Hægt að gera þetta með þyrlum?

Sífellt koma upp raddir um það að Reykjavíkurflugvallar sé ekki þörf því að hægt sé að nota þyrlur til sjúkraflutninga utan af landi. 

Þegar menn tala um að þyrlur geti annast þetta er horft fram hjá nokkrum grundvallaratriðum.

1. Rekstur þyrlu er 4-5 sinnum dýrari en flugvélar af sömu stærð.

2. Viðhaldstími þyrlna er er miklu lengri og þær því úr leik miklu lengur sem því nemur.

3. Flugvélar eru mun hraðfleygari en þyrlur og geta flogið í ísingu eða ofan skýja af því að þær hafa jafnþrýstibúnað. Í sumum tilfellum er ekki hægt að koma þyrlum við vegna þessa. 

Þegar þetta þrennt er lagt saman kemur í ljós að miklu fleiri þyrlur þarf til að inna sama verkefni af hendi en flugvélar. 

Í sumum tilfellum eru þyrlur hentugri vegna lendingargetu þeirra og þess vegna er sjálfsagt að nota þær þegar sú geta ræður úrslitum. 

Það er einfaldlega hvorki hægt að vera án þyrlna né flugvéla við sjúkraflutninga eins og dæmið um 13 sjúkraflug á flugvélum á aðeins einni viku sýnir.  

Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um mismunandi atvik og aðstæður en ég læt eitt nægja.  

Þegar rúta fór út af brúnni á Hólsselskíl á Fjöllum fyrir áratug, var ekki hægt að koma við þyrlu sem flygi frá Reykjavík. Mér tókst hins vegar á grundvelli reynslu og gamals refskapar gagnvart veðurskilyrðum að fljúga norður á eins hreyfils vél. 

Twin Otter vél fór frá Akureyri og lenti á stuttri braut við Grímsstaði á Fjöllum og flutti slasað fólk til Akureyrar.  

Síðan eru önnur tilvik þar sem þyrlurnar ráða úrslitum og ég hef áður bloggað um það að við séum á leið afturábak í þeim málum um 30 ár með því að fækka þyrlunum um of.  


mbl.is 13 sjúkraflug á einni viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það væri nú lítið mál að flytja sjúklinga með þyrlu af flugvelli á Hólmsheiðinni á þyrlupallinn við nýja Landspítalann, ef á þyrfti að halda.

Það tæki jafn langan tíma og að flytja sjúklinga með sjúkrabíl frá Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni að nýja Landspítalanum. Og í langflestum tilfellum eru sjúklingar fluttir með sjúkrabíl á höfuðborgarsvæðinu.

Flugfloti Landhelgisgæslunnar (þyrlur og flugvél) yrði á Hólmsheiðinni, þar sem nú er svipað hitastig og var á Reykjavíkurflugvelli fyrir nokkrum áratugum.

Þar að auki eru sjúklingar á Suðurlandi og Vesturlandi, þar sem 70% landsmanna búa, nú fluttir á Landspítalann með þyrlum en ekki flugvélum. Og í fjölmörgum tilfellum eru sjúklingar á öðrum landsvæðum einnig fluttir þangað með þyrlu, auk allra þeirra sem sóttir eru af hafinu allt í kringum landið í alls kyns veðrum.

Þorsteinn Briem, 16.3.2010 kl. 14:37

2 identicon

Steini, hvaðan í ósköpunum hefurðu fyrir það að flestir af suðurlandi séu fluttir með þyrlum í sjúkraflugi??? Árlega eru mörg sjúkraflug á Hornafjörð... Vesmanneyingar eru með sjúkraflugvél staðsetta í eyjum! Þeir sem eru nær suðvesturhorninu eru yfirleitt keyrðir á heilbrigðisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu því það tekur skemmstan tíma.

Sjúkraflugvélin er staðsett á Akureyri, rökin fyrir því eru þau að þá sé hún hæfilega miðsvæðis og eigi ekki langan flugtíma hvert á land sem er. Flest flugin eru frá Akureyri og Egilsstöðum, einnig eru mörg sjúkraflug frá Ísafirði og Bíldudal. Þó svo að 70% landsmanna búi á sunnanverðu landinu þá eiga þeir jafnan rétt á og hin 30%-in að eiga greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustunni.

Ég skil ekki hvað þú ert að tala um þyrluferðir ofan af Hólmsheiði, það verður aldrei byggður völlur þar, fyrsta lagi vegna kostnaðar og öðru lagi að þetta er vitavonlaust flugvallarstæði sem allir sjá sem einhverja þekkingu hafa á þessum málum!

Þyrlur eru frábær björgunartæki, en ímyndaðu þér að vera böðlast þvert yfir Ísland að nóttu til í skítaveðri með sjúkling í hjartastoppi um borð í þyrlu sem fer hægt yfir og getur ekki flogið ofar veðrum, eða fljúga með skrúfuþotu búna jafnþrýstibúnaði sem flýgur mun hærra og á meira en 500 km hraða.

Siggi Steins (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 15:54

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þegar veður er slæmt eða aðstæður erfiðar er leitað til þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar en hún þjónar auk þess Suður- og Vesturlandi."

Svar þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um sjúkraflug


"Fastur kostnaður flugsviðs [Landhelgisgæslunnar] er u.þ.b. 80-85% af árlegum rekstrarkostnaði sviðsins og er að mestu óháður því hversu margar flugstundir loftfaranna eru. Þetta þýðir m.a. að fækkun eða fjölgun flugtímanna fer ekki að hafa áhrif fyrr en hún er orðin veruleg."

Árið 2003 fóru TF-LIF og TF-SIF, þyrlur Landhelgisgæslunnar, í 54 sjúkraflug en 43 leitar- og björgunarflug. Alls fluttu þær og björguðu 83 mönnum en 36 af útköllunum komu frá héraðslæknum.

En TF-SYN, flugvél Gæslunnar, flaug þrisvar með þyrlunni TF-LIF vegna slasaðra sjómanna á tveimur skipum á Reykjaneshrygg, djúpt suður af Ingólfshöfða, en þau voru meira en 150 sjómílur frá næsta eldsneytistanki.

Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2003 - Sjá bls. 9-10


Árið 2003
lentu flugvélar 251 sinni með sjúklinga á Reykjavíkurflugvelli.

"Flugvél frá Mýflugi sem átti að flytja sjúkling frá Hornafirði til Reykjavíkur var snúið við á leið frá Akureyri til Hornafjarðar vegna gruns um bilun. Önnur vél frá Mýflugi var send eftir sjúklingnum og hefur hann verið fluttur á sjúkrahús."

Sjúkraflug Mýflugs frá Hornafirði til Reykjavíkur tafðist


Sjúkraflugvél Mýflugs er staðsett á Akureyri.

Sjúkraflug Mýflugs

Mýflug hefur sinnt sjúkraflugsþjónustu á Norðursvæði frá ársbyrjun 2006 en svæðið "afmarkast af beinni línu sem er dregin frá botni Þorskafjarðar að botni Hrútafjarðar, síðan að Hveravöllum, þá að Nýjadal og þar næst að Höfn í Hornafirði og allt svæðið fyrir norðan þá línu er norðursvæði, þar með talin Höfn í Hornafirði."

Samningur Mýflugs og Flugstoða

Þorsteinn Briem, 16.3.2010 kl. 16:11

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumarið 2000 var enginn samningur í gildi um sjúkraflug á landinu, nema á Vestfjörðum, og því ekkert formlegt skipulag á því. Þá var kostnaður við hefðbundið sjúkraflug innanlands með flugvél á bilinu 145-170 þúsund krónur og greiddist í flestum tilfellum af Tryggingastofnun.

Árið 2005 lentu flugvélar 284 sinnum með sjúklinga á Reykjavíkurflugvelli og heildarkostnaðurinn við þetta flug á núvirði væri um 80 milljónir króna, miðað við 158 þúsund krónur fyrir hvert flug árið 2000.

Flugvöllur á Hólmsheiði yrði einungis í 15 kílómetra fjarlægð frá Gamla miðbænum í Reykjavík og áætlaður ferðatími þangað frá flugvellinum er 15 mínútur, samkvæmt skýrslu frá september 2006 um framtíðarflugvallarstæði í Reykjavík. Hæð yfir sjó yrði 135 metrar, en Keflavíkurflugvöllur er í 52ja metra hæð, og aðalbraut lægi AV en þverbraut NS.

Blindaðflug yrði mögulegt úr austri og vestri og Hólmsheiði fær góða eða þokkalega einkunn fyrir alla flugstarfsemi, þar með talið sjúkraflug, sem fær þokkalega einkunn.

Heildarkostnaður við flugvöllinn yrði um tíu milljarðar króna en frá þeirri upphæð dregst andvirði verðmætasta byggingarlandsins í Reykjavík, 135 hektarar innan girðingar í Vatnsmýrinni, og Samtök um betri byggð töldu árið 2001 að það byggingarland væri að minnsta kosti fjörutíu milljarða króna virði.

Reykjavíkurflugvöllur - Myndir og kort


Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024


Veðurmælingar á Hólmsheiði, Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli

Þorsteinn Briem, 16.3.2010 kl. 16:20

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samgöngumiðstöð norðan við Hótel Loftleiðir er af vinnuhópi talin mjög brýn, enda þótt flugvöllurinn færi síðar úr Vatnsmýrinni.

Ný skýrsla um veðurfar við Reykjavíkurhöfn


Hagfræðistofnun reiknaði árið 2007 með 38 milljarða þjóðhagslegum ábata af flugvelli á Hólmsheiði og 18 milljarða hagnaði ríkissjóðs, 26 milljarða hagnaði borgarsjóðs og 11,5 milljarða hagnaði íbúa höfuðborgarsvæðisins.


Hins vegar yrði töluvert minni ábati af flugvelli á Lönguskerjum.

Apríl 2007: Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar - Sjá bls. 87


Á Hólmsheiði er nægt rými fyrir alhliða innanlandsflugvöll, kennsluflug, einkaflug og flugsvið Landhelgisgæslunnar.


Þar var að meðaltali 79,8% loftraki árin 2006 og 2007 en 75,3% í Vatnsmýrinni.

Meðalvindhraði
á Hólmsheiðinni á þessu tímabili var 6,6 m/s en í Vatnsmýrinni 5,4 m/s og tíðni vindátta var áþekk.

Og á Hólmsheiðinni var meðalhitinn 4,5 gráður, eða 1,1 gráðu lægri en á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli.

Veðurmælingar á Hólmsheiði, Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli


Hins vegar var meðalhitinn á Hólmsheiðinni árin 2006 og 2007 trúlega eins og hann var á Reykjavíkurflugvelli árið 1975.

Hlýnað hefur hérlendis um 0,35°C á áratug frá árinu 1975, um 1,1 gráðu, sem er nokkru meira en hnattræn hlýnun á sama tímabili.

Veðurstofa Íslands - Loftslagsbreytingar


Meðalhiti eftir mánuðum í Reykjavík á árunum 1961-1990 var á bilinu 0-10°C, kaldast í desember og janúar, þegar meðalhitinn fór rétt niður fyrir frostmark, en heitast í júlí og ágúst.

Og búast má við áframhaldandi hlýnun í Reykjavík næstu áratugina.


Veðurstofa Íslands - Hnattrænar breytingar loftslags og áhrif þeirra á Íslandi - Sjá bls. 17


Þannig reiknar Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen með að sjávarstaðan við Reykjavík hafi hækkað um 80 sentímetra árið 2100 og 205 sentímetra árið 2200 vegna landsigs og gróðurhúsaáhrifa.

Sjávarstaðan hækkar því mikið við Löngusker á næstu áratugum og færir þau í kaf. Og væntanlega þarf að hækka sjóvarnargarða í Reykjavík.

Austurhöfnin - Minnisblað VST um sjávarstöðu í Reykjavík - Sjá bls. 19

Þorsteinn Briem, 16.3.2010 kl. 16:23

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki eru nema örfáir dagar síðan þoka lá á Hólmsheiði á meðan henni hafði létt af Reykjavíkurflugvelli.

Samtök um betri byggð láta eins og að 40 milljarðar, sem fást muni með sölu lóða á núverandi flugvallarstæði detti af himnum ofan eins og Manna í Biblíunni. 

Einhverjir hljóta að þurfa að borga þessa 40 milljarða. 

Flugvöllurinn tekur 7% af því landi sem er vestan Elliðárdals og Fossvogs. 

Reykjavíkurhafnir taka jafn mikið pláss. Miklabrautin ein tekur 3%. Eigum við ekki bara að byggja íbúðahverfi á hafnarstæðunum og Miklubrautinni? 

Hafnarstarfsemina má flytja til Njarðvíkur, ekki satt? 

Reykjavíkurflugvöllur er ekki lengur við miðju höfuðborgarinnar. Hann er nú 3,5 kílómetra frá þungamiðju íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu og 4,5 kílómetra frá stærstu krossgötum landsins sem eru hin raunverulegi miðpunktur samgangna á höfuðborgarsvæðinu. 

Samtök um betri byggð halda því fram að hefði flugvöllurinn ekki verið gerður 1940 hefði engin byggð myndast utan við Elliðaár og Fossvogsdal. 

Þessum 7% lands vestan Elliðaáa er kennt um að 130 þúsund manns eiga heima utan Elliðaáa og Fossvogsdals. 

Samtök um betri byggð kenna flugvellinum um það að landsbyggðarfólk hafi flutt til Reykjavíkur af því að það hafi kunnað betur við sig í úthverfum og nágrannabæjum! 

Samtök um betri byggð telja sem sagt miður að hið óæskilega landsbyggðarfólk fyndi betri byggð fyrir sig hér syðra! 

Samtökin vilja reisa 45 þúsund manna byggð á núverandi flugvallarstæði og á landsfundi Samfylkingarinnar vildu þau láta banna nágrannabyggðum Reykjavíkur að útbúa nýjar lóðir. 

Þegar ég spurði flutningsmann hvernig hann ætlaði að binda fólk þannig niður á sovéska vísu sagði hann að ef fólkið vildi endilega eiga heima í svona byggð gæti það bara sett sig niður á Akranesi! 

Það er hægt að breyta Reykjavíkurflugvelli þannig að hann taki aðeins 5% af landinu vestan Elliðaáa og vegna þess að aðeins 30% hans eru nú í Vatnsmýri, væri hægt að fara með hann alveg úr Vatnsmýrinni en hafa hann þó áfram á Skildinganesmelum og í Skerjafirði þar sem 70% vallarins eru nú. 

Völl

Ómar Ragnarsson, 16.3.2010 kl. 23:17

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þar sem nú er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verður reist um 4.500 manna byggð, samkvæmt verðlaunatillögu.

Verðlaunatillaga Graeme Massie, Stuart Dickson, Alan Keane, Tim Ingleby, Edinborg

Skipulagssjá - Smelltu á viðkomandi hverfi til að fá upplýsingar um skipulagið


Í Vatnsmýrinni er verðmætasta byggingarlandið í Reykjavík. Í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík eru alls um 20 þúsund nemendur og kennarar og á Landspítalanum starfa um fimm þúsund manns.

Í og við Vatnsmýrina eru einnig til að mynda stúdentagarðar, Norræna húsið, Hótel Loftleiðir, bílaleiga, bensínstöð, Keiluhöllin, Valsheimilið á Hlíðarenda og ylströndin í Nauthólsvík.

Þar verður einnig reist á næstunni samgöngumiðstöð fyrir meðal annars rútur, strætisvagna og leigubíla. Og göng verða gerð undir Öskjuhlíðina.

Miðbær Reykjavíkur verður því allt svæðið frá Reykjavíkurhöfn að Nauthólsvík og gengur eins og öxull á milli strandanna.

Á því svæði er nú þegar til að mynda fjöldinn allur af matsölustöðum og krám, hótel, skemmtistaðir, verslanir og bankar. Einnig Alþingi, Stjórnarráðið og Ráðhúsið, Seðlabankinn, Menntaskólinn í Reykjavík, Tjörnin, Hljómskálagarðurinn, Austurvöllur, Arnarhóll, Ingólfstorg, Lækjartorg, höfnin og nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið, Harpa.

Hinn svokallaði Nýi miðbær í Reykjavík, Kringlan og nágrenni, er enginn miðbær.

Á Hólmsheiði er nægt rými fyrir alhliða innanlandsflugvöll, kennsluflug, einkaflug og flugsvið Landhelgisgæslunnar. Og flugvöllurinn yrði í einungis 15 mínútna akstursfjarlægð frá Lækjartorgi.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fljúga á um fimm kílómetra hraða á mínútu, þannig að það tæki þær um þrjár mínútur að fljúga með sjúkling af flugvelli á Hólmsheiðinni á þyrlupall við Landspítalann við Hringbraut, ef á þyrfti að halda, svipaðan tíma og tekur að aka sjúklingi af Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni á Landspítalann.

Á Hólmsheiðinni var að meðaltali 79,8% loftraki árin 2006 og 2007 en 75,3% í Vatnsmýrinni.

Meðalvindhraði
á Hólmsheiðinni á þessu tímabili var 6,6 m/s en í Vatnsmýrinni 5,4 m/s og tíðni vindátta var áþekk.

Og á Hólmsheiðinni var meðalhitinn 4,5 gráður, eða 1,1 gráðu lægri en á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli, sá sami og á Reykjavíkurflugvelli árið 1975.

Hæð flugvallarins á Hólmsheiðinni yfir sjó yrði 135 metrar en Keflavíkurflugvöllur er í 52ja metra hæð.

Blindaðflug yrði mögulegt úr austri og vestri og Hólmsheiði fær góða eða þokkalega einkunn fyrir alla flugstarfsemi, þar með talið sjúkraflug.

Í ársbyrjun 2006 var markaðsvirði byggingaréttar á 123 hekturum í Vatnsmýrinni 74,5 milljarðar króna án gatnagerðargjalda, rúmlega 600 milljónir króna á hektara, og um 37 þúsund krónum hærra á fermetra en í útjaðri borgarinnar.

Apríl 2007: Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar, bls. 64-65


Verðið hefur væntanlega lækkað töluvert frá þessum tíma en það hækkar að sjálfsögðu aftur.

Best er að flestir búi sem næst sínum vinnustað og mikilvægt
er að þétta byggðina í Reykjavík.

Bílaeign Reykvíkinga jókst um þriðjung frá árinu 1995 til 2004, þegar Reykjavík varð áþekk bandarískum bílaborgum. Árið 2004 var 591 einkabíll á hverja eitt þúsund íbúa í Reykjavík, sem er svipað og í Bandaríkjunum, og 76% allra ferða íbúa á höfuðborgarsvæðinu voru þá farnar í einkabíl. 

Byggt land á höfuðborgarsvæðinu var um 6.500 hektarar árið 2004 og þá bjuggu þar einungis 28,8 íbúar á hektara, svipað og í bandarískum borgum. Og þar af var byggt land í Reykjavík um 3.500 hektarar.

Reykjavíkurborg í febrúar 2006: Samgönguskipulag í Reykjavík

Þorsteinn Briem, 17.3.2010 kl. 05:20

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar lagt er saman  4,5% munur á rakastigi og 1,1 stigs hitamunur þýðir það bara eitt: Meira um þoku og lélegt skyggni.

Þéttleiki byggðar í Reykjavík er svipuð og hjá sambærilegum borgum á Norðurlöndunum, en þetta er aldrei nefnt heldur annað hvort bandarískar borgir eða gamlar milljónaborgir í Evrópu. 

Hægt er að þétta byggð á margvíslegan hátt á Reykjavíkursvæðinu án þess að fara að taka í burtu forsendur höfuðborgar sem eru góðar samgöngur í allar áttir. 

Miðja verslunar og þjónustu hlýtur ætíð að leita að krossgötunum og þess sér sífellt stað. 

Nýjasta dæmið: Tryggingamiðstöðin flutt úr Aðalstræti inn í Síðumúla. 

Á Ártúnshöfða er stórt svæði alveg við krossgötur Íslands sem ætti að breyta í nýtt og nútímalegt hverfi sem hæfir því að vera í miðpunkti samgangna. 

Gamli miðbærinn á hins vegar mikla möguleika vegna sérstæðrar byggðar og menningar- og stjórnsýslustofnana.

Ómar Ragnarsson, 17.3.2010 kl. 23:56

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hólmsheiði hefur fengið góðar og þokkalegar einkunnir fyrir alla flugstarfsemi, þar með talið sjúkraflug.

Í engu öðru póstnúmeri á landinu eru skapaðar meiri gjaldeyristekjur en 101.

Í 101 Reykjavík eru um 630 fyrirtæki og póstnúmeri 105 (Hlíðum og Túnum) um 640. Í þessum tveimur póstnúmerum eru því um 1.300 fyrirtæki.

Í 101 Reykjavík eru um 7.400 heimili, í póstnúmeri 107 um fjögur þúsund og póstnúmeri 105 um 6.600. Samtals eru því í göngufjarlægð frá Kvosinni um átján þúsund heimili og þar búa um 40 þúsund manns, þriðjungur allra Reykvíkinga, sem eru um 118 þúsund.

Í póstnúmeri 101 búa 15 þúsund manns, í 107 um 9.300 og í 105 um 15.800. Og Seltirningar eru 4.400 en þeir vinna flestir og stunda nám í miðbæ Reykjavíkur eða aka Hringbrautina til að fara í vinnu og nám annars staðar.

Miðbærinn í Reykjavík
er og hefur alltaf verið í Kvosinni og næsta nágrenni. Miðbær er engan veginn sá staður í bæjum og borgum þar sem finna má umferðarmestu gatnamótin. Hins vegar er að sjálfsögðu mikil umferð á svæðinu frá Gömlu höfninni að Nauthólsvík.

Á því svæði eru nú til að mynda Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Landspítalinn, Hótel Loftleiðir, Umferðarmiðstöðin, Norræna húsið, Þjóðminjasafnið, Ráðhúsið, Alþingi, Menntaskólinn í Reykjavík, Stjórnarráðið, Seðlabankinn og nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.

Þar að auki er í Kvosinni fjöldinn allur af veitingastöðum, skemmtistöðum, krám, verslunum og bönkum.

Mesta umferðin á landinu er því í Kvosinni og næsta nágrenni.

Til landsins kemur nú árlega rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna, um 1.500 manns á dag að meðaltali, og þeir fara langflestir í Kvosina vegna þess að hún er miðbærinn í Reykjavík en ekki til að mynda Kringlan.

Í Kvosinni, á Laugaveginum, sem er mesta verslunargata landsins, og Skólavörðustíg dvelja erlendir ferðamenn á hótelum, fara á veitingahús, krár, skemmtistaði, í bókabúðir, plötubúðir, tískuverslanir, Rammagerðina í Hafnarstræti og fleiri slíkar verslanir til að kaupa ullarvörur og minjagripi, skartgripi og alls kyns handverk.

Margar af þessum vörum eru hannaðar og framleiddar hérlendis, til að mynda fatnaður, bækur, diskar með tónlist og listmunir. Og í veitingahúsunum er selt íslenskt sjávarfang og landbúnaðarafurðir, sem eru þá í reynd orðnar útflutningsvara.

Allar þessar vörur og þjónusta er seld fyrir marga milljarða króna á hverju ári, sem skilar bæði borgarsjóði og ríkissjóði miklum skatttekjum.

Þar að auki fara erlendir ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá gömlu höfninni í Reykjavík. Þar er langmestum botnfiskafla landað hérlendis og jafnvel öllum heiminum, um 87 þúsund tonnum árið 2008, um tvisvar sinnum meira en í Grindavík og Vestmannaeyjum, fimm sinnum meira en á Akureyri og fjórum sinnum meira en í Hafnarfirði.

Við gömlu höfnina og á Grandagarði eru til dæmis fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækin Grandi og Fiskkaup, Lýsi og CCP sem selur útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hérlendis laun og launatengd gjöld.

Hvergi í heiminum eru því að öllum líkindum skapaðar jafn miklar tekjur á hvern vinnandi mann og í 101 Reykjavík.

Ef hægt væri að færa alla starfsemina í 101 Reykjavík og næsta nágrenni á annan stað í Reykjavík yrði miðbær Reykjavíkur þar en ekki í 101, eins og hann er nú og mun ætíð verða.

Þorsteinn Briem, 18.3.2010 kl. 12:04

10 identicon

Allir þessir flugvallarandstæðingar haga sér eins, básúna út í loftið eins og þeir geta (án þess endilega að hafa þekkinguna) til þess að reyna að hafa áhrif á sem flesta í kringum sig.

Það er nú ekki eins og það sé bráður skortur á fleiri byggingum/lóðum á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.

Taktu eftir því að þessar rannsóknir frá Hagfræðistofunun sem þú ert að vísa í voru gerðar árið 2007......hmmmm ætli forsendur hafi eitthvað breyst síðan þá?

Siggi Steins (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband