5.3.2010 | 20:34
"Allt sem þjóðina varðar..."
Þessi orð hafa blasað við undanfarin ár á vegg í farþegaafgreiðslu Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli þar sem sunnudagsblað Morgunblaðsins er auglýst.
Tölublaðið, sem valið er, er frá vorinu 2007 og orðin valdi blaðamaður Morgunblaðsins sem fyrirsögn viðtals við mig í aðdraganda kosninganna þá.
Þótt Íslandshreyfingin - lifandi land hefði fyrst og fremst verið hugsuð sem nokkurs konar þverpólitískur armur umhverfisverndarfólks og samtaka þeirra fannst blaðamanninum hin ákveðnu stefnumál hreyfingarinnar í lýðræðis- og stjórnskipunarmálum, sem reifuð voru í viðtalinu, vera það fréttnæmasta í því.
Því miður var hugarástand þjóðarinnar þannig í gróðærisbólunni 2007 að enginn hafði áhuga á ræða þessi mál og var aðeins einu sinni hægt að skjóta þeim á ská inn í kappræður í sjónvarpi og aðeins einn annar þátttakandi í þessum kappræðum sem brást við með því að rétt tæpa á einum anga málefnisins.
Af sjálfu leiðiir að ég var á lista þeirra sem skoruðu á forsetann að nýta málskotsrétt sinn og þar með fylgir að nýta atkvæðisréttinn.
Í viðtali við Steingrím J. Sigfússon í Kastljósi í kvöld kom fram að Icesave-lögin frá því í desember séu dauð og skoðanir aðeins skiptar um það hvernig formlegum dauða þeirra verði háttað.
Formenn stjórnarflokkanna virðast vilja að Alþingi felli lögin úr gildi þegar ný lög verði samþykkt og að það verði hinn formlegi dauðdagi þeirra. Þjóðaratkvæðagreiðslan sé því orðin óþörf og skipti ekki máli.
Aðrir telja að stjórnskipulega sé eðlilegra að þjóðin felli lögin úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda liggi nýir samningar ekki fyrir og þjóðaratkvæðagreiðslan liggi fyrir á stjórnskipulega réttan hátt.
Enn aðrir vilja greinilega geta samþykkt Icesave-lögin í atkvæðagreiðslunni og þá væntanlega á þeim forsendum að of einlit höfnun þeirra skaði orðspor Íslendinga út á við sem þjóðar, sem hægt sé að treyst.
Þegar Reykvíkingum gafst kostur á að kjósa um Reykjavíkurflugvöll 2001 á núverandi stað var þátttakan aðeins um 30% og ekki bindandi, auk þess sem munurinn á milli þeirra sem vildu völlinn og hinna sem ekki vildu hann var sáralítill.
Að mínu viti gengur það illa upp að segjast í orði kveðnu vera hlynntur sem beinustu lýðræði og taka síðan ekki þátt þegar færi gefst.
Gildir einu hvort staðan sé tvíbent eða deilt um að hve miklu leyti atkvæðagreiðslan sé marktæk eða komi að gagni.
Ólafur Ragnar ætlar að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Var ekki einhvertíma sagt að fara um eins og köttur um heitan graut, um eitthvað málefni. Afstaða Jóhönnu og Steingríms er aumkunarverð og það heitir það . Ég hef valið þá stöðu að taka afstöðu hverju sinni eftir sannfæringu minni en ekki eftir því hvað flokkarnir ætlast til af mér. Afstaða þín Ómar er eins og þeirra sem vissu að Kárahnjúkavirkun var glapræði en þorði ekki að birta skoðun sína.
Sigurður Þorsteinsson, 5.3.2010 kl. 21:08
"Að mínu viti gengur það illa upp að segjast í orði kveðnu vera hlynntur sem beinustu lýðræði og taka síðan ekki þátt þegar færi gefst."
Kjarni málsins Ómar.
Jón Á Grétarsson, 5.3.2010 kl. 22:14
"Lýðræði" er gildishlaðið hugtak. Ekki hægt að festa hendur á því og illa skilgreinanlegt. "Hugarástand þjóðinnar" er með þeim eindæmum nú um stundir að hún veit hvorki upp né niður. Sem eflaust eru engin eindæmi.
Ybbar gogg (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 23:23
Þessi atkvæðagreiðsla í dag hefur ekki mikið með lýðræði að gera. Margir misskilja um hvað er verið að kjósa. Áróðursherferð þeirra Bjarna Ben. og Sigmund D. hefur snúast um það að efla eigin vinsæld og reyna að koma ríkisstjórninni frá. Steingrímur og Jóhanna hafa gert mistök með þessari yfirlýsingu að kjósa ekki. Þetta baka þeim óvinsælda, því miður. En ég ætla ekki að fara á kjörstað í dag, sé ekki tilgang í því að gera mér ferð og skila auðu.
Úrsúla Jünemann, 6.3.2010 kl. 11:11
Tek undir skynsamleg orð Úrsúlu. Hún sér þetta með augum "gestsins" og er því glögg.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 12:49
Það skynsamlega sem Úrsúla segir er að Jóhanna og Steingrímur hafa gert mistök með þessari yfirlýsingu sinni en þau hafa enn tíma til að sjá að sér og og gera skyldu sína sem er að kjósa.
Öllum réttindum fylgja skyldur og þau eru gersamlega að bregðst skyldu sinni sem kjörnir fulltrúar að sýna kjósendum þessa lítilsvirðingu.
Það er eins og fólk skilji ekki að lögin frá því í desember á síðasta ári eru í gildi og verða það áfram nema þau verði felld í þessar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ekki viss um að alþingi geti afturkallað ríkisábyrgð á skuldbindingum sem það er þegar búið að veita. Það er þá lítið gefandi fyrir ríkisábyrgð ef það er hægt að afturkalla hana fyrirvaralaust.
Núna þegar liggur fyrir að við getum náð betri samningum en samþykktir voru í desember er það skilkda hvers Íslendings að fara á kjörstað og hafna þessum samningum því annars hafa viðsemjendur okkar enga ástæðu til að semja aftur.
Það er sorglegar en tárum taki að með þessari afstöðu sinni eru Steingrímur og Jóhanna að taka flokkshagsmuni og eigin "ego" fram yfir þjóðarhagsmuni. Þess vegna og aðeins þess vegna verður að gera þá kröfu að þau víki.
Landfari, 6.3.2010 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.