Geysir, Gullfoss, Askja, Kverkfjöll o. fl.

"Ertu ekki að grínast? " er sagt við mig þegar ég nefni þá staðreynd að tíma og peningum sé nú eytt í það að rannsaka hagkvæmni og umhverfisáhrif virkjana Geysis, Gullfoss, Öskju, Kverkfjalla, Gjástykkis, Landmannalauga og Kerlingarfjalla svo að dæmi séu tekin.

Þetta er gert undir hatti svonefndrar Rammaáætlunar um virkjun vatnsafls og jarðvarma. 

Það, að ræða um fyrrnefnd svæði og fleiri sem virkjanasvæði og eyða fé og fyrirhöfn í að rannsaka þau á þeim grundvelli er hliðstætt við það að í Bandaríkjunum stæðu yfir rannsóknir á mismunandi virkjanakostum í Yellowstone eða öðrum þjóðgörðum og friðlöndum Bandaríkjanna. 

Nú á eftir verður blaðamannafundur vegna Rammaáætlunar og að sinni ætla ég að bíða eftir að honum ljúki áður en ég fjalla nánar um þetta mál. 

En fréttin í Fréttablaðinu um 84 virkjanir sem verið er að rannsaka og 20 í viðbót sem kannski þurfi að bæta við fyllir mig ekki mikilli bjartsýni um framtíðina í þessum málaflokki hér á landi, burtséð frá góðri vinnu og viðleitni þess góða fólks sem hefur verið falið að framkvæma þessar rannsóknir. 

Virkjanafíklarnir hafa sett upp þá vígstöðu að engin takmörk séu á því hve langt þeir vilji ganga og þar með að ná því fram að það sem kallað verði "sátt" geti farið langt í að teljast fullnaðarsigur þeirra. 

En nú er að sjá hvað blaðamannafundurinn á eftir hefur upp á að bjóða. 


mbl.is Bruggtækin dregin fram að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til að bera blak af Rammaáætlunarfólki vil ég fullyrða að engum dettur í hug að virkja á þessum stöðum en mat á þeim er notað sem viðmiðun við mat á öðrum stöðum. Ég held að okkur sé skylt að segja það upphátt og bóka um það sammæli, afhverju við viljum vernda Geysi, Gullfoss, Öskju, Kverkfjöll, Gjástykki, Landmannalaugar og Kerlingarfjöll.

stefán benediktsson (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 13:28

2 Smámynd: Hjalti Tómasson

Var það ekki Rammaáætlunin sem öllu átti að bjarga og tryggja að farið væri eftir settum reglum og sett væru bönd á óhefta virkjunarstefnu ?

Ef ég skil rétt það sem ég hef lesið mér til um þá er þvert á móti fyllilega eðlilegt að leggja fjármuni í kannanir á þessum svæðum því innan Rammaáætlunar er einnig gert ráð fyrir að sumir staðir séu svo viðkvæmir eða ómissandi að þá beri að friða sérstaklega. Þar er ekki gengið að því sem vísu að með því einu að rannsaka svæðið þá sé um leið búið að gefa því undir fótinn að þar verði virkjað.

Þessar kannanir fela því fleira í sér en að meta í krónum og aurum hagkvæmni þess að virkja. Þarna er held ég, og þú leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, komin aðferð við að meta á heilstæðan og hlutlausan hátt huglægt og fjárhagslegt verðmæti svæða sem í hugum sumra eru verðmæt sem virkjanasvæði en í hugum annarra verðmæt sem almenningseign og hluti óskertrar náttúru Íslands sem okkur öllum þykir jú vænt um innst inni þó sum okkar láti ef til vill aðra hagsmuni villa sér sýn um stundarsakir.

Megi sem flest svæði verða rannsökuð innan Rammaáætlunar og það vel því það, frekar en einhliða rannsóknir orkufyrirtækja, munu frekar gera okkur kleift að komast að samkomulagi þegar stóra spurningin er borin upp: Á að virkja eða ekki virkja ?

Engar aðferðir eru óumdeilanlegar en þarna held ég menn hafi þó dottið niður á aðferð sem hvað flestir geti verið sammála um, nema menn séu hreinlega á móti því að nýta landið fyrir annað en fugla og refi. Það er þá heiðarlegra að segja ef svo er og myndi einfalda umræðuna mikið, sérstaklega fyrir einfaldar sálir eins og mig.

Annars vil ég að það komi fram að ég er þér og þínum félögum þakklátur fyrir baráttu ykkar fyrir landinu. Ég vildi gjarnan leggja þessari baráttu lið en þó undir þeim formerkjum að fara þurfi bil beggja, annarsvegar þeirra sem vilja nýta landsins gæði  landsmönnum til heilla og svo þeirra sem engu vilja breyta og ekkert vilja gera til framþróunar.

Hjalti Tómasson, 9.3.2010 kl. 15:09

3 identicon

Af hverju á ferðamannaiðnaður lítið upp á pallborðið hjá Viðskiptaráði, Samtökum iðnaðarins etc hér á skerinu. Hefur þetta eitthvað með snobb að gera?

Í Sviss er ferðamannaiðnaður mjög vinsæll, orðinn vinsælli en bankarekstur og lyfjaiðnaður. Það er topp staða að vera forstjóri ferðamannaskrifstofu stórrar borgar, t.d. Geneva Torism Bureau. Hér er þörf á hugarfarsbreytingu. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 15:18

4 Smámynd: Smjerjarmur

Niagarafossar, á landamærum Kanada og Bandaríkjanna eru virkjaðir.  Mesta umhverfisröskunin þar er ferðamannaflaumurinn.  Það er ekkert að því að skoða þá kosti sem við höfum, frekar en að vera með einhverja endalausa sleggjudóma sem eru alltof áberandi í umræðum um náttúruvernd.  Virðing fyrir náttúrunni hefur í tímans rás verið of lítil, en við skulum samt ekki láta eins og trúarofstækisfólk í þessari umræðu. 

Smjerjarmur, 9.3.2010 kl. 15:26

5 Smámynd: FrizziFretnagli

þú veist það náttúrulega mann best Ómar að Gullfoss er að eyða sjálfum sér.  Hann étur undan sjálfum sér og hverfur svo þegar hann er kominn upp undir jökul.   Það er gömul hugmynd að virkja hann og varðveita hann um leið.  Veita vatninu framhjá meðan veggur er steyptur undir og rör lögð til væntanlegra véla.  Síðan er vatnsmagninu skipt milli fossins og röranna, fossinn fær forgang á 'ferðamannatímanum' en rörin fá síðan sitt líka.

FrizziFretnagli, 9.3.2010 kl. 15:39

6 identicon

Ég hef nú í gegnum tíðina verið frekar  virkjunarsinni og stóriðjusinnaður, en það tengist því sjálfsagt að ég hef unnið í verktakabransanum stóran hluta starfsævinnar. Fékk þó miklar efasemdir um Kárahnjúkavirkjun, þó aðallega að ég held að orkuverðið sé allt og lágt. Við hrunið fór það svo að ég missti vinnuna eins og svo margir í þessum bransa.

Það fór þó þannig að starf í Noregi við mælingar datt í hendurnar á mér og skellti ég mér út og starfa hjá verktakafyrirtæki í Suldal í Rogalandi. Fljótlega rak ég augun í það að hér upp í fjöllunum var mikið miðlunarlón (Blásjór) með mörgum stórum stíflum. Ég fór að forvitnast um þessi mannvirki og kom í ljós að hér er vatnsaflsvirkjun (Ulla-Förre) af stærðargráðu sem ég skildi varla miðað við okkar virkjanir. Þessi virkjun er 2040 MW. Til samanburðar eru Vatnsfell , Sigalda, Hrauneyjar, Sultartangi og Búrfell samtals 840 MW. Fjórir virkjunarkostir í viðbót Búðaháls-, Hvamms-,Holta- og Urriðafossvirkjanir gefa 345 MW skv. heimasíðu Landsvirkjunar. Samtals eru þetta 1185 MW, Fljótsdalsvirkjun er 690 MW. Ef við bætum Blöndu, Laxár og Ljósafossvirkjunum og fleiri smávirkjunum við náum við ekki þessari virkjun. Ulla- Förre er með milli 5 og 6% af raforkuþörf Norðmanna.   Eitt álver af þeirri stærð sem telst vera hagkvæmt þarf yfir 600 MW.

Eftir þessa uppgötvun áttaði ég mig á því að orkan okkar er mjög takmörkuð og það er fjarstæðukennt að við séum eitthvað orkubúr og ég er kominn á þá skoðun að við þurfum að fara varlega í þessum málum og setja ekki öll eggin í eina álkörfu.  Jarðvarmavirkjanir eru þannig að það tekur tíma að átta sig á því hve mikil orka næst út úr hverju svæði og djúpboranir eru ennþá draumsýn sem vonandi rætist.  Einnig hefur það komið manni á óvart hvað þær valda miklum umhverfisspjöllum og sjónmengun samanber Hellisheiðarvirkjun sem er algjör horror.

Aðalvinnan hjá þessu fyrirtæki sem ég er hjá er að byggja smávirkjanir 1 til 3 MW, þar sem virkjaðir eru 1-2 m3 af vatni og fallhæðin er 100-300m. Svoleiðis virkjanir skipta tugum eða hundruðum hér í Noregi.

Kveðja frá Noregi

Heiðar Engilbertsson

Heiðar S. Engilbertsson (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 18:37

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tek undir með þér, Stefán, að vinnan við rammaáætlunina er mjög þörf og hefði mátt vera byrjuð löngu fyrr og settur meiri kraftur í hana.

Ég er hins vegar að nefna þetta til þess að varpa ljósi á það að virkjanaaðilar leggja sig alla fram um að stilla upp eins mörgum virkjanakostum og hægt er að ímynda sér, greinilega til þess að halda sem mestu eftir ef leita á sátta um niðurstöðu.

Að mörgu leyti er það fagnaðarefni fyrir mig að í ljós kemur að virkjun Gullfoss, Geysis eru smámunir miðað við Kárahnjúkavirkjun, en þessu hélt ég fram í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" árið 2004 og hef nú heldur betur fengið staðfestingu á því.

Ég sat hinn langa kynningarfund um starf faghópanna í dag og mun taka mér nokkra daga í að fara yfir það. Flest var þar af hinu góða en líka nokkrir alvarlegir vankantar á sem leiðrétta þarf í framhaldinu.

Ómar Ragnarsson, 9.3.2010 kl. 19:55

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þegar ungir menn héldu til Íslands á sínum tíma var hvatinn að þeirri för ekki aðeins að flýja skattheimtumenn Haraldar hárfagra heldur einnig að þar „væri gott til fanga“.

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram t.d. hvort hér hafi verið þjóð fyrir. Af hverju sest Ingólfur ekki að á Suðurlandi þar sem mun betra er til bús en á útnesi: „Til ills fórum vér um góð héruð er vér skyldum byggja útnes þetta“ er haft eftir Karli þræl Ingólfs.

Auður djúpúðga lenti í skipsstrandi á Vikrarskeiði við Ölfusárós. Sagt er að hún hafi ásamt skipverjum komist slypp og snauð úr því strandi en fer allslaus til frændfólks síns á Kjalarnesi. Þaðan fer hún vestur í Dali sem alkunnugt er og hvað gerist þar? Hún deilir löndum með vinum og vandamönnum. Hún var höfðingi heim að sækja: „bauð hún til sín frændum sínum og magum og bjó dýrlega veislu. En er þrjár nætur hafði veislan staðið, þá valdi hún gjafir vinum sínum...“ Landnáma S110, Ísl. fornrit I: 146.

Hvaðan kemur henni allur þessi auður? Varla hefur hún haft hann með sér úr skipsstrandinu?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 10.3.2010 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband