Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Ég sé að á blogginu hefur hafist nokkuð æsingakennd umræða hjá sumum hverjum um hið hörmulega slys á Emstrum.

Þó hefur ekki farið fram yfirheyrsla á konunni sem komst af. 

Ætli það sé ekki rétt að bíða og sjá hvað út úr henni og öðrum þáttum rannsóknar kemur áður en lengra er haldið í því að krefjast jafnvel "óháðrar" rannsóknar í stað þeirrar hefðbundnu, sem ævinlega á sér stað þegar slys verða?

Það sem gerir þetta mál snúnara er það að bíllinn er kominn svo langt inn á Fjallabaksleið syðri, af því a hann er á leið frá byggð og í átt frá eldgosinu. 

Það, að ekið er þar til bensínið er búið og síðan lagt af stað gangandi bendir til þess að fólkið hafi haldið að það væri á leið til byggða og í átt að eldgosinu frekar en hitt og að það hefur haldið að margfalt styttra væri að ganga til baka en það var í raun. 

Ég þekki það sjálfur hvað snertir Gilsá að áreyrar hennar er "flóknar" á sumum stöðum, ef svo má að orði komast, og í miklum barningi og lélegu skyggni getur ókunnugur auðveldlega ruglast á því í lokin í hvora áttina hann sé að fara upp úr þeirri á.

Einnig er sá möguleiki fyrir hendi og líklegri að ef fólk tapar slóð og kemst síðan inn á hana aftur getur það auðveldlega ruglast á því í hvaða átt vegurinn eða slóðin liggur. 

Einhvern tíman á leið fólksins er líklegt að það hafi byrjað á að aka í burt frá byggð í stað þess að aka í áttina til byggðar. 

Allar ályktanir og ákvarðanir sem teknar eru eftir það verða þar af leiðandi rangar, hrapallega rangar.

Því betur sem þeim finnst að þeim gangi til baka, því lengra í burtu ekur það. 

Ef þetta hefur gerst þegar bíllinn varð laus úr ánni eða skömmu eftir það útskýrir það það að hjálp er afþökkuð. Fólkið dregur þá ályktun að úr því að það hefur losnað úr festunni verð leiðin tiltölega greið til baka, sú sama leið og það kom.

Slíkt getur komið fyrir hvern sem er og ætti hver og einn að geta minnst þess að einhvern tíma á ævinni hafi það komið fyrir okkur öll þegar við erum villt á ókunnugum slóðum. 

Í litlum vasa á bakpoka mínum, sem ég hef alltaf meðferðis á ferðum mínum, eru tveir litlir áttavitar, sem gætu komist fyrir í veski.

Þetta eru einföldustu og ódýrustu öryggistæki sem hægt er að hugsa sér á ferðalögum um ókunnar slóðir.

Hve margir af þeim bloggurum, sem nú eru byrjaðir að æsa sig út af þessu máli, hafa slíkt meðferðis?

Eigum við nú ekki aðeins að róa okkur niður og muna eftir orðum skáldsins að "aðgát skal höfð í nærveru sálar" þegar margt fólk á nú um sárt að binda?  

 

 


mbl.is Rannsókn að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Svona slys eru alltaf skelfileg. Það er engin ástæða til að vera með getgátur eða velta sér upp úr því, af virðingu við aðstandendur.

Málið er komið í rannsókn, þegar henni er lokið gæti verið að eitthvað megi læra af þessu slysi. Þangað til ætti fólk ekki að vera tjá sig um það.

Gunnar Heiðarsson, 7.4.2010 kl. 15:34

2 Smámynd: Halla Rut

Ég held að við séum öll svo slegin yfir þessu og tilfinningar eins og reiði kemur upp á yfirborðið. Reiðin kemur af sorg vegna samborgara okkar.

Halla Rut , 7.4.2010 kl. 17:16

3 Smámynd: corvus corax

Eftir miklar pælingar í framhaldi af þeim upplýsingum sem gefnar hafa verið um ferðir þremenninganna fyrir þetta hörmulega slys, velti ég upp þeirri spurningu hvort þau hafi hugsanlega komið inn á Fjallabaksveg syðri úr Skaftártungu og því verið allan tímann á réttri stefnu í áttina að Fljótshlíðinni, fyrst á bílnum og að síðustu gangandi. Einhvern veginn finnst mér það líklegra heldur en að þau hafi farið úr Fljótshlíð í "öfuga" átt.

corvus corax, 7.4.2010 kl. 17:42

4 identicon

...og af hverju erum við reið, Halla Rut?

Af því menn eins og Ómar Ragnarsson hafa, leynt og ljóst, æst fólk upp í að "skjótast" uppeftir eins og að sumarlægi væri!!!

Já, ég er virkilega reiður ...

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1037879/

Egill Þór (IP-tala skráð) 7.4.2010 kl. 18:45

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var sumarfæri á veginum á þjóðveginum að austasta bænum í Fljótshlíðinni og lengra þurfti ekki að fara til að sjá gosið þaðan megin frá í ljósaskiptunum.

Ómar Ragnarsson, 7.4.2010 kl. 19:06

6 identicon

... eins og Jóhannes sagði "Boð og bönn gera kannski ekki mikið, nema ástandið sé orðið mjög alvarlegt. Hins vegar eiga það margir til, og er ég líklega engin sérstök undantekning, að vanmeta náttúruna.

Núna þegar verið er að tala um Fimmvörðuháls, sem létta túristagöngu, allavega það er það sem maður heyrir í umræðunni, þá er ekki von á góðu. Sér í lagi á þessum árstíma.

Ég held að menn einfaldlega OFMETI getu hins venjulega borgara að átta sig á aðstæðum þarna."

Egill Þór (IP-tala skráð) 7.4.2010 kl. 19:24

7 Smámynd: Samúel Úlfur Þór

Mikið til í þessum pistli Ómar, hinsvegar má ekki gleymast að gagnrýnisraddir, eiga sér alveg rétt. Hugsanlega má læra á þessu, en sennilega ekkert nýtt, enda er það ekki nýtt undir sólinni að fólk verði úti á hálendi Íslands. Þó að náttúran sé ægifögur, getur hún einnig reynst skaðleg, sé ekki rétt að henni farið.

Nú nýverið bar að í Húsadal einn frakka nokkurn, er hafði týnt áttum og vaðið Markarfljótið. Til allrar lukku rambaði hann á ljósin í Húsadal, ellegar hefði hann orðið úti...

@ Egill Þór:

Menn taka á sjálfum sér ábyrgð, þannig er það bara. Því miður, getur fólk tekið rangar ákvarðanir, sumar sem jafnvel geta kostað það lífið.

Ómar bendir hér réttilega á, að leiðir að útsýnisstöðum gossins ættu að vera á færum flestra. Það er hinsvegar ekki því viðbjargandi að fólk ráfi um villur vegar.

Líklegast skýringin sem ég get séð á þessu slysi, án þess að þekkja nóg til, enda þarf ekki mikið til að valda því að ekið sé í ranga átt, er sú að vanþekking á þessu svæði, hafi valdið því að röng leið hafi verið valin í upphafi.

Það er ekkert grín að ferðast þarna að vetri til, ekki svona innarlega á hálendinu.

Fólk þarf að hafa lágmarksbúnað og þekkingu komi eitthvað uppá, eins og þarna gerði.

Ég gæti eflaust skrifað endalaust, en læt þetta nægja. Enda hefur sjálfsagt allt sem segja þarf, verið sagt nú þegar.

Ég vil einnig taka það fram að það er ekki vilji minn að særa einn né neinn með mínum skrifum.

Kær kveðja, Samúel Úlfr

Samúel Úlfur Þór, 7.4.2010 kl. 19:31

8 identicon

Svo innilega sammála Ómari. Það er allt of oft sem almenningur og fjölmiðlar dæma fyrirfram. Hárrétt að "aðgát skal höfð í nærveru sálar."

Ingibjörg Björnsdóttir (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 09:28

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þetta slys er mjög sorglegt sérstaklega þegar haft er í huga hversu brýnt er að vera með góðan útbúnað bæði vistir og skjólgóð og hlý föt og skótau. Þarna voru engir „unglingar“ eða útlendingar á ferð og fullljóst að viðkomandi hafi sýnt af sér allt of mikla léttúð og fyrirhyggjuleysi gagnvart þeim aðstæðum sem þarna voru.

Spurning er hvort fólk hefði farið varlegar ef það hefði vitað að það þyrfti að borga útkall björgunarsveita og sett hafi verið upp gjaldskrá? Kannski að það kynni að halda aftur af fólki að fara út í vanhugsaðar ævintýraferðir ef því væri ljóst að það þyrfti að greiða fyrir þessa þjónustu björgunarsveita eins og er t.d. hjá Svissurum.

Hvað ætli þessi leit hafi kostað? Það hlýtur að vera töluverður samfélagslegur kostnaður að senda á 3ja hundrað manns til leitar ásamt þyrlu.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.4.2010 kl. 10:43

10 identicon

Eigum við ekki að sleppa því að minnast á kostnað í þessu sambandi?  Er það ekki nógu slæmt að tvö dauðsföll urðu?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 11:36

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í frétt Fréttablaðsins í gær var sagt í fyrirsögn að slysið hefði orðið "nærri" eldstöðvunum.

Hið rétta er að slysið varð "fjarri" eldstöðvunum. Frá eldstöðvunum að staðnum, þar sem bíllinn fannst, eru 28 km í loftlínu eða álíka langt og frá Reykjavík upp í Leirársveit. 

Bílnum hafði verið ekið ca 35 kílómetra vegalengd frá Gilsá í áttina frá eldstöðvunum. 

Það er athyglisvert að blaðamaður, sem skrifar fréttina, er ekki betur að sér um málið en þetta. Við hverju má þá búast af öðrum? 

Ómar Ragnarsson, 8.4.2010 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband