17.3.2010 | 14:08
Röng viðbrögð eða yfirskin?
Um sögu Norðmannsins, sem fékk ekki við neitt ráðið þegar Priusbíll hans tók af honum öll ráð og óð stjórnlaust upp í 176 kílómetra hraða segi ég: "hægan nú!"
Á öllum bifreiðum á að vera búnaður til að drepa á vélinni.
Á Prius ætti að vera hægt að setja skiptinguna í hlutlausa stillingu.
Á Priusi eru hemlar eins og á öðrum bílum.
Í Prius er svonefnd handbremsa eða neyðarhemill öðru nafni eins og í öllum öðrum bílum.
Vélin í Prius er ekki kraftmeiri en það að hemlarnir eiga alveg að geta unnið á móti og vel það.
Á norskum hraðbrautum er 100 km hámarkshraði sá hæsti sem ég þekki þar í landi.
Prius er tiltölulega kraftlítill bíll og nær ekki 176 kílómetra hámarkshraða sínum fyrr en eftir að minnsta kosti heila mínútu ef bílnum er ekið á 100 kílómetra hraða og bensíngjöfin er sett í botn.
Mér finnst mjög ósennilegt að ökumaðurinn hafi ekki á meira en heillar mínútu viðbragðstíma getað gert neitt til að hægja á bílnum, ekki drepið á bílnum, ekki sett í hlutlausan, ekki hemlað, ekki tekið í handbremsuna.
Það breytir því ekki að bensíngjafir eiga ekki að geta fest í botni á bílum.
Ef það gerist snögglega í erfiðri umferð getur "panik" gripið ökumanninn svo að honum fatast og það leitt til rangra viðbragða, sem ekki er sanngjarnt að kenna honum um.
Öðru máli gegnir á beinni braut þar sem umhugsunartíminn er minnst 60 sekúndur.
Ég á erfitt með að trúa því að umræddur Prius hafi breyst í eitthvert norskt afbrigði af Kristínu Stephens Kings á þann hátt sem lýst er í norsku frétttinni.
Finnst líklegra að Norðmaðurinn hafi lesið fréttir um að bensíngjafir í Prius eigi það til að festast í botni og notað það sem átyllu í að útskýra ofsaakstur sinn sem endaði með því að hann missti bílinn út í vegrið.
Rannsaka stjórnlausan Prius | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er nánast sama sagan og af bandaríkjamanninum sem lenti í því sama og var sagt frá hér á mbl ekki fyrir svo löngu. Eins og norðmaðurinn kunni hann ekki að drepa á vélinni né setja bílinn í hlutlausan. Spurning hvort svona ökumenn eigi að vera í umferðinni yfirleitt. Hvað varðar hámarkshraða þá er hér í Ontario Kanada 100 km/kls á hraðbrautum en í New Brunswick er hámarkshraðinn 110 km/kls sem er sá mesti í Kanada.
Davíð Gíslason (IP-tala skráð) 17.3.2010 kl. 15:30
toyota er bara drasl :)
Annars er margt vafasamt í þessari frásögn mannsins og sonar hans sem bakkar hann upp.. hvaða meðalgreindur Jón ætti að geta stöðvað bíl sem festir inngjöfina.. hlutlaus, bremsa, drepa á bílnum.. Enda er á lögreglunni að skilja að þeir trúi ekki frásögninni.
Óskar Þorkelsson, 17.3.2010 kl. 16:17
Þetta er eins og atriði í Hollywood mynd, þar sem bifreiðin tekur völdin og ekkert hægt að gera nema lenda í dramaseraði ákeyrslu. Það eina sem vantar er hin klassíska sprenging í lok atriðisins.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.3.2010 kl. 22:02
Ég hefði varla trúað að Prius kæmist yfir 150 km
Ragnheiður , 17.3.2010 kl. 23:53
Best gæti ég trúað að Nojarinn Priuseigandinn hafi séð sér leik á borði að losna við heldur leiðinlegan bíl sem stóð ekki undir væntingum, ekki einu sinni hvað sparneytni áhrærir. Mín fyrstu viðbrögð voru nákvæmlega eins og þín, Ómar, bíl, ekki hvað síst sjálfskiptan, eiga bremsurnar fortakslaust að ráða við sé þeirra neytt.
Sigurður Hreiðar, 18.3.2010 kl. 11:17
Það að vera á bíl þar sem inngjöfin festist í botni er óþægileg lífsreynsla, ég hef einu sinni lent í þessu.. á strætisvagni.
Ég var að aka austurbæjarvagninum í Kópavogi, í lok hringsins er ekið af Hlíðarvegi upp Vogatungu áður en komið er upp á Digranesveg og að endastöð á brúnni. Vogatungan er nokkuð brött og strætisvagnar engir sportbílar þannig að ekki veitir af mest öllu vélaraflinu til að halda ferð upp brekkuna og þess vegna oft einfaldlega staðið í botni þarna upp. Það gerði ég líka í þessari ferð en þegar ég var að koma efst í brekkuna og ætlaði að fara að að slá af fyrir biðskylduna efst við Digranesveg gerðist ekkert, vagninn æddi bara áfram. Ég steig fast á bremsurnar og það hægði mikið á honum og teigði mig niður og togaði inngjöfina með handafli upp og náði að stoppa á síðustu stundu stundu áður en ég ók í veg fyrir umferðina á Digranesvegi. Síðan læddist ég hægt og rólaga þá metra sem eftir voru niður að endastöðinni á brúnni en það var engin hægagangur í hjartslættinum eftir þessa lífsreynslu. Ég náði síðan sambandi við verkstæði og lét senda mér annan vagn.
Þetta er afskaplega óþægileg lífsreynsla og ekki spurning að þetta er mjög hættulegt þar sem er lítið pláss og lítill tími til að bregðast við en í sjálfu sér er ekki flókið að stöðva bíl sem "fælist". Og hraðbraut er líklega skársti staðurinn til að lenda í svona. Það er mögulegt að manngreyið hafi einfaldlega frosið og ekki brugðist við þess vegna, síðan eru sumir einfaldlega óhæfir ökumenn og kunna þar með ekki að bregðast við óvæntum aðstæðum.
Einar Steinsson, 18.3.2010 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.