20.3.2010 | 19:26
Var heppinn að lenda ekki í svipuðu.
Reiðhjól sýnast ekki sömu manndrápstæki og bílar en geta samt verið það, samanber frétt af hjólreiðamanni sem hjólaði á danska konu.
Sjálfur mátti ég þakka fyrir að valda ekki stórslysi 1. apríl 1960 þegar ég dró fram gamla reiðhjólið mitt og kom í Menntaskólinn á því vegna þess að ég óttaðist að litli Prinz-bíllinn minn yrði tekinn af hrekkjalómum á þessum degi og gert eitthvað við hann, til dæmis skólanum lokað með honum, af því að hann passaði nákvæmlega inn í skotið, sem bakdyrnar voru í.
Ég hafði verið að segja skólasystkinum mínum frá því að ég hefði æft mig í því að stökkva af hjólinu á ferð ef keðjan slitnaði eða það yrði hemlalaust.
Umræðan spannst æ lengra og loks var ákveðið að ég sýndi þetta á bröttu túninu fyrir framan skólann í löngu frímínútunum þegar gert yrði hlé í tilefni dagsins.
Trixið fólst í því að hoppa af hjólinu eins og kúreki af hesti og koma hlaupandi niður, en síðasta snerting mín væri með hendinni, sem ég notaði til að kippa í stýrið svo að það snerist og hjólið færi þar með snöggt á hvolf.
Þetta gekk allt vel í fyrstu. Ég brunaði niður túnið og stökk af hjólinu á fullri ferð og kom hlaupandi niður niður.
En síðan klikkaði þetta með síðustu snertinguna og hjólið brunaði mannlaust áfram.
Það sló þögn á nemendaskarann uppi á brekkunni þegar hann horfði í ofvæni á það að hjólið stefndi fram af brekkubrúninni og stefndi á höfuð og bakhluta konu, sem sat þar á bekk og beið eftir strætó!
Ofan frá að sjá var engu líkara en að hjólið lenti beint á höfði konunnar! En síðan féll það niður fyrir aftan bekkinn með kengbogna hjólgjörð og gaffal, og var ekki hjólað á því meir.
Konan stóð hins vegar upp og hristi sig, leit til baka og undraðist á sjá hjólið liggja ónýtt á jörðinni.
Í sama bili renndi strætisvagn þar að og þá sást, hvað hafði gerst og orðið mér og konunni til bjargar.
Hún hafði beygt sig áfram til að taka upp tösku sína einmitt á því augnabliki sem hjólið small á baki bekksins, sem hún sat á!
Ég átti aðvífandi strætisvagni á hárréttu augnabliki það að þakka að hafa ekki valdið stórslysi. Þetta er eitt af mörgu úr lífshlaupi mínu sem ég get þakkað forsjóninni fyrir.
Hjólaði á danska konu sem lést | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Búinn að vera hjólandi síðan ég keyrði útaf og eyðilagði bílinn fyrir hálfu öðru ári síðan.
Frábært, núll mengun, líkamsrækt og ódýrt. Einnig mjög skemmtilegt.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 20:58
Pínulítinn prinsinn sinn,
penan faldi apann,
hljóp þó mikið kapp í kinn,
og konu næstum drap'ann.
Þorsteinn Briem, 20.3.2010 kl. 22:31
Ég hjóla allra minna ferða og því miður skapast oft slysahætta vegna þess að fólk hefur það ekki á hreinu að það sé hægri umferð. Nánast annar hver gangandi og hjólandi maður sem ég mæti er ákveðinn í að mæta eins og um vinstri umferð sé að ræða þannig að oft þarf ég að snöggbeygja til vinstri á síðustu stundu, til að forðast árekstur. Eitt sinn mætti ég skokkara og ætlaði ég að sýna á áberandi hátt að ég væri að víkja til hægri með því að fara út af stígnum hægra megin, það endaði með að við skullum saman 2,5 metrum utan við stíginn. Þessu er einfallt að bjarga með því að mála línu eftir miðjum stíg og svo örvar til að mynna fólk á að vera hægra megin.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 22:43
Ég hjóla mikið, en kvarta sáran undan hjólreinaleysi, sérstaklega hér í Hafnarfirði, enda lítill hraði ef eltast á við göngustíga, sem eru lítið samhangandi og passa lítið með hjólaumferð. En Ómar alltaf ertu jafn skemmtilegur í frásögnum ég sá þetta alveg ljóslifandi fyrir mér.
Helena Mjöll Jóhannsdóttir, 22.3.2010 kl. 05:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.