"Það var stór bíll hérna áðan..."

Í framhaldi af pistlinum "Dæmgerðar íslenskar samræður" læt ég fljóta hér með smá viðbót.

Fyrir nokkrum dögum kom ég að útibúi Landsbankans í Kópavogi. Þetta er allstór bygging og mikil umferð fólks oft á tíðum. Jörð var auð, gott veður, og allar merkingar bílastæða sáust vel. 

Beint fyrir utan anddyrið eru tvö stæði sérmerkt fötluðum en leigubíl hafði verið lagt þannig að hann var skakkur og skagaði meira en helmingur afturenda hans inn á stæði fyrir fatlaða en framendinn var að mestu inni á stæðinu við hliðina.

Ég lagði fjær og hökti að bílnum. Enginn farþegi var í honum. Ég spurði hvort fatlaður farþegi hefði verið í bílnum. "Nei", sagði bílstjórinn.  

"Af hverju leggurðu inn á stæði fyrir fatlaða? " spurði ég. "Af því að það stóð stór bíll hérna áðan" var svarið.   

Ég spurði ekki frekar um það hvers vegna bíllinn þyrfti tvö stæði, þótt mér þætti skrýtið að leigubíllinn þyrfti að standa svona vegna bíls sem væri farinn í burtu.

Greinilegt var að það hafði verið allt of erfitt fyrir bílstjórann að færa bílinn til eftir að stóri bíllinn var farinn. 

Ég fór síðan inn í bankann og var þar í ca 10 mínútur en þegar ég kom út hafði leigubílstjórinn að vísu þokað bílnum aðeins til þótt honum væri greinilega um megn að að leggja almennilega og stóð bíllinn enn út yfir línuna sem markaði bílastæðið.

P1011223

Sjálfur var bílstjórinn farinn og af því mátti ráða að hann væri ekki með farþega heldur að sinna eigin erindum.

Afsökunin "það stóð stór bíll hérna áðan" er ekki ný í mínum eyrum.

Læt fylgja hér mynd af jaðri bílastæðis þar sem sést að sá bíll,sem yst stendur, hefur ekki verið þvingaður að neinum til þess að standa það langt frá gangstéttinni að hann riðlar öllu fyrir næstu bílum.

Tókst einungis að nýta mér rúmlega hálft stæðið við hliðina á honum af því að ég var á ferli á minnsta bílnum sem þá var í umferðinni.

Það er ekki eins og þessi grái bíll sem er svona frekur til rýmisins sé einhver dreki. Nei, þetta er smábíllinn Toyota Yaris, en svo er að sjá sem ökumaður hans hafi misskilið auglýsinguna um að þessi bíll væri "risasmár."  

Svo "risasmár" að ef ég hefði ekki getað smokrað mínum örbíl þarna inn,  hefði hinn "risasmái" bíll tekið upp tvö stæði.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er orðið alltof algengt og maður veltir því hreinlega fyrir sér hvort fólk kunni yfir höfðu að leggja bílum almennilega, hversu „risasmáir“ þeir eru...

Ég varð vitni að mjög svo furðulegu atviki hér á Akureyri fyrir skemmstu þar sem ég ók inn á bílastæðið hjá Vínbúðinni á Akureyri og gerði mig líklegan til þess að leggja í stæði merkta fyrir fatlaða (var með fatlaða manneskju í bílnum). Rétt áður en ég keyri inn í stæðið kemur leigubíll frá BSO og leggur 2/3 uppá gangstétt og 1/3 inná stæði ætluðu fyrir fatlaða.
Þetta gerði það að verkum á ég gat ekki nýtt stæðið því bíllinn sem ég var á er stór og með hjólastólalyftu útúr hliðinni. Hér má sjá mynd af þessari stórkostlegu lagningu...

Haraldur Helgi (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 16:59

2 identicon

Það er sorglegt að heyra þessar frásagnir af bílastæðamálum í borginni. Það er erfitt að hugsa til þess að fólk að hafi ekki skilning á þörfum fatlaða þegar snýr að þessu málefni. Ég ætla rétt að vona að það það sé aðeins lítill hópur fólks sem hagar sér á þennan hátt.

Egill Daði Angantýsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 00:13

3 identicon

Það verður að viðurkennast að þessi svör mannanna bera vott um fötlun, en sú fötlun veitir mönnum víst ekki rétt til stæðanna.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 00:29

4 identicon

Þarna ertu Ómar að taka á ótrúlegu tillitsleysi og dónaskap fólks, gagnvart þeim sem þurfa að reka erindi sín, hvort sem það er í bönkum eða apótekum eða hvar sem er.  'Eg hef verið fötluð í 3 ár og rek mig sífellt á þetta tillitsleysi.  Oft er um að ræða bíla sem eru þannig úr garði gerðir að engin líkamlega fötluð manneskja á möguleika á að setjast inn í þá.  'Eg er ekki mikið fyrir að tjá mig á opinberum vettvangi, en í þessu tilfelli blöskrar mér og tel að harðar þurfi að taka á brotamönnum sem virða ekki aðgengisrétt fólks í sínu daglega lífi.  Nóg er nú samt að búa við fötlun.

Anna B. Ólafsdóttir

Anna B. Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 15:09

5 identicon

Mér finnst að svona ætti bara að fara beint í fréttirnar! Að fólk skuli komast upp með svona er algerlega óhægt og ekki Íslandi bjóðandi! Auðvitað eru alltaf einhverjir sem hafa "afsökun", t.d. með fatlaðan farþega, en ég skýt á að meginþorri þessa fólks sem leggur í þessi stæði merkislaust séu bara dónar og ekkert annað! Gera enn meira úr þessu Ómar! Ef einhver getur það þá ert það þú!

Marína Ósk Þórólfsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 17:41

6 identicon

Ég hef mikið spáð í það að búa til Facebook síðu eða einhverja aðra síðu sem ber heitið. "You park like an idiot"/"Þú leggur eins og hálfviti".  Vera svo með myndavélina á mér og taka myndir af öllum vitleysingunum sem kunna ekki að leggja í stæði og birta á þessari síðu. 

Meira að segja væri gaman að eiga límmiða til að líma á bíla sem stendur þetta sama á.

Ég veit til þess að útá Ítalíu eru menn sektaðir ef þeir leggja ekki á milli stæðislínana.

 Kveðja

Þengill 

Þengill Ólafsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 12:51

7 identicon

mig hefuralltaf langað til að til svona límmiða

stupidity is not a handicap

Maggi (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband