við verðum að vera víð því búin að frá réttmæt svör.
Sigurður Þorsteinsson, 26.2.2010 kl. 21:47
Gott hjá þér,félagi, ég geri líka athugasemdir við þetta tillitslausa lið. Þú hefðir átt að taka myndir af þeim. Hef uppskorið bæði skammir og hótanir um barsmíðar ,en mér er nokk sama. Ég ætla að setja inn stutta færslu með tveimur myndum um tillitssemi ísenskra ökumanna. Það er ekki hlægt að setja myndir inn í athugasemdir . 'eg set myndirnar á bloggið mitt , Skrifað og skrafað.
Eiður Svanberg Guðnason, 26.2.2010 kl. 21:48
Íslendingar kunna ekki mannasiði þegar þeir telja að engin sjái til. Þú ert hugrakkur að taka á þessu máli á staðnum. Vonandi sér fólkið bloggið þitt og tekur það til sín (sem ég þó efast um miðað við ótrúlegt tillitsleysi sem það sýndi fötluðu fólki).
Kjartan Kjartansson (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 21:52
Mér fannst dásamleg uppgötvun sjúkrahúslæknisins , sem sagði að bílastæði fatlaðra hefðu þvlíkan lækningamátt, að flestir lamaðir sem legðu í stæðin fengju samstundis mátt og kæmu út úr bílunum léttir og liðugir.
Kolbrún Bára (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 21:59
Venjulegt íslenskt umferðarofbeldi. Í mínum huga er þetta ekki flókið, þeir sem ekki virða sérmerkt stæði fyrir fatlaða, eru ekki með greind til að hafa ökuréttindi.
Hafþór (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 22:00
Þú átt þakkir skilið fyrir að tala við þetta fólk, Ómar. Þeir sem breyta rangt komast aðeins upp með það meðan þeir sem breyta rétt leyfa þeim það möglunarlaust.
Ég hef lengi átt hund og hér í den tid lét ég það ógert að hreinsa upp eftir hann. Samt var mér ekki alveg sama og hafði samviskubit yfir þessu. Dag einn verður róni nokkur vitni að því að ég þríf ekki upp eftir hundinn. Hann hundskammar og hellir úr skálum reiði sinnar yfir mig og bankar upp á í húsi þess fólks sem átti lóðina þar sem hundurinn gerði sín stykki. Húsráðandi kom til dyranna, þakkaði rónanum, en sagðist láta málið niður falla.
Eftir þetta atvik þá hefur mér aldrei láðst að þrífa upp eftir hundinn og oftar en einu sinni hef ég hlaupið aftur út ef ég varð uppiskroppa með þrifapoka. Þetta er svo sem ekki mikið mál en ég er ævinlega rónanum þakklátur fyrir að leiða mig á rétta braut.
Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 22:01
Í Ameríku leysa þeir svona mál með mjög háum sektum- og það virkar. Ég átti þess kost að ferðast um stóran hluta Ameríku fyrir tveimur árum þar sem bílstjórinn í ferðinni hafði rétt á stæði fyrir fatlaðra. Á undantekningar var vandamálalaust að fá slíkt stæði hvar sem komið var. Engum virtist detta í hug að leggja þar án þess að hafa til þess réttindi (fatlaðamerkið) Það sýnist mikil þörf á hörðum viðurlögum (sektum) vegna misnotkunar á þessum dýrmætu stæðum fyrir fatlaða hér á landi...
Sævar Helgason, 26.2.2010 kl. 22:34
Frábær samtöl og uppátækið gott hjá þér, að storka þessu ósvífna frekjuliði. Hér í Frakklandi sér maður víða stór skilti sem blasa við bílstjórum sem leggja í merkt stæði fatlaðra. Á þeim segir: Stelir þú stæðinu mínu, losaðu mig þá við fötlun mína líka.
Væri ekki þörf fyrir ámóta merkingar sem fara ekki fyrir þeim sem þykjast ekki sjá bláu merkingarnar?
Ágúst Ásgeirsson, 26.2.2010 kl. 22:42
Það þarf að stórhækka hér allar sektir fyrir brot á Umferðarlögunum.
Þorsteinn Briem, 26.2.2010 kl. 22:44
Þið getið ekki fullyrt að fólk sé að misnota fatlaða merki annarra. Sjálf er ég með svona merki í glugganum, fæ illt auga margra þegar þeir sjá mig leggja í þessi stæði og út úr bílnum kemur ung stúlka sem lítur út fyrir að vera heilbrigð og labbar eðlilega frá bílnum. En sannleikurinn er að ég hef rétt á þessu því ég er ekki með fullan mátt í annarri löppinni og eftir stutt labb þá fer ég að haltra og á erfitt með gang og þarf að setjast niður og safna kröftum, ég þarf því að spara á mér lappirnar eins mikið og ég get.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk er með svona merki.
Hinsvegar er ég alveg sammála um að tillitsleysi ökumanna í garð þessara stæða, ég er að lenda í því trekk í trekk að þessi stæði eru upptekin af bílum sem ekki hafa merki í glugganum, hef ég séð bíla leggja í þessi stæði og vera í þeim allan daginn eins og ekkert sé sjálfsagðara og engin gerir neitt í því.
AS (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 22:50
Skora á dómsmálaráðherra að stórhækka hér allar sektir vegna brota á Umferðarlögunum.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra, netfang: ragna.arnadottir@dmr.stjr.is
Sektir vegna brota á Umferðarlögunum
Þorsteinn Briem, 27.2.2010 kl. 00:07
Kona, sem ég sá skokka léttilega úr stórri glæsibifreið með merki fatlaðra í glugganum, sem hún lagði í stæði fatlaðra við verslunarmiðstöðina, var ekki fötluð frekar en sjálfur íþróttaálfurinn.
Leigubílstjóri, sem ég hitti, sagði að í Bandaríkjunum væri skylda að hafa mynd af viðkomandi á merkinu til þess að tryggja að hinn fatlaði notaði bílinn sjálfur en ekki einhver óviðkomandi.
Og sektirnar við brotum væru svimandi háar.
Ómar Ragnarsson, 27.2.2010 kl. 00:52
Lög og reglur eru bara rugl og fyrir aðra.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 27.2.2010 kl. 00:58
Já Ómar, virðingaleysi er þjóðar mein. Að hunsa þungaðar konur, aldraða og fattlaða er það sóðalegasta virðinga leysi sem sést alla daga.
Ég veit ekki hvernig best er að rétta við agaleysi Íslenskrar þjóðar, en held að það verði ekki gert öðruvísi en með her. Ekki lagfæra foreldrarnir það og ekki lagfæra skólarnir það og það skuluð þið sanreyna að her getur það.
Svo má fjasa um það í tuttugu ár hvernig her það á að vera, en það ræðum við kanski þegar við verðum átatíu og fimm.
Hrólfur Þ Hraundal, 27.2.2010 kl. 01:19
Er búsettur í USA og vissulega fæla háar sektir frá notkun á fötluðu stæðunum ef þú ert ekki með miðann í glugganum. Ekki öll fylki krefjast myndar af viðkomandi á miðann og er þá auðvitað misnotað. Hef séð alheibrigða unglinga á bíl ættingja leggja í fatlaða stæði.
Þessi framkoma á Íslandi, og þessi orðaskipti koma ekki á óvart, og eiga því miður sér stað á fleiri stöðum, og undir fleiri kringumstæðum. Íslendingar virðast eiga mjög erfitt með að umgangast flesta aðra, eru eins og einir i heiminum. Og auðvitað eru þeir bara rétt að skreppa og nota þessi stæði örstutt, og veðrið svo slæmt, að fatlaðir eiga auðvitað bara að halda sig heima......
AGO, 27.2.2010 kl. 04:14
Hér á Íslandi eru myndir á öllum fatlaða merkjum. Myndin er innan á þannig að hún sést ekki utanfrá, enda vill fólk ekki hafa mynd af sér í glugganum. En Ómar þú getur næst beðið fólk sem lítur út fyrir að vera alheilbrigt um að sýna þér myndina.
AS (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 10:01
Gott hjá þér Ómar. Eins og fleiri hafa bent á, mætti fólk vera ófeimnara við að gera athugasemdir þegar það horfir upp á svona lagað.
Þessum ófötluðu sem leggja í stæði fatlaðra finnst líka oftast sálfsagt að leggja upp á gangstéttum um allan bæ. Stöðumælaverðir eru áberandi í miðbænum og standa sig mjög vel, að mér sýnist. Hins vegar mætti oftar beita því úrræði að fjarlægja bíla sem er lagt upp á gangstéttum, hvað þá í stæði fatlaðra.
Stöðumælaverðir þyrftu kannski að vera öflugri við verslanamiðstöðvarnar og sekta þá grimmt sem eru svona tillitslausir og dónalegir. Misnotkun á kortum fatlaðra er líka óþolandi og þarf að gera eitthvað í því.
Jóhannes (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 10:04
Er þetta ekki alveg dæmalaust. Virðingarleysið fyrir öllu og öllum. Ef viðkomani á fjallabíl þá þarf hann helst að leggja uppi á tröppum þess húss sem er heimsókn. Þegar farið er í "ræktina" þarf að leggja svo nálægt útidyrum ræktarinnar að allir leggja meira að minna ólöglega. Svo er bílunum lagt uppá gangstétt til mikillar "gleði" fyrir fólk með barnavagna og gamalmenni í göngugrind og svo mætti lengi telja. Getur verið að þessi eigingirni sem og tillitsleysi við samferðafólkið sé einkenni á Íslendingum? Sé svo, er mögulegt að hér sé m.a. að finna rót þeirra vandræða sem nú ríða yfir þjóðina?
Að lokum. Fyrir nokkrum árum taldi ég 21 bíl sem var ólöglega lagt á leið minni úr Bankastræti eftir Austurstræti, Aðalstræti og upp á Suðurgötu. Geri aðrir betur.
Tomas H. Sveinsson (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 12:04
Ætla að skutla inn myndskreyttu viðbótarbloggi um lagningu í bílastæði.
Ómar Ragnarsson, 27.2.2010 kl. 12:33
Við högum okkur eins og óþægir krakkar, og þá á ég við mig líka, mér dettur í hug myndavelakerfi í hug, allavega gengur þetta ekki lengur, virðingarleysið er að depa okkur hér á landi.
kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 27.2.2010 kl. 13:13
Það sést nú ekki alltaf á fólki hvort það sé hreyfihamlað. Þekki fólk með mjög mikla gigt og MS sem leggja í fötluðu stæðin, þegar það gengur til og frá bílnum sést ekki á því að það sé hreifihamlað. Jú oft stutt í inngang verslunarinnar frá bláa stæðinu og fólk reynir að láta lítið bera á fötlun sinni. En ef það þarf að ganga lengra þá þarf það að hvíla sig eða þola miklar hvalir á leiðinni inn í búð.
Ég keyri stundum konu sem er hreyfihömluð af gigt. Við fáum oft illt auga þegar við leggjum í bláu stæðin og stundum erum við spurð út í merkið í glugganum. Það liggur við að við þurfum að ganga um með vottorð um örorku hennar þegar við erum á ferðinni.
Ómar, ég veit að þér gengur gott til með þessu en passaðu þig að dæma fólk eftir steríótípum. Þótt að konan hafi ekki verið fötluð eins og þú ímyndar þér að fötlun skuli líta út, þá þýðir það ekki að hún eigi ekki við fötlun að stríða.
Konan sem þú sást gæti haft gigt eða jafnvel með MS og hún átt góðan dag þegar þú sást hana.
Bjöggi (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 13:50
Hér gleymist eitt, Ómar og þið hin sem látið ykkur málið varða.
Makar hjólastólafólks (eins og t.d. ég) eru oft að SÆKJA fólkið sitt. Í Kringluna, á Landspítalann eða aðra slíka staði. Þá skokkar hinn (ekki svo mjög) léttfætti maki út úr bílnum og inn í bygginguna til að sækja sína heittelskuðu og aðstoða hana til baka í bílinn, oft með ýmsar pjönkur.
Þannig að ef bílstjórinn er með merki fatlaðra í bílnum, eru allar líkur á því að hann eða hún eigi fullan rétt á því að leggja í sérmerkt stæði - án þess að uppskera augngotur og tiltal velmeinandi vegfarenda.
Lana Kolbrún Eddudóttir, 27.2.2010 kl. 13:55
Ég held að þetta fari síður en svo batnandi! enda mórallinn sem hinir ósnertanlegu miðla með framkomu sinni ekki beinlínis til að ýta undir annað en aukið tillitsleysi og hundrað prósent sérhagsmunagæslu.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.2.2010 kl. 16:38
Þörf áminning. Þessu er vel hægt að breyta, með hugarfarsbreytingu og pistlum á borð við þennan. Hér þar sem ég bý, eru þessi stæði ekki notuð af öðrum en þeim sem hengja litla bláa merkið upp. (annars stór sekt og niðurlæging) (svo veit maður ekki hvort viðkomandi er að nota annarra manna merki)
Man vel eftir baráttu þinni Ómar um fjögurra hliða STOP skyldu. Slíkt sparar mörg umferðarljós, mörg hringtorg og svínvirka þar sem umferðarmenning er komin upp á plan nauðhyggju og tillitssemi við aðra. Rennilásinn í umferðateppu, er líka frábær aðferð til að halda ökumönnum sæmilega kúl.
Umferðarbaráttukveðjur til þín.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 27.2.2010 kl. 16:45
Þessi tillitslausa yfirgangsfrekja er á sinn hátt fötlun, þ.e. samfélagssamskiptafötlun
Þannig að þetta samfélagssamskiptafatlaða fólk, sem við erum líka við réttar aðstæður, er kannski í fullum rétti að leggja í stæði ætlað fötluðum.
Jóhannes (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 19:38
Ótrúleg saga. Og þú varst þarna stutta dagstund. Það þarf að kenna þessari þjóð siðfræði og þá er maður ekki bara að tala um útrásarvíkinga.
Guðmundur St Ragnarsson, 27.2.2010 kl. 22:21
Að nota bílastæði fatlaðra, aka utanvegar og ganga um eins og sóðar í náttúrunni eru einkenni frekrar þjóðar. Erlendir veiðimenn sem ég hef gengið með til veiða undra sig á samanklesstum bjórdósum milli steina við veiðiár, mjólkurfernum, sígarettustubbum á víð og dreif og fleiru álíka skemmtilegu. Þeir skilja þetta ekki og lái þeim nokkur. Ég persónulega held að ekkert bíti annað en himinháar fésektir. 500 þúsund kall í sekt að leggja í stæði fatlaðra. 500 þúsund kall fyrir að henda rusli á víðavang, og utanvegarakstur að yfirlögðu ráði þýddi að farartæki væri gert upptækt. Einfalt og áhrifaríkt.
Pálmi Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 23:52
Ófatlaðir eiga að sjálfsögðu ekki að leggja í stæði fatlaðra, með eftirfarandi undantekningum:
Kúlulánþegar á þingi, í skilanefndum og úr hópi aðstoðarmanna ráðherra mega leggja í stæði merkt fötluðum, auk helstu forkólfa í hinum hrundu viðskiptaveldum landsins.
Landlæknisembættið hefur gefið það út að siðblinda sé viðurkennd fötlun.
Virðingarfyllst,
Landlæknir.
Theódór Norðkvist, 27.2.2010 kl. 23:59
Takk fyrir þetta blogg Ómar og það að halda uppi þessari vörn.
Ég vona að hún gleymist samt ekki þegar þú ert hættur að nota hækjurnar.
Ég er 34ra ára gamall og lenti í alvarlegu bílslysi fyrir2 árum og afleiðingarnar urðu þær að ég þarf að notast við hjólastól í dag. Þessi stæði eru afar mikilvæg því að ég á bágt með að komast í gegnum skaflana á hjólastólnum og kalla ég þó ekki allt ömmu mína þegar kemur að því að tækla erfitt umhverfi þrátt fyrir að vera þetta mikið fatlaður: http://www.youtube.com/watch?v=lJQ5E_baKYA
Það er satt sem kemur fram í titilinum hjá þér, þetta er dæmigert fyrir agalausa, freka og dónalega þjóð sem hugsar ekki lengra en nef hennar nær.
Næst þegar ég lendi í því að klárlega ófatlaður maður sem er einn á ferð og kemur einn til baka að bílnum sínum þá mun ég kæra hann til Lögreglunnar og hringja á Vöku-bíl til að draga hann í burtu. Á meðan mun ég svo leggja mínum bíl fyrir aftan hann.
Takk enn og aftur fyrir að standa ekki á sama.
Kv,
Jón Gunnar Benjamínsson.
Jón Gunnar Benjamínsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 01:21
Sæll Ómar og takk fyrir þennan pistil, mér þótti hann svo góður og sína svo vel hvernig við erum mörg farin að hugsa í dag að ég tók mér það bessaleyfi að setja hann inná fésbókar síðu mína vona að það sé þér að meinalausu
Bestu kveðjur Gunnar F. Þórdísarson
Gunnar Freyr Þórdísarson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 04:24
Sæll Ómar, frábært framtak hjá þér og reyndar líkt þér að nenna að standa í þessu. Ég er sjálfur sjúklingur og er með svona merki í glugganum og verð var við að ófatlaðir leggi í þessi stæði, jafnvel beint fyrir framan mig. Varðandi merkin og myndir að þá er mitt merki gefið út fyrir ca 6 mán og á því er mynd af mér en hönnun merkjanna er þannig að gert er ráð fyrir að myndin snúi inn svo hún sést ekki. Það væri kannski gott að koma af stað umræðu um þetta og vona að ástandið skáni. Þakka þér fyrir að vekja athygli á þessu.
Jóhann Hannó Jóhannsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 07:32
Ég legg til að atvinnulausum, fötluðum verið boðið að hafa vinnu af því að sekta þá, sem leggja þannig.
Bjarni Sigtryggsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 10:15
Þessi hegðun og þessi svör, endurspegla þá djúpu einstaklingshyggju og þröngsýni sem hér hefur viðgengist sl. 10-20 ár.
Á Íslandi hefur til margra ára viðgengist mun meira umburðarlyndi gagnvart þeim sem virða ekki reglur sem í gildi eru í þjóðfélaginu en annarsstaðar á Norðurlöndunum. Við erum ekki refsiglöð þjóð og höfum viljað treysta fólki. Allt of margir hafa sýnt að þeir eru ekki traustsins verðir.
Kristján (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 10:32
Takk fyrir þetta blogg Ómar. Ég er alltaf í vandræðum hvernig rétt sé að nálgast fólk sem vill ekki skilja þau einföldu sannindi sem liggja að baki svona stæðum. Afskaplega margir virðast lifa bara einhvernveginn án þess að skeyta um reglur, princíp hvað þá að setja sig í spor annarra. Þakkka þér annars fyrir ræðuna þínn a þarna um daginn. Hún var frábær. BKv. Baldur Kristjánsson
Baldur Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 10:36
Þegar þetta er skrifað eru kommentin kominn í 38, og öll eru þau þess að fólk er sammála um þetta. Þetta sé óhæft. Ég er hjartans sammála enda hef ég gerst sekur um þetta (leggja í stæði fatlaðra) og það tekið það frá fötluðum einstakling.
Ég hef því upp frá því gert það sama og Ómar, og ekki vandað fólkið kveðjuna fyrir að gera þetta.
Ég hvet því alla sem að lesa þetta til að gera slíkt hið sama!
Árni Jónsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 11:01
Agaleysi ekkert annað. Ef þú gengur niður aðal verslunargötuna í Árhús sérðu ekki tyggjóklessu á stéttinni, en á Íslandi henda menn ruslu og jafnvel gera þarfir sínar þar sem þeir standa.
Ég hef sjálfur rifist við fólk þegar ég hef verið á íslandi vegna staðarvals við að leggja bíl. Og alltaf fær maður sama huggulega viðmótið "djöfullinn kemur þér það við" Jafnvel hefðarfrú á RangeRover hef ég átt í orðaskaki við þar sem mér þótti óviðeigandi að hún parkeraði fyrir framan strætóskýlið við Nóatún í Hamraborg.
Það er ekki hægt að kenna íslendungum mannasiði, því þarf að setja upp myndavélar og sekta hægri og vinstri fyrir svona umferðarómenningu. Ef að búðarferðin kostar 50.000kr í "bílastæðakennslu" lagast þetta af sjálfu sér" og fólk nennir að labba þessi 10 aukaskref fyrir peninginn.
Magnus Jonsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 11:09
Flott framtak og skemmtilegt aflestrar. Verðug áminning þess að maður þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum. Sjálfur hef ég einmitt átt það til að leggja í fötluð stæði þegar ég þykist vera að flýta mér.
kv.
Skúli
Skúli (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 11:33
Það ætti að koma upp síðu þar sem alemmingur getur sent inn myndir hvar og hvenær þeir sem ekki eru fatlaðir leggja í stæði fatlaðra.
Nú var ég að vinna hjá Bílastæðasjóði, og það voru margir eins og Ómar var að tala um, leggja í stæði án þess að vera með spjaldið. En svo má ekki gleyma því að stundum er fólk með spjald að viðkomandi eigandi er fatlaður er og er með bílstjóra
EN talandi um sektir 2.500 er ekki neitt Hef heyrt að það eigi að hækka þetta upp í 10.000 kr. Útí í USA hef ég heyrt að það er bara $300 sekt (38.520,00 kr ísl) og svo bíll dregin í burtu, ef lagt er í stæði fatlaðra.
Ísak Jóhannsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 11:44
Íslendingar eru ruddar.... frekjuhundar. Sjálfhverfan er í þjóðarsálinni eins og krabbamein. Bein afleiðing af frjálshyggju bölinu sem hefur nagað þessa þjóð að innan eins og eitur.
Jón Halldór Eiríksson, 28.2.2010 kl. 11:47
Sæll Ómar, takk f. pistilinn. Held að nú fari maður að skoða bíla sem eru lagðir í fatlaðra stæði og athuga hvort þeir séu með viðeigandi mynd. Hef reyndar aldrei séð þetta merki í bílum sem eru lagðir í stæði fatlaðra, hef oft velt því fyrir mér hvar merkið eigi að vera. Ég hlýt að komast að því á endanum ;o)
Held að ef fleiri myndu opna munninn gegn ókurteisi (í hverri mynd sem hún birtist) ætti samfélagið eftir að lagast mikið á ... næstu tíu árum eða svo. Við erum nú ekki nema um 300þúsund manns, það ætti að vera nokkuð einfalt að ná til allra, ekki satt?
Elsa (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 12:04
Góður!
Það þarf að vera góð refsing við þessu og helst að láta draga bílana í burtu á kostnað eigenda.
Ég lagði óvart í stæði fyrir fatlaða þegar ég bjó í München fyrir sirka 10 árum. Ég hafði ekki séð merkinguna á asfaltinu, þar sem stæðið var að losna þegar ég kom að og ég þurfti að bakka inn í stæðið. Svo í flýtinni sá ég ekki skiltið sem var u.þ.b. 2 metra frá kantinum. Þegar ég kom rúmlega klukkutíma seinna, var bíllinn horfinn.
Hann hafði verið dreginn í burtu.
Þetta allt kostaði mig tæp 600 mörk (um 300 Evrur eða ætli það séu ekki um 50þúsund krónur).
Síðan þá passa ég mig vel á því hvar ég legg.
Það mætti sennilega búa til þó nokkra veltu í Reykjavík út á svona.
Skapa nokkur störf ;-)
Einar (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 12:10
Það leggja svo margir ófatlaðir í stæði fatlaðra að ég er farinn að bölva inní í hausnum á mér þegar ég sé bíl í fatlaðra stæði úr fjarska, jafnvel þó að ég komist 10 sekúndum seinna að því að þarna sé fötluð manneskja að leggja haha!
Ari (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 12:11
Þetta er ótrúlegt,hrokinn og eigingirninn alveg í hámarki.Held að kreppan geri Islendingum gott,komdu framm við aðra eins og þú villt að aðrir koma framm við þig.Hef fundið þetta oft með dónaskap hjá okkar landsmönnum,eftir að hafa búið í 33 ár í öðrum löndum.Islendingar þurfa að taka sig til í hegðun.
Sigurbjörg Sigurðardóttir, 28.2.2010 kl. 12:19
Gott innlegg hjá þér Ómar. Agaleysi er íslendingum í blóð borið.. Mér er minnistæð setning sem dóttir mín sagði eftir að hafa hafið skólagöngu á Íslandi eftir að hafa búið erlendis alla sína ævi, "Pabbi, kennararnir verða aldrei reiðir" Henni blöskraði svo framkoma nemanda. Á einu ári eða svo varð hún náttúrlega samdauna agaleysinu. Þetta sést nú hvað best í umferðinni, 30% af þeim sem þar aka ættu ekki að hafa bílpróf.
Guðmundur Pétursson, 28.2.2010 kl. 12:41
Þetta er gott dæmi um íslenska sjálfsdýrkun og hroka og líklega megin ástæðna fyrir þeim vanda sem þjóðin er núna í. Spurning hvort að það eigi að kalla þessa fötlun heimsku. Ef svo er, að þá er vel skiljanlegt að þetta fólk skuli ekki sjá neitt athugavert við að leggja í þessi stæði!
Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.2.2010 kl. 12:44
Sæll Ómar og takk kærlega fyrir þessa þörfu umræðu. Hinsvegnar verð ég að taka heilshugar undir færslur 16 og 28, þar sem RÉTTILEGA er bent á það, að það er t.d. LANGT frá því að það sjáist alltaf utan á fólki hvort það eigi við fötlun að stríða eða ekki og að stundum er verið að sækja fatlaðan einstakling sem illmögulegt á með að ganga langa vegu að bifreið. Það eru margir sem búa við mjög skerta hreyfigetu eða úthaldsleysi þó þeir séu ekki í hjólastól, með göngugrind eða staf eða beri það á einhvern hátt utan á sér að eiga við fötlun að stríða. Ég er sjálf í þeim hópi að glíma við verulega hamlandi gigt með tilheyrandi orkuleysi, stirðleika og verkjum og suma dagana á ég mjög erfitt með að hreyfa mig. Ég hinsvegar þrjóskast við að fá mér bláa merkið í gluggann á bílnum mínum og efa ekki að það eigi við um fleiri. Finnst einhvernveginn ég eigi ekki rétt á henni og aðrir eigi frekar að njóta. Gigtin og allt sem henni fylgir sést ekki með nokkru móti utan á mér og ég veit af persónulegri reynslu og reynslu annarra sem þannig er statt um, að heilbrigt fólk getur ekki með nokkru móti skilið hvað maður er að glíma við. Þannig að við skulum fara MJÖG varlega í að dæma fólk og hreyta ónotum í að því að er virðist ófatlaðan einstakling.
Hinsvegar er ég fullkomnlega sammála því að það er með öllu ólíðandi að fullfrískir einstaklingar leggi í þessi fáu "fötluðu" stæði sem finna má og mér finnst þetta viðhorf, lítilsvirðingin og fordómarnir sem viðmælendur þínir opinbera, alveg með ólíkindum, þó að ég sé ekki ókunnug svona óaðlaðandi attitjúti og það komi mér í sjálfu sér ekki á óvart, því miður.
Því miður finnst mér alltof, ALLTOF margir Íslendingar bara almennt frekir, tillitslausir, einstaklingsmiðaðir, fordómafullir og dómharðir, en það er efni í heila bók.
Gerður (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 12:47
Spurning er þegar fatlaður kemur að stæði sem í hefur verið lagt af ófötluðum hvort ekki sé rétt að leyfa þeim fatlaða að leggja aftan við bíl hins ófatlaða? Kannski að viðkomandi sem í hlut á átti sig betur á yfirsjón sinni.
Annars er frekjuskapurinn ótrúlega mikill í samfélaginu. Við erum að horfa upp á fólk á lúxusbílum og jafnvel konum í dýrum loðfeldum vera að mótmæla háu bensínverði. Víðfræg eru skrif konu nokkurrar sem þótti mikið óréttlæti að hafa ekki heimild að aka gegnum Hvalfjarðargöng á dýra skúffubílnum sínum á sama taxta og fólksbílarnir. Gísli Gíslason svaraði þessari konu með mikillri kurteysi en uppskar aðeins að valkyrjan á skúffubílnum varð enn ákafari fyrir sínum skrýtna málstað.
Erlendis hefur víða verið tekin sú stefna að leyfa einungis sparneytnum bílum sem framleiða innan við 200 g af CO2 á hvern kílómetra aðgengni að miðbæjum. Þessi stefna er mjög skynsamleg. Hér á Íslandi er ekkert sagt við því að margir risastórir flutningabílar séu á ferð um miðbæinn jafnvel á risanöglum og þeir þar á ferð til að mótmæla einhverju. Þetta er ósvífin frekja sem er fyrir neðan allar hellur. Það er unnt að mótmæla á annan hátt og er þess minnst þegar Sturla vörubílsstjóri mætti í mótmæli með lítinn handvagn með kröftugum lúðri. Sturla hafði sennilega meiri árangur en tugir vörubíla enda var hann ekki að teppa umferðina, menga með útblæstri eða spæna upp göturnar.
Ótalmargt þarf að gera.
Bestu þakkir fyrir fræðandi, skemmtilegar og umfram allt mjög vandaðar bloggfærslur.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 28.2.2010 kl. 12:47
Góður pistill Ómar.
Hér í Danmörku er þetta svipað og ég hef gegnum árin lent í undarlegustu samtölum út af þessu. Ég bjó að lokum til skilti sem ég læt á bílana. Það er blátt með hjólastól á. Ég samhryggist þeim fyrst og fremst yfir að hafa gleymt skiltinu heima eða týnt því, býðst til að lána þeim bæði hjólastól og skilti þar sem við komumst svo sárasjaldan í bæinn nú orðið vegna þess að stæðin eru alltaf upptekin af ómerktum bílum. Gef þeim síðan netfangið mitt sem í islenskri þýðingu er eitthvað á þessa leið: fatlaðurígamni hjá lamaður.dk Þegar ég nota bílinn ein þá nota ég ekki skiltið, EN það hefur komið fyrir að farþegi hefur spurt mig af hverju ég noti ekki stæðið fyrir fatlaða, ég sé með skilti í bílnum. Það eru þá farþegar að heiman, því miður.
Ég get þó glatt þig með því að þetta er ekki svona útbreitt í öðrum löndum Evrópu. Við skrönglumst um allar jarðir á bílnum og meira að segja á Ítalíu þar sem fólk kallar ekki allt ömmu sína í umferðinni, þar hef ég hingað til ekki rekist á ómerktan bíl á stæði fyrir fatlaða.
Skýringar sem ég hef heyrt hingað til: Það var ekkert annað laust, ég ætlaði bara að vera smá stund, ert þú einhver lögga eða..., haltu kj... kerlingar helv.....
Í Danmörku má krefjast þess að ómerktur bíll sé fjarlægður, en við höfum hingað til ekki haft skap í okkur til að prófa það.
Guðrún Gísladóttir (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 13:06
Blessaður og sæll.
Þakka þessa þanka. Leyfi mér að benda á pistil eftir mig sem birtist í Vesturbæjarblaðinu í liðinni viku og er um skylt mál.
Svo sakna ég leiðbeininganna sem þú gafst ökumönnum oft meðan þú vars sjónvarpsfréttamaður.
Bestu kveðjur,
Örn B
Örn Bárður Jónsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 13:09
Sæll aftur.
Hér er slóðin sem ég gleymdi áðan:
http://ornbardur.annall.is/2010-02-28/a-fostu-pistill-um-agaleysi-og-hrun/#more-2097
B.kv.
Örn B
Örn Bárður Jónsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 13:11
Góður pistill Ómar
Ég er alltaf að reka mig á þessa undirlyggjandi fyrirlitningu á fötluðum - og við sem viljum láta umheiminn standa í þeirri meiningu að "paradís" sé hvergi nema hér.. allt svo líbó og dásamlegt ... ha !!!
Af hverju kærðirðu þessa frekju til lögreglunnar. Ef ég man rétt, þá liggja töluverðar sektir við að leggja í stæði fatlaðra án þess að hafa tilskilin leyfi.
Svo minnir mig að þeir sem eru tímabundið hreyfihamlaðir eiga rétt á að fá útgefið bráðabirgðarvottorð og þar með leyfi til að leggja í stæði hreyfihamlaðra.
Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 13:16
Góður pistill Ómar þetta er hlutur sem hefur lengi angrað mig Ég bíð bara eftir því að farið verði að beita sektum til þess að reyna að fá ófatlaða ofan af þessu athæfi
Andrés Ingi Magnússon (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 13:45
Frábært blogg Ómars um skort á tillitssemi í umferðinni. Það þarf að taka harðar á þessu þótt ég sé ekki alveg sammála Valrýri Björn um að spreyja merki fatlaðra á bíla þeirra sem leggja í stæði fatlaðra.
Flestir eru með ventlaskrúfjárn með loftmæli á sér, e.t.v. í lagi að losa loftið úr dekkjunum þeirra, svo þeir fái að kynnast "FÖTLUN" í smátíma, því þetta fólk er jú fatlað í kollinum ef það nennir ekki að hugsa eða labba nokkra metra í viðbót.
Annars hef ég tekið eftir því, af því að Valtýr nefnir myntkörfujeppa að þeir virðast ekki koma með stefnuljósum og aðallsjósum. Alla vega eru það flestir jepparnir sem aldrei nota stefnuljós og tíma ekki að kaupa dagljósabúnað sem kostar 5.ooo kall út í búð - kanski af því að það er ekki hægt að fá lán fyrir þeim á myntkörfu.
Guðmundur Jónsson, 28.2.2010 kl. 13:45
Ef ég, ófatlaður, legg í stæði fatlaðra, af því að ég væri að sækja inn í verslun hreyfihamlaðan ættingja minn sem ætti engan bíl? Þegar við kæmum svo út, þá væri einhver sjálfskipaður löggæslu og siðferðisvörður búin að leggja fyrir aftan bílinn minn, ef ekki látið draga hann í burtu.
Í þessu tilbúna dæmi, þá er bíllinn minn ekki merktur með merki fatlaðra, því dags daglega þá væri ég ekki að aka hreyfihömluðum ættingja mínum, eða vini, til og frá verslunum. Heldur er hér um tilfallandi greiða að ræða.
Að sjálfsögðu eiga sjálfmiðaðir frekjudallar, eins og við flest erum, ekkert með það að gera að misnota bílastæði sem er ætlað fötluðum. En, "ég-veit-betur-en-þú" siðgæðisverðir og sjálftekin löggæsla er engu minni frekja en að leggja í þessi sérmerktu bílastæði.
Gætum okkar á því að taka ekki upp sjálfskipaða löggæslu og draga að ósekju í burtu bíla. Hvað veistu um það hvort þetta sé ekki bíllinn minn og ég er að sækja inn í næstu verslun hreyfihamlaðan vin minn?
Jóhannes (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 14:15
"fatlaðir eiga ekki að fara út í ófærð" möguð rök ! en þetta er ámóta og ég heyri þegar ég læt til mín taka í þessum málum ! og það geri ég oft því mér finnst þetta HEILAGT álíka og að lofa gangandi að njóta FORGANGS ! EN eitt sem þú verður að muna að þótt fótbrotinn sé þá er er ekki sjálfkrafa réttur til að leggja í fatlað stæði ! þú veist að þú verður að fá merki til sönnunnar um HREYFIHÖMLUNN ! og vonlaust á að vera að fá merki vegna andlegrarfötlunnar sem svo margir sem leggja í þessi stæði virðast eiga við að glíma !
Svo ef hringt er í löggu þá er ca í 1:20 skiftum sem þeir koma ! annars td hér við húsnæðið sem ég bý í er eitt blámerkt stæði (sem er skilda við fjölbýli, eitt fatlað fyrir gesti) og svo fleiri ef íbúar þurfa á að halda ! en svo vill til að í húsinu er íbúð hönnuð með hjólastólaaðgengi í huga, en þar býr kona alls ófötluð .... allavegna hreyfigetan fullkomin, en svo fór að önnur manneskja hér fær fatlað merki og þau réttindi sem því fylgja, en þá fór sú ófatlaða í bardaga um stæðið sem endaði með að stæðið var merkt íbúðinni (sem er kollólöglegt, þar sem sérmerkt fötluð bílastæði skulu merkt með bílnúmeri fatlaðs einstaklings, eða semsagt sérmerkt þeim einstaklingi sem á við hreyfihömlun að glíma) en þar sem þetta er leiguhúsnæði þá voru svör leigusala á þann veg að "við eigum þessa lóð og merkjum bara eins og við viljum" !!!!! svo það er ekki eingöngu við bílstjóra að etja heldur líka missviturt fólk hér og þar sem ákvarðanir tekur !!!! td verð ég EKKERT var við að öryggisverðir td kringlu séu að vakta hverjir leggja í fötluð stæði við kringlu ! eða fötluðu stæðinn rétt við inngang Borgarspítala ! nei persónulega finnst mér þetta óásætanlegt framferði og helst ætti að svifta þá ökuréttindum sem gerast sekir um þetta oftar en einusinni ! og Ómar mundu þú VERÐUR að fá leyfi fyrir að vera fatlaður áður en þú leggur í fatlað stæði !
Gretar Eir (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 14:27
Ofbeldi bíleigenda gagnvart öðrum er stórvandamál hér á landi. Við höfum öll séð þessa vesalinga og aumingja sem leggja í stæði fatlaðra.
Ég hef horft upp á sama vandamálið allstaðar að samfélagið er orðið troðfullt af fótafúnum aumingjum sem geta ekki hreyft á sér lappirnar. Við skólann sem ég starfa í er lagt hreinlega allstaðar þar sem ekki á að leggja. Á gangbrautum, gangstéttum, grasinu (drulla), og hvar sem er einfaldlega vegna þess að ökumenn nenna ekki að labba smá spöl frá bílastæðinu sem er alltaf laust aðeins fjær skólanum.
Og þar sem gangandi vegfrarendur eiga réttinn, á gangbrautum eða svokölluðum sebra brautum, er það undantekning að bílar stoppi og hleypi gangandi vegfarendum yfir götuna eins og þeim ber að gera.
Ef það er eitthvað sem lögreglan mætti leggja áherslu á og taka vel á að sekta ökumenn fyrir þá vantar sérstaklega að kenna ökumönnum að virða rétt gangandi vegfarenda við gangbrautir og fatlaðra... Þar mætti virkilega taka til hendinni og sekta ökumenn miskunnarlaust.
Baldvin Björgvinsson, 28.2.2010 kl. 14:34
Mér hefur aldrei komið til hugar að leggja í stæði fatlaðara, frekar legg ég í næstu götu.
Ég hef kannki búið of lengi erlendis :-)
Guðmundur Pétursson, 28.2.2010 kl. 14:35
Varðandi framangreint er ég sammála því að einhver taki sig nú til og komi því á framfæri við þar til bær yfirvöld að STÓR hækka sektir við öllum umferðalagabrotum. Þeir sem komast upp með að t.d. leggja í stæði fyrir fatlaða, víla síðan ekki fyrir sér að brjóta aðrar reglur í umferðinni. HÆRRI SEKTIR SVO ÞAÐ SVÍÐI það hálpar til.
Svo er það önnur hugmynd sem mig langar til að koma á framfæri. Einhver hinna íslensku fjölmiðla ætti að koma upp föstum dagskrárlið (einu sinni í viku hjá sjónvarpi og daglega hjá dagblöðum) þar sem fréttamenn auk alls almennings geta sent inn myndi af einhverju sem þeim blöskrar í umferðinni og umfram allt, að skrásetningarnúmer viðkomandi bíls sé vel læsilegt.
Tomas H. Sveinsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 15:08
Sektir við því að leggja í stæði fatlaðra mættu jafnvel vera svo háar að þær stæðu undir kostnaði við hjálpartæki í landinu.
Baldvin Björgvinsson, 28.2.2010 kl. 15:35
sektir eru allra meina bót.. hár sektir vekja dauða upp og gera alls konar kraftaverk...
Óskar Þorkelsson, 28.2.2010 kl. 15:40
Háar sektir eru fyrirbyggjandi, en það verður að innheimta þær líka. Lögreglan skiptir sér nánast aldrei af bílum sem lagt er ólöglega og stöðumælaverðir sjást nær aldrei nema í miðbænum. Lögregluþjónar - Sýnið hvað í ykkur býr. Notið sektarblokkina. Stöðumælaverðir-Látið ekki óprúttnar hótanir geðveillra ökumanna draga dug úr ykkur. Ef við hjálpumst öll að þá vinnum við þetta líka
Tómas H Sveinsson, 28.2.2010 kl. 16:18
Stundum eru aðstæður þannig við Austurver að auðvelt er að komast hinan fáu metra frá hinum merktu stæðum fyrir fatlaða en getur verið erfitt að komast leiðar sinnar frá stæðum sem fjær liggja.
Röksemdin varðandi það að fatlaðir eigi erfitt með að komast um í slæmri færð er því kolröng.
Þvert á móti er það oft þannig að hinn fatlaðri kemur frá húsi eins og til dæmis við Hátún, þar sem auðvelt er fyrir þá að komast akandi í burtu, og gott aðgengi að verslunarmiðstöð eins og við Austurver gerir honum fært að komast vandræðalaust inn þar.
Ef færðin er slæm þarna á milli eru stæðin merktu því nauðsynlegri fyrir fatlaða í slæmri færð en góðri.
Minni síðan á nýjan pistil um afleitan íslenskan ósið í akstri á akreinum.
Ómar Ragnarsson, 28.2.2010 kl. 19:09
einhverntíman varð ég ásamt 3 ungum börnum mínum vitni að því að lagt var í svona stæði merkt fötluðum þar sem við komum út úr verslunamiðstöð , og maðurinn sem kom út úr bílnum var ekki sýnilega hreyfihamlaður á neinn veg, en gekk rösklega frá bílnum. Krakkarnir ræddu það þegar við ókum af stað að þessi maður væri örugglega bara fatlaður í höfðinu, fyrst hann notaði svona stæði því hann væri ekkert fatlaður í líkamanum.
Svana (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 19:34
Frábært framtak hjá þér Ómar því ég verð alltaf alveg brjáluð inni í mér þegar ég sé ómerkta bíla í stæðum fatlaðra. Ég skutlaði oft afa mínum í Mjóddina þegar hann var á lífi og þá ók ég honum upp að húsinu og fór svo sjálf og lagði í stæði fyrir heilbrigða einstaklinga og ef hann vildi aðstoð mína inni þá fór ég út á undan honum og sótti bílinn þegar við vorum búin. Annars beið ég bara og keyrði að honum þegar hann var kominn að útidyrahurðinni. Það er því engin afsökun fyrir því að leggja ófatlaður í stæði fatlaðra, hvort sem maður er að sækja aðra eða af eiginhagsmunum! Smá hreyfing gerir okkur heilbrigðu ekkert illt og fólk þarf að venja sig á að leggja í laus stæði en ekki í stæði fatlaðra. Ég hef lofað sjálfri mér því að næst þegar ég sé ómerktan bíl í stæði fatlaðra þá ætli ég að hringja á lögguna. Ef manneskjan er að sækja fatlaðan eða er virkilega hreyfihamlaður án þess að vera með merki þá get ég alveg bakkað en yfirgangurinn og frekjan er orðin svo mikil í þjóðfélaginu að við verðum að bregðast við og verja minnimáttar. Takk kærlega fyrir að styðja við þá Ómar!
Linda Björk Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 20:14
Takk fyrir pistilinn, á þig er hlustað. Ég er amma tveggja fatlaðra stúlkna sem eru háðar hjólastól og það er nú nóg þó ekki þurfi að koma til árekstrar við ófatlaða út af bílastæðum en í okkar fjölskyldu eru til allnokkrar sögur af slíku, meira að segja við foreldra ófatlaðra nemenda í grunnskólanum þeirra. Ég útbjó miða til að setja undir þurrkublöð á bílum sem lagt er ólöglega og vildi gjarnan senda þér í viðhengi en bloggið bíður ekki upp á slíkt. Þeir eru hannaðir að erlendri fyrirmynd og ef þú hefur áhuga á að fá eintök þá hafðu samband.
Kveðja Áslaug
Áslaug Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 21:40
Takk, Ómar.
Það grátlega er hversu málið er auðleyst. Hegðun bílafólksins er bara yrfirleitt þannig að hún gæti sennilega ein og sér staðið undir öllum kostnaði við löggæslu í landinu. Kannski þarf að hækka sektir, en mikilvægast er þó að innheimta þær.
15 ára sonur minn hlakkar til að fá bílpróf. Í undirbúningsskyni hef ég vakið athygli hans á öllum "löggupeningum" sem fara fyrir lítið, t.d. þegar fram úr okkur fer bíll á 20-30 meiri hraða en leyfilegur. Drengurinn hefur reyndar áttað sig svo vel á þessu að hann gerir það iðulega sér til gamans að leggja saman "löggupeninga".
Auglýsingasölumenn eru gjarnan á prósentum. Umferðalögreglumenn gætu haft góðar tekjur á prósentum. Ég skrifaði reyndar lítinn bloggpistil um þetta fyrir ekki löngu. Og miðað við þessa skemmtilegu frásögu þína leynist greinilega stór fjárveiting til lögreglunnar einmit í þessum stæðum sem merkt eru fötluðum.
Jón Daníelsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 04:28
jahá Jón Daníelsson.. lögga á prósentum við sektarinnheimtu ! Halló er ekki allt í lagi heima hjá þér vinur ? Þetta hefur verið margreynt erlendis og alltaf með slæmum árangri.. því löggan er spillt nákvæmlega eins og almenningur í þessu volaða landi.
Óskar Þorkelsson, 1.3.2010 kl. 05:07
Mér finnst þetta alltaf jafn fáránlegt.
Ég reyndar stóð í þeirri trú að þetta væri ekki mikið vandamál hér á landi. Ég hef reyndar ekki verið svo óheppinn að teljast til fatlaðra, en þar sem ég fer í skóla í H.Í. eru fatlaðrastæðin yfirleitt laus jafnvel löngu eftir að allt annað er orðið fullt og fólk þarf að leggja langt í burtu.
Svo ég hef alltaf talið að Íslendingar væru alveg sérstaklega tillitssamir með þetta. En kannski eru það bara háskólanemar sem eru það. Eða kannski hef ég bara ekki fylgst nógu vel með.
En þetta eru einhvern vegin svo týpísk tilsvör fávita sem þú hefur týnt þarna til, fólk sem er eiginlega alveg skítsama um aðra og nennir ekki að hlusta á eitthvað nöldur um að það sé líklega bara algjör fífl.
Mér finnst þetta voðalega leiðinleg saga um íslenskt mannlíf.
Alexandra Briem, 1.3.2010 kl. 11:55
Ég freistaðist eitt sinn fyrir mörgum, mörgum árum að leggja í stæði fatlaðra fyrir framan einhverja verslun. Vissi vel að ég var að gera rangt, en ætlaði að vera svo stutt inni að ég hélt að þetta myndi ekki gera neitt til. Þegar ég kom út beið fatlaður bílstjóri eftir stæðinu og sendi mér þvílíkt ásökunaraugnaráð að það pikkfestist á samviskunni.
Síðan hefur ekki hvarflað að mér að leggja í stæði fatlaðra - og reyndar ekki heldur í önnur merkt stæði ... þannig að ... í mínu tilfelli dugði eitt augnaráð til að leiðrétta mig og villu míns vegar í þessum málum.
Ef allir sem hér koma með athugasemdir myndu gera eins og þú, Ómar, láta sig málið varða og spjalla við fólk sem leggur í stæði fatlaðra, þá værum við fljót að útrýma þessum ósið. Ég efast til dæmis ekki um að þeir ófötluðu sem þú talaðir við og vissu upp á sig sökina (en reyndu e.t.v. að verja sig með hortugheitum) munu hugsa sig tvisvar um næst þegar þeir sjá laust stæði fyrir fatlaða.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 12:02
Góður pistill, Ómar! Takk! Gaman líka að sjá hversu margir eru á sömu skoðun og þú varðandi þessa misnotkun á stæðum ætluðum hreyfihömluðum. Margt ber þó að hafa í huga, t.d. - eins og nokkrir hafa bent á - að ekki sést alltaf á viðkomandi að hann sé hreyfihamlaður. Ég sjálf tilheyri þessum hópi og finnst oft mjög óþælilegt að fá ill augnaráð þegar ég verð að nota slíkt stæði vegna þess að önnur "góð" stæði voru ekki laus. Vil ég miklu frekar að fólk nefni þetta við mig, get ég þá útskýrt að ég sé fötluð, en þakka fólki um leið fyrir að passa að einungis fatlaðir noti þessi stæði.
Þeim sem skrifaði að hann skutli stundum fötluðum ættingjum vil ég benda á að hinn fatlaði á alltaf að hafa skiltið með sér, það er ekki merkt bílnum lengur, heldur einstaklingnum. S.s. hægt að nota í hvaða bíl sem er.
Varðandi sektina fyrir að misnota stæðin, þá er hún einungis 2.500kr mínus afsláttur ef borgað er fljótt! Auðvitað ætti sektin að vera hærri.
Að lokun áskorun til fatlaðra, EKKI hefna ykkur á lögbrjótnum með því að leggja fyrir aftan hans bíl! Slíkt gæti flokkast undir ofbeldi og er málstaðnum alls ekki til framdráttar.
Smá grín um stæði fatlaðra:
http://www.youtube.com/watch?v=5BI6FY4HE5o
Guðbjörg (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 14:28
Ágætis dæmi um það fólk sem leggur í bílastæði ætlað fötluðum:
Fyrir nokrum árum var ég á þrekhjóli í líkamsræktarstöð í Hafnarfirði, sem var á þriðju hæð í húsi sem einnig var svæðisskrifstofa fatlaðra. Þarna er ég að púla og horfi útum gluggan og sé hvar maður kemur á Land Cruiser jeppa og leggur í fatlaðrastæði beint við innganginn. Hann snarar sér út alveg stráheill og grípur með sér íþróttatöskuna, greinilega á leiðinni í ræktina. Það voru ótal bílastæði laus hinum megin á bílastæðinu sem hafði einungis 2 raðir. Þannig að þessi maður sem þurfti á sinni hreyfingu að halda gat ekki lagt um 10 metrum lengra þar sem næsta lausa stæði var.
Eins og ég sagði þá er svæðisskrifstofa fatlaðra í þessu húsi og var því venjulega mikil umferð fatlaðra í þessum stæðum.
Ég sé enn þann dag í dag eftir því að hafa ekki tekið á móti honum við innganginn á ræktinni og óskað honum til hamingju með þennan kraftaverksbata.
Andri (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 16:07
Sæll Ómar,
Frábært að vekja upp þessa umræðu, það að fullfrískt fólk skuli leggjast svo lágt að leggja í fatlaðrastæði er bæði sorglegt og alveg ótrúlega tillitslaust. Sumt fólk hugsar bara aldrei um aðra en sjálfan sig (ef það þá hugsar yfirhöfuð).
Ég vil samt taka undir það sem aðrir hafa bent á hér að ofan, að það sést ekki alltaf á fólki að það eigi við einhverja fötlun/hreyfihömlun að stríða. Þannig áður en að þið sendið morð-augnaráðið, tékkið þá á hvort viðkomandi sé með skilti í framrúðunni eða spjallið kurteislega við viðkomandi.
Ég er sjálf með svona skilti enda fædd með vöðvahrörnunarsjúkdóm og á erfiðara með gang en fullfrískt fólk. Ég forðast það hins vegar eftir fremsta megni að leggja í stæði fyrir fatlaðra því að á jafnsléttu og í góðri færð þá munar það mig ekki öllu að leggja aðeins frá. Stundum, og þá sérstaklega í færð eins og er núna, neyðist ég þó til þess enda á ég erfitt með að ganga í snjó og veit ekki hvort ég gæti staðið upp aftur ef ég dytti í hálku. Lagði í eitt slíkt stæði í dag fyrir utan Háskóla Íslands og uppskar einmitt mjög undarlegt augnaráð frá stelpu í næsta bíl þegar ég steig út. Það var einstaklega óþægilegt. Grunar að þar hafi ég verð dæmd að ósekju.
Til þessara manna sem þú ræddir við og annara sem leggja í fatlaðrastæði án þess að eiga rétt á því: Víst eru hreyfihamlaðir á ferð í svona færi eins og í dag! Við getum ekki hætt að lifa þó svo það snjói. Við búum jú á Íslandi. Við kannski forðumst það eftir bestu getu en við þurfum þó að fara til vinnu og náms eins og aðrir. Einnum þurfum við að versla í matinn og því um líkt. Í færð eins og þessari þurfum við sérstaklega mikið á þessum sérmerktu stæðum að halda, það munar okkur ÖLLU að hafa þau. Ekki ræna þeim af okkur.
Salóme Mist (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 22:50
Frábært framtak! Ég vil sjá meira um þetta mál í fréttunum eins og í gærkvöldi!
Ég er ófötluð og er ekki hreyfihamlaður einstaklingur í minni fjölskyldu en ég verð mjög pirruð og reið þegar ég sé fólk leggja í stæði sem er sérmerkt hreyfihömluðum. Ég þarf stundum að leggja langt frá verslun og er með þrjú ung börn með mér í vonsku veður en ekki dettur mér í hug að leggja í þessi stæði. Það þarf að hækka sektirnar og lögreglan þarf að vera duglegri að sekta svo það kannski komist inn í þykka haus þess fólks að þetta er ekki stæði fyrir þau.
Haltu áfram að ræða þetta og ég vil sjá meira i sjónvarpinu!!!
D. Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 08:56
Ég er víst ein hinna bersyndugu sem lagði í þessi stæði á þessum tíma. Hef það eitt mér til afsökunar að mér lá á í hraðbanka og stoppaði þarna í ca 3 mínútur. En skammast mín ógurlega...... :(
Kristín (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 09:18
Sko ... sagði það ... Kristín gerir þetta aldrei aftur.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.