Hvaða besti sjónvarpsmaður tapaði fyrir Þóru?

Ruglið með sagnirnar að vinna og sigra náði nýjum hæðum í frétt Bylgjunnar í hádeginu í dag af veitingu Edduverðlaunanna í gær. 

Fréttamaðurinn sagði frá samfelldum hrakförum bestu sjónvarpsmanna og kvikmyndagerðarmanna með því að nefna nöfn þeirra sem hefðu unnið þá.

Nýjum hæðum náði þessi rökleysa þegar sagt var: "Þóra Arnórsdóttir vann besta sjónvarpsmanninn." 

Hver var þessi besti sjónvarpsmaður sem tapaði fyrir Þóru?

Tönnlast var á því í fréttinni að hinir og þessir hefðu unnið bestu leikarana, leikstjórana, búningahönnuðina o. s. frv., og samkvæmt þessu fóru þessir bestu leikarar, leikstjórar og hönnuðir fádæma hrakfarir. 

Raunar hafa margir fréttamenn mikið dálæti á sögninni að sigra og þess vegna mátti alveg eins búast við því að sagt hefði verið: "Þóra Arnórsdóttir sigraði besta sjónvarpsmanninn," og hefði þá þessi ónefndi besti sjónvarpsmaður beðið greypilegan ósigur. 

Ef félagi minn, Eiður Svanberg Guðnason tekur þetta fyrir á eyjunni.is í molum sínum um málfar og miðla er ekki vanþörf á því, vegna þess að það virðist vera alveg einstaklega erfitt að berjast við jafn einfalda málleysu og rökleysu og fyrrnefnd árátta er og veitir ekki af að hamla gegn henni hvar sem því verður við komið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Besta leiðin út úr þessum tungmálaerfiðleikum er að afskrifa Íslenskuna og taka upp nýtt móðurmál. Nú eru afskriftir í gangi á ýmsum sviðum og gott tækifæri til að skipta um mál í leiðinni. Það fer allt of mikil orka í að halda úti þessu tungumáli sem enginn skilur nema innfæddir Íslendingar. Við berjumst gegn áhrifum frá erlendum málum, aðallega úr enskri tungu, alls konar slettum og breytingum á málfari, þurfum að finna upp alls konar nýyrði yfir nýjungar í töluvtækni og fjármálalífi og allt mögulegt annað. Samt skiljum við ekkert hvað er að gerast í heiminum í kring um okkur. Við skildum ekki almennilega okkar eigin útrás. Tungumálið er eflaust þáttur í því hve illa hún fór. Hefðu stjórnmálamenn og almenningur getað lesið og skilið reglur í Bretlandi og ESB eins vel og regluverk sem er til á íslensku, þá hefðu eflaust vaknað spurningar um ýmislegt miklu fyrr og einhverjar bremsur verið settar á. Hluti af þessu feigðarflani okkar öllu er að halda úti sér tungumáli. Það eru eintómir gallar við þetta mál, engir kostir.

Ef það þykir skipta máli að taka upp stærri gjaldmiðil (Evru) og ganga í stórt ríkjasamband (ESB) þá hlýtur að vera enn mikilvægara að bæta mannleg samskipti og skilning á milli íbúa þessara landa. Það verður bara gert með því að fækka tungumálunum sem töluð eru á þessu svæði. Þar eigum við að hafa frumkvæði og leggja niður okkar íslensku. Við tölum stöðugt um að vera þjóð meðal þjóða, taka þátt í alþjóðasamstarfi, horfa á stærri hagsmuni en eru í kringum tærnar á okkur o.s.frv. Samt erum við heimsins mestu molbúar þegar kemur að tungumálinu. Þar högum við okkur eins og við viljum hírast ofan í dimmru holu alla ævina. Þar má engu breyta, ekkert laga og helst ekki einu sinni hugsa um að etv. séu til önnur tungumál sem gætu hentað okkur ágætlega.

Jón Pétur Líndal, 28.2.2010 kl. 17:36

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það að vera enskumælandi þjóð er engin ávísun á velgengni og má nefna frændþjóðir okkar á Norðurlöndum sem dæmi. Þegar hlustað er á fjölmiðla í þeim löndum eða lesin helstu blöðin sést hve mikla rækt þessar þjóðir leggja við móðurmálið.

"Engu breyta og ekkert laga.." er sagt. Ég get engan veginn séð að rökleysur, sem vaða uppi, flokkist undir þarfar breytingar.

Engar þeirra þjóða sem við berum okkur saman við láta slíkt viðgangast varðand eigið tungumál.

Og ég vil sérstaklega benda á hve frábær mörg íslenski nýyrði hafa reynst svo sem eins og orðin þyrla og tölva, - miklu styttri og þjálli orð en helecopter eða computer.

Ómar Ragnarsson, 28.2.2010 kl. 17:55

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jón Pétur getur jú þakkað það að geta tjáð sig þokkalega skiljanlega á móðurmálinu, laust við hortitti, ambögur, fallsýki og stafsetningarvillur. Hvað han er að fara með málflutningnum og hvað hann kemur efni greinarinnar við, er mér raunar alveg hulið, en hann fær prik fyrir Íslenskuna.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.2.2010 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband