27.2.2010 | 12:29
Hvað gerðu nágrannar og ættingjar af sér?
Svo að því sé til skila haldið hef ég sótt tugi mótmælafunda og lét heyrast vel í "búsáhaldi" mínu í Búsáhaldabyltingunni. Einnig gengið í fjölmennri mótmælagöngu um miðborgina.
En aldrei hefur mér dottið í hug að sýna nágrönnum og ættingjum fólks þá ósanngirni að láta það gjalda fyrir eitthvað sem mér hafi mislíkað hjá ráðamönnum eða öðrum.
Ef einhver slíkur ætti heima í sama stigagangi og ég í blokkinni sem ég bý í, þætti mér það hart að vera vakinn með látum á frídegi vegna þess að einhverjir ættu sökótt við nágranna minn í næstu íbúð og ryddust upp stigann til að láta hann finna fyrir því.
Ef það væri ég sjálfur sem þyrfti að tugta til þætti mér það ekki réttlátt að slíkt yrði gert þegar börn mín eða barnabörn eru hjá mér í heimsókn.
Mér finnst einfaldlega að það eigi að láta fólk í friði heima hjá sér samanber lög um friðhelgi heimiilsins.
Enginn vandi á að vera að nálgast viðkomandi ráðamenn annars staðar. En tilgangurinn helgar hér greinilega meðalið og ljósmyndarar og fjölmiðlamenn láta rífa sig upp til að taka myndirnar sem sóst er eftir að verði birtar með fyrstu fréttinni í hádeginu.
Vöktu Steingrím J. Sigfússon | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nákvæmlega...
hilmar jónsson, 27.2.2010 kl. 13:02
Ég virði fullkomlega þína afstöðu Ómar. En það mun nákvæmlega ekkert gerast ef takmarka á mótmælin gegn gengistryggðu lánunum við grastorfuna á Austurvelli.
Það verður einfaldlega ekki liðið lengur að opinberir einstaklingar sem eru á framfæri skattgreiðenda geti skellt skollaeyrum á milli níu og fimm og skýlt sér svo á bak við friðhelgi heimilisins þess á milli... hvað um friðhelgi heimila þúsunda einstaklinga sem Steingrímur og Jónanna hafa virt að vettugi og eru að fleygja á götuna með aðgerðarleysi sínu.
Ef stjórnvöld fara ekki að hlusta, hef ég trú á að mótmælin fari hratt vaxandi og geti þess vegna tekið á sig nýjar og óþekktari myndir.
Atli Hermannsson., 27.2.2010 kl. 13:32
Sammála þér Ómar....Vona að Hilmar (eins þú:) sé líka sammála að Davíð Oddsson hefði líka átt að fá frið heima hjá sér í fyrra..en þar var bara skrílslæti gagnvart honum...veit ekki hvort voru mikil (skríls)læti í morgun...Bestu kveðjur...
Halldór Jóhannsson, 27.2.2010 kl. 13:36
Þessi mótmæli eiga fullann og allan rétt á sér, þótt svo að Steingrímur sé heima hjá sér þá er líka fjármálaráðherra landsins þegar hann er þar, honum býðst ekki sá lúxus að skilja titilinn eftir á skrifstofuni þegar hann fer heim. Ég fæ engan frið fyrir innheimtumönnum, rukkurum og lögfræðingum heima hjá mér, honum er enginn vorkunn.
Þessi stífi hugsunarháttur eldri kynslóða um hvernig eigi að mótmæla er blessunarlega á undanhaldi, vissulega ber að sýna tilhlýðilega virðingu gagnvart náunga sínum en þrælslund og þrælsótti er að hverfa sem betur fer. Ef að pólitíkusar eru ekki að standa sína plikt þá eiga þeir að finna að þeir eru ekki stikkfrí heima hjá sér frekar en aðrir.
Skríll Lýðsson, 27.2.2010 kl. 14:00
"Stífi hugsunarháttur eldri kynslóða..." Jæja? Vitið þið um eitthvað annað land þar sem stjórnmálamenn eru hundeltir heim til sín af mótmælendum?
Hafa menn séð það sem fyrstu fréttir í fjölmiðlum erlendis að slíkt hafi verið gert þar?
Skoðun mín á þessu hefur ekkert með persónur að gera. Ég var þessarar skoðunar þegar aðsúgur var gerður að heimili Davíðs Oddssonar á sínum tíma.
Ég minni á að Búsáhaldabyltingin fór einmitt fram á "grastorfunni á Austurvelli" og við þær stofnanir sem hlut áttu að hruninu.
Ómar Ragnarsson, 27.2.2010 kl. 22:26
Stjórnarskrá Íslands:
71. gr. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu."
Þorsteinn Briem, 28.2.2010 kl. 03:12
Steini, þú gleymir athugasemdinni við 71. gr sem fjallar um skilgreiningu á Friðhelgi Einkalífs, heimilis og Fjölskyldu.
Ekkert talað um að það megi ekki hafa hátt og vekja fólk. Annars væri hellingur af skrúðgöngum snemma um morgun ólöglegar en ég hef verið vakinn oftar en einu sinni útaf skrúðgöngum sem hafa farið um götuna mína með látum.
Hvað þessi mótmæli varðar þá hef ég ekki hugmynd um klukkan hvað þetta var eða hvað þau höfðu hátt en ég veit að það er nú varla hægt að skýla sér bakvið Friðhelgi Einkalífsins útaf þessu, reyndu að leita að einhverjum reglugerðum sem talar um hávaða á almannafæri frekar
Jóhannes H. Laxdal, 1.3.2010 kl. 08:38
Jóhannes H. Laxdal.
"... engar takmarkanir [eru] settar við því að halda friðsamlegar útisamkomur svo lengi sem þær valda ekki ónæði eða raska næturró."
"... menn mega ekki safnast saman hvar sem er. Menn verða að hafa umráð þess staðar, salarkynna eða útisvæðis þar sem samkomu á að halda eða fengið til þess leyfi réttra aðila. Það verður meira að segja ekki talið að menn megi safnast saman á landsvæði í almenningseign ... nema umráðamenn þess landsvæðis leyfi."
"Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 74. gr. stjskr. [um rétt til að safnast saman] gæti lögreglan lagt bann við því að fundur væri haldinn á götum úti ... eða annars staðar þar sem hann truflaði umferð enda þótt ekki væri hægt að segja að af honum stafaði óspektahætta, sbr. Hrd. 1974, bls. 413."
"Í löggjöfinni má sjá ýmis lagaákvæði sem veita einkalífi manna ... vernd. Sem dæmi má nefna sérstaka refsivernd í XXV. kafla alm. hegnl."
"Friðhelgi heimilisins er talin á eftir friðhelgi einkalífs í 1. mgr. 71. gr. [stjskr.] Þegar rætt er um heimili í þessu sambandi er fyrst og fremst átt við dvalarstað manns þar sem hann býr að staðaldri og geymir persónulega muni sína.
Gildissvið ákvæðisins hefur þó ekki verið bundið við heimili í þröngum skilningi heldur er einnig litið svo á að hér undir falli skrifstofa manna, verslunarhús, verkstæði, bílskúr og þess háttar sem maður hefur rétt til að loka af og hamla öðrum aðgang að. Sama máli gegnir um skip og önnur farartæki, svo sem bifreiðar og flugvélar."
Gunnar G. Schram, Stjórnskipunarréttur, önnur útgáfa 1999.
Þorsteinn Briem, 1.3.2010 kl. 10:31
Þetta var nærra lagi Steini
Jóhannes H. Laxdal, 1.3.2010 kl. 19:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.