Gullfiskaminnið og Ragnar Reykás bregðast ekki!

Gullfiskaminni landsmanna bregst ekki. Aðeins einu ári og fimm mánuðum eftir að flokkarnir sem lögðu dag við nótt í tólf ár við að leggja grunninn að hruninu, hrökkluðust frá völdum, eru þeir komnir með meira fylgi en þeir höfðu í lok hins "farsæla" samstarfs síns.

Krafa þjóðarinnar sýnist vera ljós: Við viljum gömlu, góðu stóriðju- og einkavinavæðingarflokkana aftur!

Ekki þá, sem spruttu upp úr Búsáhaldabyltingunni og tókst að sundra sér á margfalt styttri tíma en nokkru öðru nýju stjórnmálaafli.  

Ekki vinstri flokka sem eru á móti atvinnuuppbyggingu!  

Nei, nýtt "gróðæri"! Nýjan Davíð! Nýjan Halldór! Nýtt fóstbræðralag manna sem kunna að stýra þjóðfélagi okkar á ný upp í hæstu hæðir!

Menn, sem hafa þor og kjark til að losa okkur við AGS og geta bægt frá okkur norrænum óvinaþjóðum!  

Menn sem hafa dug til að sækja þessar hundruð milljarða sem vantar beint í ríkissjóð, sem þar að auki verði notaður til að greiða þeim, sem fóru fremstir í flokki með að stofna til milljarða skulda, minnst 20% af þeim skuldum. 

Ríkissjóði verði gert kleift að standa undir slíku með því að draga saman ríkisútgjöld eins og þarf!  Upp með gamla slagorðið" Báknið burt! 

Gleymt verður að "báknið", ríkisútgjöldin, uxu aldrei hraðar í sögu þjóðarinnar en þegar þessi flokkar voru á hátindi valda sinna.  

Hér um árið var vinsæll söngur nokkur sem var með þessari hendingu: Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið.

Ég skil svo sem vel margan Íslending, sem er greinilega óánægður með það hvað það er leiðinlegt og gengur illa að standa í slökkvistarfi eftir stærsta fjármunastórbruna Íslandssögunnar.

Vil tileinka honum þetta vísukorn: 

 

 Minni gullfiskanna seint um síðir  / 

sýnist ráða öllu, það er meinið.  / 

Viðurkenndu nú að þetta þýðir  

að þú ert Ragnar Reykás inn við beinið.  /   


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn með 40,3% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þessi skoðanakönnun er aðferðalega kolröng.

Í Fréttablaðinu í dag um gríðarlega fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins og vísað í nýjustu skoðanakönnunina. Þegar forsendur þessarar könnunar er skoðuð þá blasir við furðuleg aðferðafræði:

Í stað þess að getið sé um fjölda þeirra sem annað hvort neita að svara eða hafa ekki afstöðu þá eru lagðar fram veiðandi spurning: Ef ekkert svar fékkst að lokum var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokk eða einhvern annan flokk?

Svona aðferðafræði og framlagning spurninga er ekki til þess fallin að vera mjög vísindaleg. Hún samræmist ekki sjónarmiðum um mótun skoðana og þróun lýðræðis.

Veiðandi spurningar eru ekki leyfðar í yfirheyrslum lögreglu eða fyrir dómi. Spurning má aldrei vera þannig lögð að í henni sé innbyggt fyrirfram svar.

Spurning er hvort ekki sé rétt að setja einhverjar skynsamlegar reglur um skoðanakannanir og binda í lög?

Fyrir nokkrum árum voru sett lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Það gekk ekki þrautalaust og voru uppi sjónarmið að þetta væri með öllu óþarft, Ísland væri jú eitt minnst spilla land heims! Þessi lög ná að vísu ekki nema hálfa leið og þyrfti að skerpa á þeim betur, t.d. setja þvingunarákvæði þegar ekki er farið eftir þeiim eins og í ljós hefur komið hvað einn stjórnmálaflokkinn varðar.

Guðjón Jensson
Mosfellsbæ

Guðjón Sigþór Jensson, 19.3.2010 kl. 10:26

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Viðbótarspurningin um Sjálfstæðisflokkinn kom þannig til að árum saman kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn fékk minna í kosningum en í skoðanakönnunum, vegna þess að þeir, sem ætluðu að kjósa aðra flokka áttu erfitt með að velja á milli þeirra, en þeir sem ætluðu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, þurftu síður að velja á milli svipaðra flokka.

Í ljós kom að með því að bæta þessari spurningu við fengust tölur sem fóru nær tölum í kosningunum.

Í ljósi breyttst stjórnmálaástands að mörgu leyti er hins vegar spurning, hvort viðbótarspurningin þjónar hinum gamla tilgangi sínum eins vel og hún gerði.

Ómar Ragnarsson, 19.3.2010 kl. 10:32

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er algerlega súrrealískt. Nú verða mennað fara að heimta Þjóðstjórn af meiri háreysti. Kosningar eru ekki málið, því valkostirnir út úr ógöngunum eru engir. Fólk veit greinilega ekki sitt rjúkandi ráð. Hér er alger stjórnarfars og lýðræðiskreppa. Valoið er á milli öskunnar og eldsins. Ég neita að trúa því að það sé traustur grunnur fyrir slíkum tölum.  Kannski er þetta einn andskotans spuninn enn. Svona andhverfur hvati um að halda sig til vinstri. Það er ótrúlegt hvað hægt er að fá fólk til að heimta með slíkum aðferðum. Göbbels kunni þetta upp á sína 10 fingur.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.3.2010 kl. 10:38

4 Smámynd: Hörður Halldórsson

"Við viljum gömlu, góðu stóriðju- og einkavinavæðingarflokkana aftur"!Helst ekki.Á austurlandi eru á annað hundrað íbúðir auðar ,fólk fylktist ekkert austur .Fiskeldi á austfjörðum kafnaði í góðærinu sem dæmi um ruðningsáhrif stóriðjunnar,svo ég taki smá dæmi.

Hörður Halldórsson, 19.3.2010 kl. 10:42

5 identicon

...Sammála hverju orði hjá þér Ómar.

Res (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 11:10

6 identicon

Ef við gerum ráð fyrir því að þátttakan hafi verið 88% (svarhlutfall hinnar spurnarinnar; en raunveruleg þátttaka kom aldrei fram) þá sögðust 194 af 704 myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það gera 27,5% (+-3,3%). Samkvæmt kenningunni í svari númer 2 (að þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru líklegri til að segja það í skoðanakönnunum) er þessi tala nokkuð traust.

Það sem er öðruvísi við þessa 27,5% +-3,3% er að þarna er ég búinn að reikna inn þá sem tóku ekki afstöðu en tóku þátt í könnuninni og skv. kenningunni eru að velta fyrir sér hvaða flokk annan en XD þeir eiga að kjósa. Hlutfall óákveðinna er þá 228 af 709, eða 32,2% (+-3,4%)

En ég held að þeir 319 (39,9%) sem tóku ekki afstöðu muni ekki dreifast jafnt á alla flokkana eins og framsettningin gerir ráð fyrir né dreifast jafnt á alla flokka nema sjálfstæðisflokkinn eins og 27,5% +-3,3% talan gerir ráð fyrir. Heldur held ég að þessir 319 sem tóku ekki afstöðu eru að velta fyrir sér hvort þeir eigi að taka þátt í þessum skrípaleik og munu skilar sér í auðum og ógildum atkvæðum, þátttökuleysi í kosningum og/eða svörtum fánum við þinghúsið sama hver sé þar inni.

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 11:35

7 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Eftir að hafa fylgst með eins og mögulegt er héðan sem ég sit við tölvuna mína í Noregi, þá hef ég smátt og smátt komist að þeirri niðurstöðu þrátt fyrir "slagorðin" og "búsáhaldabyltingu" séu æði margir sem bæði óska og vona að "sukkið" komi tilbaka, verði ykkur að góðu, en að þeir séu svo margir sem raun ber vitni, nei það hélt ég ekki, sem gamall og gróinn "íhaldskall" inn við beinið, er ég líka búinn að vera að leita "afsökun" og "við munum aldrei gera þetta aftur" frá xD, en...... 

Kristján Hilmarsson, 19.3.2010 kl. 11:52

8 identicon

Spurningin sem þið þurfið að spyrja ykkur er, hvernig hefur Samfylkingunni og sérstaklega Vinstri Grænum tekist að líta ver út en flokkur sem er enn á kafi í miðjum fjóshaugnum.  Er ekki kominn tími til að vinstri menn og konur líti í spegil og svari heiðarlega spurningunni, "hvað er að mér?" 

Skorturinn á pólitískri skynsemi er alger, núna síðast í dag sá Álfheiður um að slíta af ykkur fylgið með ráðningu vinkonu sinar.  

Sveinn, ekki kenna þjóðinni um, ykkur var boðið á dansleik af þjóðinni, ykkur var sagt að vera í jakkafötum síðkjólum og vel tilhöfð á sama tíma og aðrir ballgestir væru klæddir sem útigangsmenn/konur, samt tekst ykkur ekki að líta betur út en samkeppnin, höfðuð ekki skynsemi til að gera það sem fyrir ykkur var lagt.  Þið sem fengu forskot, tiltrú og allt upp í hendurnar.

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 11:53

9 Smámynd: Sævar Helgason

Þjóðstjórn segir einn.  Höfum við ekki verið með þjóðstjórn að mestu i þessu Icesavemáli ? Hver er árangurinn ?

Þessi 5 ár sem við höfum ekki haft erlent vald,síðan á Sturlungaöld , til að halda í hendina á okkur með einum eða öðrum hætti -hafa sýnt að ein og óstudd getum við ekki stjórnað okkur sjálf. Menn kalla á samstöðu. Samstöðu hverra ? Við sjáum samstöðuna í Icesave...

Sævar Helgason, 19.3.2010 kl. 12:22

10 Smámynd: Billi bilaði

Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég sé þig skripla á skötu í vísnagerð.

ES: Fjórflokkinn hef ég ekki kosið lengi og mun aldrey aftur gera. Reykássheilkennið mun ekki plaga mig það mikið.

Billi bilaði, 19.3.2010 kl. 13:08

11 Smámynd: Guðmundur Kristinn Þórðarson

Vill þjóðin áram Davíð segir þú Ómar það veit ég ekki, en það vil ég ,athugaðu að Davíð hætti í sjórmálu raunveulga eftir kosningar 2003,þá tókst að klekkja á honum af Bausmiðlum og Samfylkingu sem var einstaklega rætið,eftir 2003 hefur landið verið stjórnlaust  fram að hruni stjórnað af auðmönnum og fjölmiðlum tengdum þeim 

Guðmundur Kristinn Þórðarson, 19.3.2010 kl. 13:18

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Billi bilaði, - ég sló þetta inn í miklum flýti í morgun og þegar ég sá athugasemd þína stökk ég strax inn á bloggið og sá að fyrsta línan í vísunni var herfileg.

Lagaði hana í snarhasti og vona að þetta hafi skánað eitthvað við það. 

Ómar Ragnarsson, 19.3.2010 kl. 13:21

13 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

"Andvarp" Stalín, Berlínarmúrinn og kalda stríðið "andvarp"

En svona grínlaust, ef mönnum dettur í hug sú fásinna að fara í kosningar og hundsa kröfuna um utanþingsstjórn, þá mun koma fram stíf umræða um að kjósendur hreinlega sitji heima.

Hins vegar er ekkert lát á feilskotum og steinsmugum núverandi stjórnar - með hugmyndir um skattlagningu afskrifta vegna almennra húsnæðislána, sem nýjasta bremsufar upp á bak...

Haraldur Rafn Ingvason, 19.3.2010 kl. 13:30

14 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Kæri Ómar, það að 40% vilji kjósa BÓFAflokkinn til valda, eftir að þeir hafa staðið fyrir stuðning við "einkavinavæðingu - kvótasvikmyllu - DeCode & aðrar svikamyllur" þá segir það ofsalega mikið um VERKSTJÓRN Lady GaGa, SteinFREÐ og þessa AUMU ríkisstjórn sem hefur því miður ekki VALDIÐ þessu verkefni.  Í raun er Samspilling í annað sinn að stranda þjóðarskútunni - nú er mál að linni!  Þessi ríkisstjórn hefur t.d. ALDREI tekið í mál að standa fyrir LEIÐRÉTTINGU - fólkið í landinu mun því koma þessari stórhættulegu ríkisstjórn frá völdum og hleypa RÁNfuglinum aftur að!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 19.3.2010 kl. 18:43

15 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Spurning er hvernig getum við stuiðlað að heilbrigðri þróun lýðræðis á Íslandi?

Hér hafa orðið gríðarlegar eignabreytingar þar sem ýms gróðaöfl eru að yrkja jarðveginn rétt eins og Þýskalandi 1932. Þá komu fulltrúar þriggja aðila í samfélaginu saman og höfðu eitt markmið: að grafa undan Weimarlýðveldinu á sem skjótastan hátt. Þessir þrír aðilar voru: ýmsir iðnjörfar með Krupp ættina í forystu, þýski landeigendaaðallinn, Júnkaranir og fulltrúar þýska þjóðernisflokksins. Þetta tókst þegar leið undir lok janúar 1933. Um tveim árum síðar var Þýskaland að hervæðast og hafði ákvæði Versalasamningana að vettugi. Ekki þarf að víkja nánar að því sem síðar varð.

Sagan endurtekur sig oft að breyttum breytanda. Hún spyr hvorki um land, þjóð né efnahag.

Nú í dag eru gróðapungarnir og íhaldsöflin að rotta sig saman á Íslandi og reyna hvað þau geta til að grafa undan ríkisstjórninni. Icesave málið var liður í þeirri „baráttu“. Nú er komið með eitthvað dularfullt hlutafélag með gamlar herþotur sem á að freista Íslendinga. Hverjir skyldu vera þessir hluthafar? Eiga Hells Angels hluta? Hvað með Mafíuna og jafnvel þaðan af verri og við'sjárverðari aðila?

Í dag er það andskotinn sjálfur sem dregur okkur upp á Esjuna, sýnir okkur dásemdir heimsins sem þaðan má sjá og freistar okkur: Allt þetta vill eg gefa þér ef þú fellur að fótum mínum!

Ó svei!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 19.3.2010 kl. 19:08

16 identicon

Það er í raun stórkostlegt að menn vilji nú hlusta á Náhrím Nei-kvæða með að það verði stjórnarkreppa er að þing verði rofið.

Enginn vildi hlusta á Geir fyrir 18 mánuðum síðan segja hið sama.

Nú vilja menn hlusta á glaman komma sem hefur tekist að ljúga og svíkja fleiri kosningaloforð og önnur loforð á tæpu ári en að Davíð, Halldór og Árni Johnsen hafa sameginlega gert síðan í framhaldsskóla. Aðila sem beitir Stazi menntuðum skattaruglukolli eins og ljá á almenning í landinu.

Menn og konur þurfa jú að hugsa sig aðeins um þegar að Jóhrannar og Nágrímur standa í pontu með stóra Davíðs-baksýnisspegilin.

Þau tvö voru búin að vera áratug á þingi að gera ekki neitt þegar að Davíð kom þangað....

Óskar G (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 22:24

17 identicon

Þegar ég las vísukornið hér að neðan kom upp í huga mér vísa sem ég samdi fyrir rúmum áratug...

Bóndi minn kæri og búalið

Ennþá lengist þín langa bið

Því ráðherrann lýgur

og í burtu flýgur 

Með illa ígrundað atkvæðið.

Óskar G (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband